NÝJAR FRÉTTIR

Hér birtast allar nýjustu fréttirnar á vefnum. Notaðu síuna til þess að sýna fréttir úr völdum flokkum.

Sía
29. mars 2025 kl. 20:49
Íþróttir
Fótbolti

Forest í undanúrslit eftir spennutrylli

Nottingham Forest sigraði Brighton í spennutrylli í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í fótbolta.

epa11948937 Nuno Espirito Santo, Manager of Nottingham Forest reacts during the English Premier League match between Nottingham Forest and Manchester City, in Nottingham, Britain, 08 March 2025.  EPA-EFE/TIM KEETON EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos, 'live' services or NFTs. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications.
Nuno Espirito Santo, þjálfari Nottingham Forest.EPA-EFE / TIM KEETON

Markalaust var eftir venjulegan leiktíma og framlengingu og því réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni. Bæði lið skoruðu úr fyrstu tveimur vítunum en þá jókst spennan. Brighton klikkaði á þriðja vítaskoti sínu en það gerði Forest einnig. Það fjórða fór í vaskinn hjá Brighton en Nikola Milenkovic skoraði þá úr fjórða víti Forest sem leiddi þá, 2-3. Lewis Dunk skoraði úr fimmtu og síðustu vítaspyrnu Brighton og jafnaði leika. Þá átti Forest eftir síðustu spyrnuna sem Ryan Yates skoraði úr. Forest er því á leið í undanúrslit enska bikarsins.

29. mars 2025 kl. 20:36
Íþróttir
Handbolti

Haukar kveðja Evrópukeppnina

Haukar lutu í lægra haldi í seinni leik þeirra við Izvidac í átta liða úrslitum Evrópubikarsins, 33-26. Haukar unnu fyrri leikinn 30-27 á Ásvöllum og komu því með þriggja marka forskot inn í viðureign kvöldsins. Bosníska liðið hafði hins vegar yfirhöndina frá upphafi leiks og tryggði að lokum sjö marka sigur. Þar með ljúka Haukamenn Evrópukeppni þetta tímabilið.

Hergeir Grímsson í leik Hauka og Afturelding í Olís deild karla
Hergeir Grímsson skoraði fimm mörk í leiknum.RÚV / Mummi Lú

Liðin voru jöfn í stöðunni 3-3, en þá stakk það bosníska af. Hálfleikstölur voru 13-8, en Izvidac jók forskotið jafnt og þétt þaðan af.
Hergeir Grímsson og Össur Haraldsson voru atkvæðamestir Hauka með fimm mörk hvor.

29. mars 2025 kl. 17:10
Íþróttir
Fótbolti

Crystal Palace á leið í undanúrslit enska bikarsins

Crystal Palace vann öruggan sigur á Fulham í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í fótbolta, 3-0.

Eberechi Eze skoraði fyrsta mark Crystal Palace á 34. mínútu. Einungis fjórum mínútum síðar lagði hann upp annað mark liðsins, þegar Ismaïla Sarr kom boltanum í netið. Þriðja og síðasta mark leiksins skoraði Edward Nketiah á 75. mínútu. Crystal Palace er því á leið í undanúrslit enska bikarsins.

Eberechi Eze fagnar marki Crystal Palace.
Edward Nketiah og Eberechi Eze fagna marki Crystal Palace.Imago

Leikur Brighton og Nottingham Forest hefst klukkan 17:00. Átta liða úrslitum lýkur á morgun þegar Preston og Aston Villa eigast við og Bournemouth mætir Manchester City.

29. mars 2025 kl. 2:33
Innlendar fréttir
Tækni og vísindi

Deildarmyrkvi sjáanlegur um allt land ef veður leyfir

Fyrir hádegi verður umtalsverður deildarmyrkvi á sólu sjáanlegur á Íslandi öllu ef veður leyfir. Hann sést að öllum líkindum best frá Vesturbyggð á sunnanverðum Vestfjörðum, þaðan sem tunglið hylur rúmlega 75 prósent sólar.

