Öruggur sigur Valsmanna í fyrsta leiknum
Valur vann öruggan sigur á Stjörnunni, 30-21, í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum úrvalsdeildar karla í handbolta í kvöld. Valur var þó aðeins tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14-12, en heimamenn á Hlíðarenda byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti, skoruðu fyrstu fjögur mörkin og stungu hreinlega af.
Valur varð í öðru sæti í deildarkeppninni en Stjarnan því sjöunda. Vinna þarf tvo leiki til að komast í undanúrslit og Valsmenn geta tryggt sér farseðilinn þangað með sigri í næsta leik liðanna sem verður í Garðabæ á þriðjudaginn.