KA vann Völsung 3-0 í fyrsta leik úrslitaeinvígis efstu deildar kvenna í blaki. KA tók fyrstu hrinu 25-21, næstu 25-14 og niðurstaðan í þriðju hrinunni var 25-17.
KA hefur orðið Íslandsmeistari kvenna síðastliðin þrjú ár.
Emil Barja þjálfari Hauka fer yfir málin með sínu liði.Mummi Lú
Haukar knúðu fram oddaleik í einvíginu gegn Grindavík í átta liða úrslitum efstu deildar kvenna í körfubolta. Grindavík komst í 2-0 í einvíginu en Haukar hafa nú jafnað metin í 2-2. Haukar unnu fimm stiga sigur, 81-86. Leikurinn var jafn nær allan tímann. Haukar leiddu 22-26 eftir fyrsta leikhluta en Grindavík var tveimur stigum yfir í hálfleik, 44-42.
Haukar náðu svo örlitlu forskoti í fjórða leikhluta og héldu út.
Oddaleikurinn fer fram miðvikudaginn 16. apríl á heimavelli Hauka.
Slökkviliðsaðgerðum er lokið við Bólstaðarhlíð í Reykjavík þar sem eldur kviknaði í bílskúr nú undir kvöld. Talsvert viðbragð var á staðnum en vel gekk að slökkva eldinn.
Sigurjón Ólafsson hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir að eldur hafi komist í þak bílskúrsins og því hafi þurft að rífa hluta þaksins til að slökkva hann.
Lögreglu hefur verið afhendur vettvangur til rannsóknar.
Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun vegna norðanhríðar í þremur landshlutum á morgun. Fyrsta viðvörunin tekur gildi á Austfjörðum klukkan sex í fyrramálið. Sú næsta tekur gildi á Austurlandi að Glettingi klukkan 11 og loks á Norðurlandi eystra klukkan 14. Viðvaranirnar gilda til miðnættis annað kvöld.
Búast má við lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.
Declan Rice á fleygiferð í leiknum.EPA-EFE / NEIL HALL
Arsenal og Brentford gerðu 1-1 jafntefli í leik liðanna í ensku úrvalsdeild karla í fótbolta rétt í þessu. Þar með er forskot Liverpool, sem er í efsta sætinu, tíu stig. Liverpool menn geta með sigri á morgun gegn West Ham tryggst sér þrettán stiga forystu þegar sex leikir eru til stefnu.
Mark Kieran Tierney var dæmt af í fyrri hálfleik og staðan því markalaus í hálfleik. Thomas Partey kom heimamönnum í Arsenal yfir eftir 62 mínútur. Yoane Wissa jafnaði metin á 74. mínútu.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er að stöfum í Bólstaðarhlíð vegna elds sem kom upp í bílskúr. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er að mestu búið að ná tökum á eldinum.
Enginn var inni í bílskúrnum þegar slökkvilið bar að garði.
Eins og sjá má á þessari mynd voru minnst þrír slökkvibílar kallaðir út og þrír sjúkrabílar.
Þremur leikjum í ensku úrvalsdeild karla í fótbolta lauk nú rétt í þessu. Hinn spænski Marco Asensio klúðraði tveimur vítaspyrnum í 0-3 sigri Aston Villa gegn lánlausum Southampton mönnum.
Ollie Watkins, Donyell Malen og John McGinn skoruðu mörk Villa sem öll komu á lokakaflanum.
Everton vann Nottingham Forest 0-1 og Brighton og Leicester gerðu 2-2 jafntefli. Fyrr í dag vann Manchester City 5-2 sigur á Crystal Palace.
Ökumaður var handtekinn á sjöunda tímanum í morgun eftir að hann missti stjórn á bifreið sinni í Skarphéðinsgötu í Reykjavík með þeim afleiðingum að hún endaði á hliðinni. Tjón varð á tveimur öðrum bifreiðum.
Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir engin slys hafa orðið á fólki. Hann segir að ökumaðurinn sé grunaður um að hafa ekið undir áhrifum en að málið sé í rannsókn.
Deild innan ísraelska hersins, sem er alræmd fyrir grimmd og pyntingar, er sögð hafa verið viðstödd þegar ísraelskir hermenn drápu 15 bráðaliða nærri Rafah á Gaza í síðasta mánuði.
Mennirnir voru um borð í sjúkrabíl, slökkviliðsbíl og bíl frá Sameinuðu þjóðunum þegar hermenn skutu á bílalestina og grófu hina látnu í grunnri fjöldagröf.