Deildarmyrkvinn hefst skömmu eftir klukkan tíu og nær hámarki rétt eftir klukkan ellefu. Gert er ráð fyrir að tunglið verði farið frá sólu skömmu eftir klukkan tólf á hádegi.

Varað er við að horfa á sólmyrkva með berum augum, það getur valdið sjónskaða. Ef fólk hyggst fylgjast með deildarmyrkvanum er til að mynda mælt með að horfa í gegnum rafsuðugler eða þar til gerð sólmyrkvagleraugu.

epa11638956 The annular solar eclipse, in Rapa Nui, Chile 02 October 2024. The eclipse reached the ring of fire with 93 percent coverage.  EPA-EFE/STR
Sólmyrkvi í október 2024 séður frá Chile.EPA-EFE / STR

29. mars 2025 kl. 0:11
Innlendar fréttir
Reykjavíkurborg

Þúsund lítrar af sýruhreinsi láku við Sundahöfn

Engin slys urðu né tjón þegar sýruhreinsiefni lak við Sundahöfn í Reykjavík fyrir hádegi í dag, að sögn Gunnars Agnars Vilhjálmssonar, aðstoðarvarðstjóra Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Hann sagði þúsund lítra hafa lekið úr tveimur ílátum sem voru í gámum við höfnina.

Ekkert lak þó í sjó og hreinsunarstarf gekk vel. Gunnar Agnar sagði að slökkviliðsmenn hefðu sett sand yfir efnið sem fór niður, sem var svo fært í viðeigandi eiturefnaförgun. Aðgerðum hefði lokið um klukkan sjö í kvöld. Heilbrigðiseftirlitið hefði verið upplýst um lekann.

Gunnar Agnar sagði að í svona verkum væri mikilvægt að flýta sér ekki heldur vanda til verka.

28. mars 2025 kl. 20:45
Innlendar fréttir
Veður

Útlit fyrir mikinn snjó á Suðausturlandi

Horfur eru á snjókomu í nótt og framan af morgundeginum á Suðausturlandi.

„Talsvert mikið mun snjóa staðbundið á þjóðveginum sunnan Öræfajökuls og austur yfir Breiðamerkursand og í Suðursveit.“ segir í ábendingu frá Einari Sveinbjörnssyni, veðurfræðingi Vegagerðarinnar.

Sums staðar er búist við allt að 50-70 sentímetra snjódýpt. Á köflum verður þetta blautur snjór og hann því þungur og erfiður viðureignar.

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna austan hríðar í landshlutanum.

Von er á mikilli snjókomu í grennd við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi í nótt og á morgun.RÚV / Samúel Örn Erlingsson

28. mars 2025 kl. 19:37
Innlendar fréttir
Reykjanesbær

Lítils háttar eldur í gömlu sundhöllinni í Keflavík

Gamla sundhöllin í Keflavík. Tveir slökkviliðsbílar frá Brunavörnum Suðurnesja á vettvangi eftir að eldur kom upp í sundhöllinni.
Tveir slökkviliðsbílar frá Brunavörnum Suðurnesja á vettvangi, auk eins lögreglubíls.RÚV / Þorgils Jónsson

Brunavörnum Suðurnesja (BS) barst fyrr í kvöld tilkynning um eld í gömlu sundhöllinni í Keflavík.

Að sögn Gunnars Jóns Ólafssonar, bakvaktarstjórnanda hjá BS, var eldurinn minniháttar. Svo virðist sem kveikt hafi verið í rusli ofan í sundlauginni.

Gunnar segir í samtali við fréttastofu að vinna á vettvangi sé á lokametrunum. Búið sé að slökkva allan eld og slökkviliðsmenn vinni nú við að reykræsta bygginguna.

Lengi hefur staðið til að rífa gömlu sundhöllina en engin starfsemi er þar núna.

