Rúmlega tvöfalt fleiri útköll vegna óveðurs
Slökkvilið landsins hafa sinnt rúmlega tvöfalt fleiri útköllum vegna óveðurs það sem af er ári en allt síðasta ár. Þetta kemur fram í samantekt á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Alls voru 37 útköll vegna óveðurs á fyrsta ársfjórðungi 2025 en þau voru alls 16 árið 2024.
Útköllum vegna vatnstjóns fjölgaði einnig töluvert. Þau voru 158 á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en 94 á sama tímabili í fyrra.
Í samantektinni segir einnig að árið 2025 stefni í að verða metár í útköllum tengdum flugeldum. Það sem af er ári hafa slökkvilið landsins sinnt 13 útköllum vegna flugelda og hafa þau ekki verið fleiri síðan 2019 þegar þau voru 15 yfir árið.