Breska blaðið Guardian segir að deild 504 innan ísraelska hersins, sem herforinginn Yehuda Vach, leiðir, hafi verið viðstödd.
Hermenn úr deild Vachs hafa áður verið sakaðir um stríðsglæpi á Gaza, meðal annars dráp á almennum borgurum, ósæmilega meðferð á líkum og hvatningu til þjóðarmorðs.
Skjáskot úr myndbandi Rauða hálfmánans sem sýnir bílalestina sem Ísraelsher skaut á.AP/Palestinian Red Crescent Society / Uncredited
Í dag gengur í austan kalda eða strekking á sunnanverðu landinu með úrkomu, sem verður yfirleitt rigning nærri sjávarmáli, en slydda eða snjókoma í uppsveitum og á heiðum. Á norðurhelmingi landsins verður hægari vindur í dag og bjart veður.
Veðurstofa Íslands
Á morgun, sunnudag, gengur í allhvassa eða hvassa norðanátt. Með henni fylgir snjókoma, fyrst á austanverðu landinu, en einnig norðanlands síðar um daginn. Yfirleitt þurrt suðvestantil. Spár gera síðan ráð fyrir að við verðum í kaldri norðanátt áfram fram eftir næstu viku. Ofankoma af og til á norðurhelmingi landsins, en yfirleitt þurrt sunnanlands.
Engar hvalveiðar verða á vegum Hvals hf. í sumar, eins og greint var frá í fréttum í gær. Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals, ástæðu þess vera aðstæður í heimsmálum. Afurðaverðsþróun í Japan hafi verið óhagstæð að undanförnu og fari versnandi. Verð afurða félagsins verði það lágt að ekki sé forsvaranlegt að stunda veiðar í sumar.
Lágt gengi krónunnar gagnvart japanska jeninu hjálpi heldur ekki til, né umrót á heimsmörkuðum. Hvalur hf. sjái ekkert annað í stöðunni en að bíða betri tíma og endurmeta stöðuna á nýju ári.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samþykkti í gær tuttugu milljarða dala neyðarlánveitingu til Argentínu, sem hefur um árabil glímt við mikla verðbólgu. Hún hefur þó lækkað umtalsvert síðustu misseri í kjölfar hagræðingaraðgerða forsetans Javier Milei, sem hafa vakið hörð viðbrögð heima fyrir.
Lán Argentínu hjá sjóðnum nema þegar yfir 40 milljörðum dala.
Alþjóðabankinn tilkynnti einnig um tólf milljarða dala stuðning til Argentínu og Þróunarbanki Ameríkuríkja um allt að tíu milljarða dala stuðning.
Milei fagnaði þessu í sjónvarpsávarpi í gærkvöld. Hann sagði að efnahagur Argentínu yrði einn sá sterkasti næstu þrjá áratugi.
Javier Milei er forseti Argentínu.EPA-EFE / JUAN PABLO PINO
Tveir leikir voru spilaðir í 8-liða úrslitum Bónusdeildar karla í körfubolta í kvöld.
Njarðvík var með bakið upp við vegg þegar liðið fékk Álftanes í heimsókn enda hafði liðið tapað báðum leikjum einvígisins. Eftir æsispennandi fyrri hálfleik léku Njarðvíkingar við hvern sinn fingur í þriðja leikhluta og skópu verðskuldaðan sigur, 107-74.
Í Garðabænum þurfti ÍR að sækja sigur á Stjörnunni, sem var 2-0 yfir í einvíginu. Það gerðu Breiðhyltingar líka í æsispennandi leik sem lauk 87-89, ÍR í vil.
Fjórði leikur beggja viðureigna er á þriðjudaginn næsta.
Íslandsmeistaramótið í sundi hófst í morgun í Laugardalslaug. Tvö Íslandsmet féllu á fyrsta degi.
Birnir Freyr Hálfdánarson setti Íslandsmet í 100 metra flugsundi þegar hann kom í mark á 53,29 sekúndum sem er bæting um 13 hundraðshluta. Örn Arnarson átti metið sem var orðið 19 ára, eða jafn gamalt og Birnir Freyr sem náði með tímanum jafnframt lágmarki fyrir HM.
Birnir Freyr Hálfdánarson var einnig í sveit SH sem setti ÍslandsmetiðRÚV
Birnir var einnig í sveit SH, ásamt Ými Chatenay Sölvasyni, Magnúsi Víði Jónssyni og Veigari Hrafni Sigþórssyni, sem setti nýtt Íslandsmet í 4x200 m skriðsundi karla, 7:41,05.
Sýnt verður beint frá mótinu á RÚV 2 á morgun og á sunnudag og hefst útsending klukkan 16:35 báða dagana.