28. mars 2025 kl. 17:44
Erlendar fréttir
Spánn

Sakfelling Dani Alves felld úr gildi

Áfrýjunardómstóll á Spáni sýknaði í dag Dani Alves af ákæru um nauðgun. Alves er fyrrverandi brasilískur landsliðsmaður í fótbolta. Hann var sakfelldur og dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í febrúar í fyrra fyrir að nauðga ungri konu á skemmtistað í Barcelona.

Fjórir dómarar við áfrýjunardómstólinn komust einróma að þeirri niðurstöðu að sakfelling Alves hefði ekki byggt á nægum sönnunargögnum. Dómararnir sögðu að eyður væru í málflutningi gegn honum, ósamræmi og ónákvæmni. Dómurinn yfir Alves var því felldur úr gildi.

Dani Alves fyrir rétti í Barcelona vegna nauðgunarkæru.
EPA / Alberto Estevez

28. mars 2025 kl. 13:19
Innlendar fréttir
Viðskipti

Formannsskipti hjá Samtökum atvinnulífsins

Eyjólfur Árni Rafnsson lætur af formennsku í Samtökum atvinnulífsins á aðalfundi 15. maí. Hann hefur verið formaður í átta ár.

Myndir frá blaðamannafundi innviðaráðuneytis vegna flugvallar í Hvassahrauni og almenningssamgangna til Keflavíkurflugvallar. Eyjólfur Árni Rafnsson formaður starfshóps um rannsóknir á byggingu flugvallar í Hvassahrauni.
Eyjólfur Árni Rafnsson.RÚV / Ragnar Visage

Þetta kemur fram á vef Samtaka atvinnulífsins. Þar kemur líka fram að Jón Ólafur Halldórsson gefi kost á sér. Hann hefur verið í stjórn samtakanna í áratug. Hann var formaður Samtaka verslunar og þjónustu síðustu sex árin.

28. mars 2025 kl. 6:44
Innlendar fréttir
Veður

Kalt um allt land

Í dag verður norðaustlæg átt, víða gola eða kaldi, og áfram lítils háttar él fyrir norðan. Spár gera ráð fyrir að smálægð komi inn fyrir Suðurland með snjókomu á þeim slóðum eftir hádegi. Hiti
víða kringum frostmark eins og sjá má á kortinu hér fyrir neðan.

Veðurspá
Veðurspá klukkan 8.Veðurstofa Íslands

Áfram norðaustlæg átt á morgun og þá bætir heldur í vind suðaustan til og búast má við slyddu eða snjókomu austan til. Yfirleitt þurrt vestanlands og hlýnar heldur í veðri.

27. mars 2025 kl. 20:19
Íþróttir
Fótbolti

Sveindís úr leik í Meistaradeildinni eftir stórt tap

Sveindís Jane Jónsdóttir spilaði fyrstu 70 mínúturnar fyrir Wolfsburg í kvöld í síðari leik liðsins á móti Barcelona í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta. Wolfsburg steinlá í leiknum, 6-1 en hafði tapað fyrri leiknum 4-1.

Sveindís Jane Jónsdóttir í leik Wolfsburg og Barcelona í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu 2025.
IMAGO / Christian Schroedter

Börsungar komust því áfram í undanúrslit keppninnar eftir að hafa unnið einvígið samanlagt 10-2. Sveindís og samherjar hennar í Wolfsburg eru þar með úr leik.

27. mars 2025 kl. 10:59
Innlendar fréttir
Samfélagsmál

Matthildur og Matthías rjúka upp í vinsældum

Vinsælustu fyrstu eiginnöfn barna á síðasta ári voru Emil og Jökull meðal drengja og Aþena og Embla meðal stúlkna. Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár Íslands.

Alls fékk 31 drengur nafnið Emil og jafnmargir Jökull. Óliver kom þar á eftir, en 23 fengu það nafn.

22 stúlkur fengu nöfnin Aþena og Embla, og 20 voru nefndar Emilía, Birta og Sara.

Hástökkvari ársins hjá drengjum var nafnið Matthías, sem fór úr 41. sæti árið 2023 upp í það fjórða í ár.

