Þrjú ár síðan hryllingurinn í Bucha varð ljós
Íbúar Bucha komu saman við kirkju bæjarins í morgun og minntust þess að þrjú ár eru liðin síðan Rússlandsher hörfaði frá bænum. Fólk lagði blóm og kerti við minnisvarða um íbúa sem Rússlandsher drap, þá 33 daga sem hann hafði bæinn á valdi sínu.
Ódæðisverk hersins í Bucha eru talin með þeim verstu síðan Rússland hóf allsherjarinnrás í Úkraínu.
Bucha var rólegt 55.000 íbúa úthverfi höfuðborgarinnar Kyiv þar til Rússar náðu völdum 27. febrúar 2022.
31. mars komst Úkraínuher þangað og hryllingurinn varð ljós. Lík hundruða almennra borgara fundust á götum úti, í fjöldagröfum og í pyntingarklefum. 9.000 tilvik um stríðsglæpi voru skráð.