Árekstur varð á milli tveggja bifreiða á gatnamótum Hlíðarfótar og Hringbrautar í kvöld.
Annar bíllinn valt en Sigurjón Ólafsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir það hafa farið mun betur en á horfðist.
Tveir voru fluttir á slysadeild en Sigurjón segir að báðir séu með tiltölulega smávægilega áverka miðað við alvarleika árekstursins.
Aðspurður kveðst hann ekki vita um tildrög slyssins en segir vettvang lokaðan eins og er á meðan lögreglan rannsaki málið.
Áreksturinn varð á gatnamótum Hringbrautar og Hlíðarfótar.RÚV / María Sigrún HilmarsdóttirVettvangur er lokaður á meðan lögreglan rannsakar málið.RÚV / Oddur Þórðarson
Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, hefur verið endurkjörinn varaformaður Samfylkingarinnar.
Guðmundur Árni Stefánsson, varformaður Samfylkingarinnar.RÚV / Ragnar Visage
Þá var Jón Grétar Þórsson, sem hefur verið gjaldkeri Samfylkingarinnar frá 2022, einnig endurkjörinn. Hvorugur fékk mótframboð og voru báðir því sjálfkjörnir.
Guðný Birna Guðmundsdóttir oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ var kjörin ritari flokksins á landsfundi hans rétt í þessu og hlaut þrjá fjórðu atkvæða. Gylfi Þór Gíslason formaður verkalýðsráðs Samfylkingarinnar sóttist einnig eftir embættinu.
Landsfundur Samfylkingarinnar fer fram í dag og á morgun í Grafarvogi.
Frá landsfundi Samfylkingarinnar.RÚV / Ragnar Visage
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag karlmann í þriggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir fjölmörg kynferðisbrot gegn barnungri frænku sinni.
Þriggja ára fangelsi fyrir svívirðileg brot.Ruv.is / Anton Brink
Hann nauðgaði frænku sinni margsinnis 2014-17. Framkoma hans var svívirðileg segir í dómnum. Stúlkan greindi frá ofbeldinu síðla árs 2022. Maðurinn var handtekinn og barnaníðsefni fannst í síma hans og tölvu sem hann var sakfelldur fyrir. Í dómnum segir að karlmaðurinn eigi sér engar aðrar málsbætur en að hafa verið yngri en 18 ára þegar verstu brotin voru framin. Auk þriggja ára fangelsis var hann dæmdur til að greiða stúlkunni fjórar milljónir króna í miskabætur og réttindagæslumanni tvær milljónir.
Spænska ríkissjónvarpið RTVE hefur óskað eftir umræðu um þátttöku Ísraels í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í ár. Stofnunin hefur sent Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, bréf þar sem óskað er eftir því að þátttaka ísraelska ríkissjónvarpsins KAN verði tekin fyrir á fundi. Áður hafði slóvenska ríkissjónvarpið gert sömu kröfu.
Í bréfinu ítrekar RTVE stuðning sinn við Eurovision en greinir einnig frá áhyggjum af ástandinu á Gaza. Óánægja almennings á Spáni vegna þátttöku Ísraels fari vaxandi.
Yfir fimmtíu þúsund eru látin eftir árásir Ísraelshers á Gaza síðan 7. október 2023.
Vladimír Pútín forseti Rússlands mætir á fund Steve Witkoff, erindreka Bandaríkjanna, í St. Pétursborg í dag. Meðal umræðuefna á fundi þeirra verður Úkraínustríðið.
Dmitry Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, segir Pútín ætla að viðra áhyggjur Rússa á fundinum - og litlar líkur séu á því að tekin verði stór skref í friðarátt á fundinum. Þar verði lögð drög að leiðtogafundi Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Pútíns.
Eistneski sjóherinn stöðvaði siglingu olíuflutningaskips til Rússlands í morgun. Hermenn fóru um borð í skipið til frekari athugunar. Forsætisráðherrann Kristen Michal skrifaði á samfélagsmiðilinn X að skipið sigldi án hentifána, en samkvæmt upplýsingum Marinetraffic, sem fylgist með siglingum, er skipið skráð í Djibútí. Það átti að leggjast að bryggju nærri St. Pétursborg.
Kristen Michal.EPA-EFE / Olivier Matthys
Rússar hafa margsinnis verið sakaðir um að nýta skuggaflota til að flytja vörur til og frá landinu. Þannig hafa þeir reynt að sneiða hjá viðskiptarefsingum vestrænna ríkja. Ekki hefur fengist staðfest að skipið sem Eistar stöðvuðu sé úr flotanum.