Athygli vekur að ekki ólíkt nafn – Matthildur – stekkur líka upp í vinsældum í stúlknanöfnum, fer úr sextánda sæti upp í það sjötta.

Fætur ungabarns. Barnið liggur í körfu. Það hefur fæturna krosslagða. Bakgrunnurinn er hvítur.
Scott Webb

27. mars 2025 kl. 9:56
Erlendar fréttir
Innrás í Úkraínu

„Bandalag hinna viljugu“ á leiðtogafundi í París

epa11991334 French President Emmanuel Macron (L) greets Icelandic Prime Minister Kristrun Frostadottir (R) upon her arrival for the 'Coalition of the Willing' summit on peace and security for Ukraine, with European and international leaders, at the Elysee Palace in Paris, France, 27 March 2025.  EPA-EFE/Teresa Suarez
Emmanuel Macron Frakklandsforseti tekur á móti Kristrúnu Frostadóttur í forsetahöllinni í París í morgun.EPA-EFE / TERESA SUAREZ

Leiðtogar næstum þrjátíu ríkja, þar á meðal Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, sitja fund í París í dag, þar sem rætt verður um leiðir til að tryggja öryggi Úkraínu og stöðuna í friðarviðræðunum sem staðið hafa yfir að undanförnu í Sádí-Arabíu. Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu er á fundinum, en meðal annarra leiðtoga eru Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, og Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu.

27. mars 2025 kl. 9:13
Íþróttir
Körfubolti

Hverjum mætir Ísland á EM? Dregið í riðla í dag

Þjóðsöngur fyrir leik Íslands og Tyrklands í undankeppni EM karla í körfubolta 23.02.2025
RÚV / Mummi

Í dag kemur í ljós hverjir andstæðingar Íslands á EM karla í körfubolta 2025 verða.

Drátturinn fer fram í dag klukkan 13:00. Hér má nálgast beint streymi.

Sex lönd eru í fjórum riðlum og fara fjögur áfram í 16-liða úrslit.

Það liggur ljóst fyrir að Ísland mun leika í riðlakeppni í Póllandi þar sem Pólverjar völdu Ísland sem samstarfsþjóð.

Ísland er í neðsta styrkleikaflokki af sex. Vegna þess hvernig mótinu er raðað upp er ljóst að Ísland mætir Slóveníu. Það á hins vegar að koma í ljós eftir á hverjir mótherjar okkar úr fyrsta, fjórða og fimmta styrkleikaflokki eru. Slóvenía er í öðrum styrkleikaflokki og Pólland í þeim þriðja.

Meira hér og hér.

27. mars 2025 kl. 6:46
Innlendar fréttir
Veður

Snjókoma, él og vægt frost fyrir norðan en mildara sunnan heiða

Veðurspá
Veðurspá klukkan 9.Veðurstofa Íslands

Í dag verður norðaustlæg eða austlæg átt, víða kaldi, en allhvasst norðvestantil. Þá er útlit fyrir dálitla snjókomu eða él fyrir norðan og vægt frost, en sunnan heiða verða stöku skúrir eða slydduél og mildara veður.

Heldur hægari norðaustlæg átt á morgun og þá dregur víða úr úrkomu. Spár gera ráð fyrir að lægðardrag myndist við suðurströndina og má búast við snjókomu eða slyddu syðst á landinu annað kvöld. Áfram norðaustlæg átt á laugardag og snjókoma eða él norðan- og austanlands, en þurrt að kalla suðvestan- og vestantil. Hiti breytist lítið.

26. mars 2025 kl. 21:18
Innlendar fréttir
Norðurþing

Rafmagnslaust á Raufarhöfn

Rafmagnslaust er á suðurhluta Raufarhafnar og að Ormarslóni. Samkvæmt þjónustuvef Rarik er unnið að því að finna bilunina. Bent er á að hafi einhverjir upplýsingar sem gætu hjálpað við bilanaleit er þeim bent á að hafa samband við stjórnstöð Rarik í síma 528-9000.

