Hvassir vindstrengir á norðanverðu Snæfellsnesi í dag
Víðáttumikil hæð milli Íslands og Færeyja og lægðardrag vestur við Grænland valda suðaustankalda eða strekkingi og smávætu suðvestanlands fram eftir degi. Annars staðar á landinu verða mun hægari vindar og víða léttskýjað.
Mjög hvössum vindstrengjum er spáð á norðanverðu Snæfellsnesi fram eftir degi og eru ökumenn hvattir til að fara gætilega þar.
Milt loft er yfir landinu og hitastig gæti náð allt að 13 gráðum þegar best lætur.
Um helgina er spáð sunnan- og suðaustanáttum með skýjuðu veðri og lítils háttar vætu sunnan- og suðvestantil. Annars staðar verður víða léttskýjað og hlýnar heldur í veðri.