Steve Witkoff, erindreki Bandaríkjanna í viðræðum við Rússa, er kominn til Moskvu. Á dagskránni eru viðræður við rússnesk stjórnvöld um mögulegt vopnahlé í Úkraínu.
Talsmaður stjórnvalda í Rússlandi vildi ekki staðfesta í viðtali við fjölmiðla í morgun að Witkoff myndi hitta Pútín Rússlandsforseta.
Witkoff hefur fundað með Pútín tvisvar sinnum á árinu. Eftir síðasta fund sagði hann að Pútín væri „frábær leiðtogi“ og „alls ekki vondur maður“.
Viðsnúningur hefur orðið á stuðningi Bandaríkjanna við Úkraínu eftir að Trump tók við völdum.
Steve Witkoff, erindreki Bandaríkjastjórnar í viðræðum við rússnesk stjórnvöld.EPA-EFE / Al Drago / POOL
Fyrirhuguð vindaflsvirkjun á Laxárdalsheiði í Dölum er í meginfarleið hafarna.
Líklegt er að frekari gögn sýni að virkjanakosturinn falli í verndarflokk þar sem vernd hafarnastofnsins séu verulega mikilvægir náttúruverndarhagsmunir á þessu svæði.
Þetta kemur fram í umsögn Dalabyggðar um tillögur verkefnisstjórnar 5. áfanga rammaáætlunar að flokkun tíu vindorkuverkefna, sem er í samráðsgátt.
Dalabyggð tekur undir að skynsamlegt sé að virkjanakosturinn sé flokkaður í biðflokk að svo stöddu eins og lagt er til í skýrslunni.
Gögn um farleiðir arnarins hafa áhrif á fleiri vindorkukosti á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.
Salah fagnar marki með Liverpool í vetur.EPA-EFE / ADAM VAUGHAN
Fótboltamaðurinn Mohamed Salah hefur skrifað undir framlengingu á samningi sínum við enska félagið Liverpool til 2027. Samningur Salah var að renna út og miklar sögusagnir voru á kreiki um hvort hann myndi halda á önnur mið.
Samningur hans átti að renna út í júní í ár en nú gildir hann út 2027. Hinn egypski Salah þykir meðal bestu sóknarmanna heims og hefur raðað inn mörkunum fyrir Liverpool frá komu sinni árið 2017.
Hann er þriðji markahæstur í sögu Liverpool með 243 mörk í 394 leikjum. Þá er hann markahæstur í ensku úrvalsdeildinni sem stendur með 27 mörk.
Suðvestanátt leggur yfir landið og fylgir henni snjó- eða slydduél í dag. Þó má gera ráð fyrir léttskýjuðu veðri á Austurlandi.
Lægðin sem þessu veldur liggur vestur af Íslandi og fjarlægist í kvöld. Þá lægir vind og má víða búast við frosti í nótt.
Á morgun verður svo austan kaldi. Rigning eða slydda sunnanlands, mest við ströndina en þurrt norðan- og austantil á landinu. Hiti í kringum 1 til 8 stig yfir daginn.
Á sunnudaginn er útlit fyrir hvassa norðaustanátt og snjókomu á austanverðu landinu, en él norðvestanlands. Hiti um eða undir frostmarki.
Vorið er ekki alveg komið miðað við veðurspá dagsins.Ruv.is / Anton Brink
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ætlar að fela Loftslags- og orkusjóði að veita styrki til kaupa á svokölluðum nytjahjólum. Þau eru sérstaklega hönnuð til að flytja ýmist farm eða farþega.
Í færslu Jóhanns Páls á Facebook segir að nytjahjól séu dýr í innkaupum en geti nýst með sams konar hætti og einkabílar. Þannig geti þau dregið úr akstri bíla og brennslu jarðefnaeldsneytis.
Styrkirnir verða allt að 200.000 krónur eða að hámarki þriðjungur af kaupverði hvers hjóls. Jóhann Páll sagði styrkinn vera lið í stefnu stjórnvalda um að ná árangri í loftslagsmálum, með því að ýta undir vistvænan og fjölbreyttan ferðamáta.
Svokölluð nytjahjól af ýmsum gerðum eru algeng víða um heim.EPA-EFE / Alexander Becher
Tveir leikir voru á dagskrá í 8-liða úrslitum Bónusdeildar karla í körfubolta í kvöld.
Á Sauðárkróki fékk Tindastóll Keflavík í heimsókn. Keflvíkingar voru með bakið upp við vegg því Tindastóll var 2-0 yfir í einvíginu og gat með sigri því fyrst liða tryggt sæti sitt í undanúrslitunum. Það gerðu heimamenn líka því þeir unnu öruggan sigur, 100-75.