Horft yfir Raufarhöfn. Slökkt er á flestum ljósum þar sem rafmagnsbilun er í bænun.
Frá Raufarhöfn.Facebook / Gunnar Páll Baldursson

26. mars 2025 kl. 19:41
Íþróttir
Fótbolti

Glódís kveður Meistaradeildina í bili

Glódís Perla Viggósdóttir og liðsfélagar í Bayern Munchen töpuðu fyrir Lyon, 4-1, í seinni umferð átta liða úrslita Meistaradeildar kvenna í fótbolta. Lyon vann fyrri leik liðanna 2-0 og samanlögð úrslit beggja leikja réðu ferðinni.

Glódís Perla Viggósdóttir, leikmaður Bayern Munchen, í leik við Wolfsburg.
Imago

Glódís hefur verið að glíma við meiðsli og var á bekknum í dag sem og í fyrri leik liðanna.

Bayern komst yfir á 33. mínútu þegar Klara Bühl skoraði en sú forysta entist einungis út fyrri hálfleik. Lyon skoraði fjögur mörk í seinni hálfleik og samanlögð úrslit einvígisins því 6-1 fyrir Lyon. Þá er ljóst að Glódís og félagar í Bayern kveðja Meistaradeildina að sinni.

Arsenal vann viðureign sína við Real Madrid, 3-2.

26. mars 2025 kl. 18:42
Erlendar fréttir
Ísrael-Palestína

Ísraelsher ræðst „af fullum krafti“ á fleiri svæði á Gaza

Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísraels, segir Ísraelsher munu „ráðast af fullum krafti“ á fleiri svæði á Gaza. Biðlaði Katz til íbúa að yfirgefa svæðið hið fyrsta til að leita öryggis.

„Hamas stefnir lífi ykkar í hættu,“ sagði Katz í færslu á miðlinum X og sagði samtökin vera valda þess að Gaza-búar misstu heimili sín og að Ísraelsher legði undir sig fleiri landsvæði.

Sameinuðu þjóðirnar greindu frá því í dag að fleiri en 142 þúsund manns á Gaza væru á vergangi eftir að árásir Ísraelshers hófust á ný fyrir rúmri viku.

epa11712900 Israeli outgoing Foreign Minister and new Defense Minister Israel Katz speaks during the Ministerial change ceremony at the Ministry of Foreign Affairs in Jerusalem, 10 November 2024. The Israeli prime minister appointed Israel Katz to the post of Defense Minister and Gideon Saar as new Foreign Minister after firing Yoav Gallant on 05 November.  EPA-EFE/ABIR SULTAN
Israel Katz varnarmálaráðherra Ísraels.EPA-EFE / ABIR SULTAN

26. mars 2025 kl. 14:29
Íþróttir
Formúla 1

Red Bull fékk nóg eftir tvær keppnir

epa11975175 Red Bull Racing driver Liam Lawson of New Zealand walks in the paddock before the Formula 1 Chinese Grand Prix, at the Shanghai International Circuit in Shanghai, China, 20 March 2025.  EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI
EPA-EFE / ALEX PLAVEVSKI

Formúlu-1-liðið Red Bull hefur skipt ökuþórum sínum út eftir aðeins tvær keppnir á tímabilinu. BBC greinir frá. Nýsjálendingnum Liam Lawson, 23 ára, sem var einn af aðalökuþórum liðsins hefur verið skipt út fyrir Japanann Yuki Tsunoda. Lawson og Tsunoda skipta um lið innan Red Bull-samsteypunnar og Lawson keyrir fyrir Racing Bulls frá og með næstu keppni.

Breytingarnar vekja undrun víða í formúluheiminum. Lawson fór ekki vel af stað í ár en það er fáheyrt að ökumenn séu með svo stuttan taum. Lawson varð í 18. sæti í fyrstu keppni tímabilsins og í 14. og 12. sæti í tveimur keppnum í Kína um liðna helgi.

26. mars 2025 kl. 12:51
Innlendar fréttir
Stjórnmál

Fundaði með aðstoðarforsætisráðherra Slóvakíu

Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fundaði með Denisu Saková, efnahagsmálaráðherra og aðstoðarforsætisráðherra Slóvakíu, í gær.