Valur og Grindavík mættust einnig í kvöld. Liðin höfðu unnið einn leik hvort. Valsarar leiddu 41-40 í hálfleik en Grindvíkingar reyndust hins vegar sterkari í seinni hálfleik og unnu að lokum ellefu stiga sigur, 86-75, og geta því unnið einvígið þegar liðin mætast í Smáranum á mánudag.
Ökumenn sem verða á ferðinni í nótt ættu að hafa eftirfarandi upplýsingar frá Vegagerðinni í huga:
Hellisheiði til vesturs, í átt til Reykjavíkur, verður lokuð frá miðnætti til klukkan þrjú í nótt vegna vinnu við ljósleiðara. Heiðin verður opin fyrir umferð til austurs. Umferð til Reykjavíkur verður beint um Þrengsli.
Fylgdarakstur verður í Hvalfjarðargöngum í nótt, aðfaranótt föstudags, frá miðnætti til klukkan 6:30. Umferð er stöðvuð við gangamunna þar til fylgdarbíll kemur. Vegfarendur eru beðnir um að aka með gát þar sem flughálka getur myndast. Reikna má með allt að 20 mínútna bið á milli ferða.
Frá björgunaraðgerðum við Hudson-ána í dag.AP / Jennifer Peltz
Sex eru látnir eftir að þyrla hrapaði í Hudson-ána í New York í dag - þrír fullorðnir og þrjú börn. Slysið varð nærri hraðbraut í vesturhluta borgarinnar og var slökkvilið og björgunarlið kallað til með bæði báta og bíla.
Myndskeið á samfélagsmiðlum sýna þyrluna skella í ána á hvolfi. Búið er að ná líkum allra sem fórust frá borði. Flugeftirlitsstofnun Bandaríkjanna hefur þegar hafið rannsókn á slysinu.
Frétt uppfærð kl. 20:57 með fjölda látinna og nánari upplýsingum
Til stendur að fella niður reglu um samsköttun hjóna og sambúðarfólks. Þetta gæti skilað milljörðum króna í ríkiskassann.
Fram kemur á vef stjórnarráðsins að einungis 6% einstaklinga hafi getað nýtt sér heimildina en samsköttun hjóna og sambúðarfólks nýtist eingöngu fólki í hæsta tekjuflokki.
Til þess að regla um samsköttun taki gildi þarf annar aðili í hjónabandi eða skráðri sambúð að vera í efsta tekjuskattsþrepi og hafa minnst um 16 milljónir í árstekjur, eða yfir 1,3 milljónir í mánaðartekjur. Langflestir þeirra sem hafa nýtt sér samsköttun eru karlmenn, eða yfir 80%.
Árið 2023 varð ríkissjóður af 2,7 milljörðum króna vegna samsköttunar.
Með fullar hendur fjár.Fréttagrafík / Jónmundur Gíslason
Elín Metta Jensen hefur skrifað undir tveggja ára samning við Val í Bestu-deild kvenna í fótbolta og gæti tekið þátt í leik liðsins gegn Breiðabliki um titilinn Meistarar meistaranna annað kvöld. Leikurinn verður sýndur beint á RÚV 2 kl. 19:15.
Elín Metta sem er þrítug lék með Val 2010-2022 og skipti svo yfir í Þrótt þar sem hún lék sex leiki 2023. Samtals eru leikirnir í efstu deild 189 og mörkin 134. Þá á hún að baki 62 landsleiki. Elín eignaðist sitt fyrsta barn í vetur en snýr nú aftur á völlinn.
Elín Metta Jensen er þaulreynd með liði ValsRÚV / Tomasz Kolodziejski
Evrópusambandið ætlar að fresta gildistöku þeirra tollahækkana gagnvart Bandaríkjunum sem aðildarríki ESB samþykktu í gær. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins tilkynnti þessa ákvörðun undir hádegið, eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti sló sínum tollahækkunum á frest í gærkvöld.
„Við viljum gefa færi á samningum,“ segir í tilkynningu Von der Leyen. Aðgerðir ESB áttu að beinast gegn tollahækkunum Bandaríkjastjórnar á ál og stálvörur sem kynntar voru í síðasta mánuði, en fram kemur að þeim verði beitt, náist ekki að semja innan þriggja mánaða.
Íslandsmótið í hópfimleikum hefst í dag og stendur í fjóra daga. Mótið er að þessu sinni haldið á Akranesi og 610 keppendur taka þátt í því. Seinni partinn á morgun mæta meistaraflokkar til leiks og keppnin verður sýnd í beinni útsendingu á RÚV frá kl. 17.