Sagt var frá heimsókninni á vef Stjórnarráðs Íslands.

Saková var í heimsókn á Íslandi til að kynna sér jarðhitanýtingu hérlendis. Hún heimsótti meðal annars Hellisheiðarvirkjun og Grindavík.

Ráðherrarnir ræddu orkumál og nýtingu jarðhita í Slóvakíu. Þeir sammæltust á fundinum um að skoða möguleika á samstarfi þjóðanna á sviði jarðhitanýtingar og skyldra mála.

epa08014179 Slovak Interior Minister Denisa Sakova attends a press conference after the Visegrad Group (V4) and Austria Interior Ministers meeting in Prague, Czech Republic, 21 November 2019. Ministers discussed V4's common position on the proposals of the new EU Commission on Internal Security and Migration and on cooperation with Great Britain after Brexit.  EPA-EFE/MARTIN DIVISEK
Denisa Saková efnahagsmálaráðherra og aðstoðarforsætisráðherra Slóvakíu.EPA-EFE / MARTIN DIVISEK

Þessi frétt er unnin af meistaranema við Háskóla Íslands í starfsnámi á fréttastofu RÚV.

26. mars 2025 kl. 10:15
Erlendar fréttir
Tækni og vísindi

Stefna að geimskoti á morgun

Þýska fyrirtækið Isar Aerospace stefnir á að skjóta upp Spectrum-geimferjunni á morgun en tilraunaflugi geimfarsins var frestað fyrr í vikunni.

Til stóð að geimskotið yrði á mánudag en veðurskilyrði voru óhagstæð.

Þetta verður fyrsta tilraunaflug geimferjunnar og jafnframt fyrsta geimskot af þessu tagi frá Evrópu utan Rússlands. Skotpallurinn er á eynni Andøya í norður-Noregi.

Áætlað er að tilraunaflugið verði á bilinu hálf tólf til hálf þrjú á morgun á íslenskum tíma, líkt og upphaflega stóð til á mánudag.

Á myndinni sjáum við Spectrum-geimferjuna. Staðsetningin er eyjan Andøya í Noregi og minnir landslagið á Ísland. Fjall sést í bakgrunni sem er þakið runnum í haustlitum. 
Geimferjan liggur lárétt á flutningabifreið. Við sjáum undir geimferjuna og greinileg eru níu vélarop á botni hennar. Bifreiðin sem geimfarið liggur á er stærðarinnar bifreið með sextán hjól hið minnsta. Á myndinni má sjá menn að vinnu sem klæddir eru sýnileikafatnað líkt og iðnaðarmenn eru almennt.
Spectrum-geimferjan aftan á flutningabifreið.Isar Aerospace / Wingmen Media

Þessi frétt er unnin af meistaranema við Háskóla Íslands í starfsnámi á fréttastofu RÚV.

26. mars 2025 kl. 10:15
Erlendar fréttir
Grænland

Utanríkisráðherra Danmerkur ánægður með breytt plön Bandaríkjamanna

Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, fagnar ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að takmarka heimsókn bandarískrar sendinefndar á Grænlandi við bandarísku herstöðina í Pituffik.

Upphaflega stóð til að sendinefndin myndi ferðast um Grænland, þar á meðal vera viðstödd hundasleðakeppni, án þess þó að funda með grænlenskum ráðamönnum. Bandaríkjamenn tilkynntu um breytta áætlun í gær.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hafði sagt að ekki væri hægt að horfa fram hjá ásælni Bandaríkjaforseta í Grænland í samhengi við heimsóknina.

epa11963169 Danish Foreign Minister Lars Loekke Rasmussen speaks to the media after a meeting in the European Committee at Christiansborg in Copenhagen, Denmark, 14 Marcc 2025.  EPA-EFE/EMIL NICOLAI HELMS  DENMARK OUT
Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur.EPA-EFE / Emil Nicolai Helms