Stjarnan er ríkjandi meistari í kvennaflokki og mætir Gerplu og Selfossi, heimamenn í ÍA og Garðbæingar senda lið í flokki blandaðra liða og Stjarnan keppir jafnframt í karlaflokki.
Sendinefndir Bandaríkjanna og Rússlands funda í dag í Istanbúl í Tyrklandi um leiðir til að bæta samskipti ríkjanna og þar á meðal um starfsemi sendiráða. Utanríkisráðherrar landanna ræddu þessi mál áður á fundi í Sádi-Arabíu í febrúar. Það var í fyrsta sinn sem ráðherrar ríkjanna hittust eftir að Rússar hófu allsherjarinnrás í Úkraínu 2022.
Ekki verður rætt um vopnahlé í Úkraínu á fundinum í dag, að sögn talsmanns utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna.
Í dag verður suðlæg átt og gola eða kaldi, en fremur hlýtt engu að síður. Hiti á bilinu 5 til 9 stig.
Búast má við súld eða rigningu snemma morguns. Síðar dregur úr vætu og styttir upp á norðaustanverðu landinu. Í kvöld bætir aðeins í vind.
Á morgun er útlit fyrir suðvestan strekking með snjó- eða slydduéljum. Þá kólnar nokkuð og má búast við að það verði léttskýjað á Austurlandi. Vind lægir annað kvöld.
Á laugardaginn er spáð austanátt 5 til 13 metrum á sekúndu. Heldur hvassara norðvestantil seinnipartinn. Gera má ráð fyrir rigningu eða slyddu við suðurströndina. Snjókoma á Suðaustur- og Austurlandi um kvöldið.
Lundi í Hafnarhólma á Borgarfirði vorið 2024Dagur Skírnir Óðinsson, borgfirðingur.
Alls hafa 13.022 sett nafn sitt á undirskriftalista þar sem biðlað er til stjórnvalda að stöðva leyfisveitingu til sjókvíaeldis í Seyðisfirði. Undirskriftasöfnuninni lauk á miðnætti í nótt.
Matvælastofnun birti í desember tillögu að rekstrarleyfi til Kaldvíkur fyrir tíu þúsund tonna laxeldi í firðinum. Hópur Seyðfirðinga hefur barist gegn eldinu og meðal annars bent á að þröngur fjörðurinn rúmi illa eldiskvíar.
Í skoðanakönnun sem sveitarfélagið Múlaþing lét gera árið 2023 kom í ljós að 75 prósent íbúa voru andvíg áformunum.
Sjókvíar í Tálknafirði. Mynd er úr safni.RÚV / Jóhannes Jónsson
Stjórnvöld í Dóminíska lýðveldinu staðfestu í gær að 184 hefðu fundist látnir eftir að þak skemmtistaðar hrundi á þriðjudag. Leit að eftirlifendum var hætt í gærkvöld.
Í yfirlýsingu sagði að áframhaldandi aðgerðir á vettvangi snerust nú að því að leita að líkamsleifum þeirra sem létust. Ekki væri raunhæfur möguleiki á að fólk fyndist enn á lífi í rústunum.
Yfirvöld telja að frá 500 til þúsund hafi verið í byggingunni þegar þakið hrundi. Fleiri en 500 særðust og rúmlega 300 viðbragðsaðilar sinntu leit og björgun á vettvangi.
Rúmlega 300 viðbragðsaðilar hafa unnið að leit og björgun.AP / Ricardo HernandezÞak skemmtistaðarins hrundi meðan hundruð manna voru þar inni.AP/Noticias SIN / Uncredited
Hitamet var slegið í Reykjavík í gær þegar dægurhiti, meðaltal átta athugana, mældist tíu stig. Þetta er í fyrsta sinn sem hann nær tíu stigum í Reykjavík svo snemma árs. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Bliku, vefs Veðurvaktarinnar ehf.
Þar segir að frá því að gögn ná til hafi hitinn komist næst tíu stigum á þessum árstíma árið 1928. Þá hafi dægurhiti reiknast 9,8 gráður.
Tíu stiga hiti mældist einnig víðar um landið í gær, þar á meðal í Stykkishólmi og Húsafelli, þar sem hann fór í tæp ellefu stig. Að sögn Bliku samsvarar það nokkurn veginn meðalhita í júlí.
Mannlíf í Reykjavík síðasta sumar.RÚV / Ari Páll Karlsson
Friedrich Merz, leiðtogi Kristilegra demókrata í Þýskalandi, og verðandi kanslari.AP / Martin Meissner
Friedrich Merz, verðandi kanslari Þýskalands, segir tollafrestun Donalds Trump Bandaríkjaforseta sanna að samstillt nálgun Evrópu í viðskiptum hafi jákvæð áhrif. „Evrópubúar eru ákveðnir í að verja sig og þetta dæmi sýnir að samstaða borgar sig.“
Öldungadeildarþingmaðurinn Ron Johnson er á meðal stjórnmálamanna sem fann fyrir létti þegar Trump greindi frá frestuninni. Enn er þó mörgum spurningum svarað um framhaldið. „Við vitum hvert markmiðið hans er, en ég veit ekki hver lokaútkoman verður,“ sagði Johnson þegar hann talaði við blaðamenn fyrir utan þinghúsið í Washington í kvöld.
Mikil spenna var í leik Njarðvíkur og Stjörnunnar í úrslitakeppni Bónusdeildar kvenna í körfubolta. Eftir spennandi leik tryggði Njarðvík sigur 95-89 og þar með sæti í undanúrslitum.
Njarðvík leiddi leikinn en Stjarnan minnkaði forskotið tvívegis í þrjú stig. Annars vegar snemma seinni hálfleiks þegar staðan var 52-49 og hins vegar þegar tæp mínúta lifði leiks, 89-86.
Njarðvík varð bikarmeistari kvenna í körfubolta 2025.Mummi Lú
Brittany Dinkins fór fyrir Njarðvíkingum og skoraði 35 stig í leiknum.
Sigra þarf þrjá leiki í einvíginu til þess að komast í undanúrslit og það gerði Njarðvík örugglega. Liðið vann viðureignina 3-0. Keflavík tryggði sæti í undanúrslitum í gær.
Donald Trump ræðir við fréttamenn í kvöld.EPA-EFE / CHRIS KLEPONIS /POOL
Hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum hafa rokið upp eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti frestaði tollum á önnur lönd en Kína um þrjá mánuði. Nasdaq hækkaði um 12%, Standard og Poors um 9,5% og Dow Jones um 7,9%.
Trump sagði við fjölmiðla í kvöld að með ákvörðuninni væri hann að sýna sveigjanleika, en viðurkenndi jafnframt að álagning tollanna hefði valdið töluverðu uppnámi. Hann sagði að fólk hefði orðið taugatrekkt, en þetta hafi verið nauðsynlegt.
Hvíta húsið sagði í kvöld að 25% tollar, á vörur frá Kanada og Mexíkó sem ekki væru hluti af fríverslunarsamningi þeirra við Bandaríkin, væru áfram í gildi.
Bilun kom upp í netsambandi Vodafone á tíunda tímanum. Þá lá 5G net Vodafone einnig niðri. Bilunin hafði víðtæk áhrif á netþjónustu í um 20 mínútur.
Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður CERT-IS, netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar, hafði ekki fengið upplýsingar um að netárás sé að eiga sér stað þegar fréttastofa náði tali af honum.
Samkvæmt upplýsingum frá Vodafone má rekja bilunina til stofnnets ljósleiðara sem tók út megnið af kerfum Vodafone og netsambandi. Ekki er vitað hvað olli biluninni en unnið er að greiningu samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni.
Barcelona sigraði Dortmund í fyrri umferð átta liða úrslita Meistaradeildar Evrópu, 4-0.
Barcelona komst yfir á 25. mínútu leiksins en í fyrstu virtist Pau Cubarasí hafa átt það mark en eftir nánari athugun sást að Raphinha náði snertingu á boltann rétt áður en hann fór yfir línuna. Robert Lewandowski skoraði tvennu í síðari hálfleik og Lamine Yamal átti sigurmarkið.
Robert Lewandowski fagnar fyrra marki sínu í kvöld.EPA-EFE / Alejandro Garcia
PSG tók á móti Aston Villa og sigraði, 3-1. Aston Villa komst yfir, 0-1, á 35. mínútu en fjórum mínútum síðar jafnaði PSG metin, 1-1. Kvaratskhelia kom PSG yfir á 49. mínútu og sigurmarkið skoraði Nuno Mendes í uppbótartíma.
Liðin mætast í seinni umferðinni eftir slétta viku.
Þriðji leikur Þórs Ak. og Vals í átta liða úrslitum Bónusdeildar kvenna í körfubolta fór fram í kvöld. Þórskonur þurftu nauðsynlega á sigri að halda þar sem Valur hafði tryggt 2-0 forystu. Það gerði liðið en lokatölur voru 72-60, fyrir Þór.
Þór byrjaði vel og komst í átta stiga forskot í fyrsta leikhluta, 21-13. Áfram hélt Þór í öðrum leikhluta og jók forystuna enn frekar. Þór leiddi 39-25 í hálfleik.
RÚV / Mummi Lú
Valur klóraði í bakkann í þriðja leikhluta og náði að minnka muninn í átta stig, 53-45. Það dugði þó ekki til, Þór sigraði 72-60.
Valur sigraði fyrstu tvo leiki liðanna, 86-92 og 102-75. Sigra þarf þrjá leiki til að komast í undanúrslit.
Hið árlega meistaramót í tennis í Monte-Carlo fer fram þessa dagana. Carlos Alcaraz lenti í kröppum dansi Fransisco Cerúndolo, sem er í 277. sæti heimslistans. Alcaraz tapaði fyrsta leik þeirra 3-6. Hann hafði þó ekki spilað fram öllum sínum trompum og sigraði næstu tvær viðureignir örugglega 6-0 og 6-1. Sigurinn fleytir Alcaraz í 16 manna úrslit mótsins.
Imago
Novak Djokovic lauk keppni í annarri umferð í dag þegar hann tapaði fyrir Sílemanninum Alejandro Tabilo 6-4 og 6-3. Djokovic er sá fimmti á heimslistanum í tennis og Tabilo situr í 108. sæti listans. Úrslitin eru því afar óvænt. Tabilo heldur því áfram í næstu umferð.
Saksóknari í Svíþjóð krefst gæsluvarðhalds yfir manni sem er grunaður um njósnir fyrir kínversk stjórnvöld. Maðurinn er sakaður um að njósna um fólk úr hópi Úígúra sem hefur flúið Kína. Saksóknari segir manninn hafa safnað upplýsingum og öðrum gögnum um fólkið og komið þeim til leyniþjónustustofnana í Kína.
Mótmælendur með fána Úígúra.AP
Úígúrar eru múslimaþjóð sem býr í Xinjiang-héraði Kína. Kínversk stjórnvöld eru sökuð um að halda þeim nauðugum í innrætingarbúðum í héraðinu, þar sem þau eru sögð sæta ofbeldi, pyntingum, nauðungarvinnu, innrætingu stjórnmálaskoðana og fleiru. Kínversk stjórnvöld neita ásökunum.
Héraðsdómur Suðurlands samþykkti í gærkvöld kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir þremur karlmönnum vegna rannsóknar á máli er varðar frelsissviptingu, fjárkúgun og manndráp. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi.
Um tíma sátu sjö í gæsluvarðhaldi eftir að maður, sem saknað var í Þorlákshöfn í byrjun mars, fannst þungt haldinn í Gufunesi í Reykjavík og lést skömmu eftir komu á sjúkrahús.
Í tilkynningu segir að rannsókn miði vel. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, embætti héraðssaksóknara og embætti ríkislögreglustjóra hafa aðstoðað lögregluna á Suðurlandi við rannsóknina.
Tollar Evrópusambandsins á fjölda vörutegunda frá Bandaríkjunum verða hækkaðir um miðjan næsta mánuð, eftir að nægilegur fjöldi aðildarríkjanna samþykkti tillögur framkvæmdastjórnar ESB um aðgerðir nú síðdegis. Aðgerðirnar eru svar við tollahækkunum Trump-stjórnarinnar á innflutning á áli og stáli sem kynntar voru í síðasta mánuði. Þær ná til vöruflokka á borð við soyabaunir, mótorhjól og snyrtivörur. Í tilkynningu frá framkvæmdastjórninni í dag var tekið fram að þessar aðgerðir væru afturkræfar, næðist samkomulag í deilunni.
Í það minnsta fimm ensk fótboltalið verða í meistaradeildinni á næsta tímabili. Þetta varð ljóst eftir 3-0 sigur Arsenal á Real Madrid í gær.
Declan Rice skoraði í tvígang fyrir Arsenal í gærEPA-EFE / Tolga Akmen
Venjulega fá fjögur efstu liðin í ensku úrvalsdeildinni keppnisrétt í meistaradeildinni en auk þess gefur UEFA tvö aukasæti þeim þjóðum sem standa sig best í Evrópukeppnunum. England er nú búið að tryggja sér annað þeirra sæta. Ítalía er sem stendur í öðru sæti á listanum.
Ensku sætin gætu þó orðið sjö. Ef Aston Villa vinnur meistaradeildina í ár en verður ekki á meðal fimm efstu liða í deildinni bætist sjötta sætið við. Manchester United og Tottenham geta svo fengið sæti með því að vinna Evrópudeildina.