Rafmagnslaust er á suðurhluta Raufarhafnar og að Ormarslóni. Samkvæmt þjónustuvef Rarik er unnið að því að finna bilunina. Bent er á að hafi einhverjir upplýsingar sem gætu hjálpað við bilanaleit er þeim bent á að hafa samband við stjórnstöð Rarik í síma 528-9000.
Glódís Perla Viggósdóttir og liðsfélagar í Bayern Munchen töpuðu fyrir Lyon, 4-1, í seinni umferð átta liða úrslita Meistaradeildar kvenna í fótbolta. Lyon vann fyrri leik liðanna 2-0 og samanlögð úrslit beggja leikja réðu ferðinni.
Imago
Glódís hefur verið að glíma við meiðsli og var á bekknum í dag sem og í fyrri leik liðanna.
Bayern komst yfir á 33. mínútu þegar Klara Bühl skoraði en sú forysta entist einungis út fyrri hálfleik. Lyon skoraði fjögur mörk í seinni hálfleik og samanlögð úrslit einvígisins því 6-1 fyrir Lyon. Þá er ljóst að Glódís og félagar í Bayern kveðja Meistaradeildina að sinni.
Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísraels, segir Ísraelsher munu „ráðast af fullum krafti“ á fleiri svæði á Gaza. Biðlaði Katz til íbúa að yfirgefa svæðið hið fyrsta til að leita öryggis.
„Hamas stefnir lífi ykkar í hættu,“ sagði Katz í færslu á miðlinum X og sagði samtökin vera valda þess að Gaza-búar misstu heimili sín og að Ísraelsher legði undir sig fleiri landsvæði.
Sameinuðu þjóðirnar greindu frá því í dag að fleiri en 142 þúsund manns á Gaza væru á vergangi eftir að árásir Ísraelshers hófust á ný fyrir rúmri viku.
Israel Katz varnarmálaráðherra Ísraels.EPA-EFE / ABIR SULTAN
Formúlu-1-liðið Red Bull hefur skipt ökuþórum sínum út eftir aðeins tvær keppnir á tímabilinu. BBC greinir frá. Nýsjálendingnum Liam Lawson, 23 ára, sem var einn af aðalökuþórum liðsins hefur verið skipt út fyrir Japanann Yuki Tsunoda. Lawson og Tsunoda skipta um lið innan Red Bull-samsteypunnar og Lawson keyrir fyrir Racing Bulls frá og með næstu keppni.
Breytingarnar vekja undrun víða í formúluheiminum. Lawson fór ekki vel af stað í ár en það er fáheyrt að ökumenn séu með svo stuttan taum. Lawson varð í 18. sæti í fyrstu keppni tímabilsins og í 14. og 12. sæti í tveimur keppnum í Kína um liðna helgi.
Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fundaði með Denisu Saková, efnahagsmálaráðherra og aðstoðarforsætisráðherra Slóvakíu, í gær.
Saková var í heimsókn á Íslandi til að kynna sér jarðhitanýtingu hérlendis. Hún heimsótti meðal annars Hellisheiðarvirkjun og Grindavík.
Ráðherrarnir ræddu orkumál og nýtingu jarðhita í Slóvakíu. Þeir sammæltust á fundinum um að skoða möguleika á samstarfi þjóðanna á sviði jarðhitanýtingar og skyldra mála.
Denisa Saková efnahagsmálaráðherra og aðstoðarforsætisráðherra Slóvakíu.EPA-EFE / MARTIN DIVISEK
Þessi frétt er unnin af meistaranema við Háskóla Íslands í starfsnámi á fréttastofu RÚV.
Þýska fyrirtækið Isar Aerospace stefnir á að skjóta upp Spectrum-geimferjunni á morgun en tilraunaflugi geimfarsins var frestað fyrr í vikunni.
Til stóð að geimskotið yrði á mánudag en veðurskilyrði voru óhagstæð.
Þetta verður fyrsta tilraunaflug geimferjunnar og jafnframt fyrsta geimskot af þessu tagi frá Evrópu utan Rússlands. Skotpallurinn er á eynni Andøya í norður-Noregi.
Áætlað er að tilraunaflugið verði á bilinu hálf tólf til hálf þrjú á morgun á íslenskum tíma, líkt og upphaflega stóð til á mánudag.
Spectrum-geimferjan aftan á flutningabifreið.Isar Aerospace / Wingmen Media
Þessi frétt er unnin af meistaranema við Háskóla Íslands í starfsnámi á fréttastofu RÚV.
Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, fagnar ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að takmarka heimsókn bandarískrar sendinefndar á Grænlandi við bandarísku herstöðina í Pituffik.
Upphaflega stóð til að sendinefndin myndi ferðast um Grænland, þar á meðal vera viðstödd hundasleðakeppni, án þess þó að funda með grænlenskum ráðamönnum. Bandaríkjamenn tilkynntu um breytta áætlun í gær.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hafði sagt að ekki væri hægt að horfa fram hjá ásælni Bandaríkjaforseta í Grænland í samhengi við heimsóknina.
Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur.EPA-EFE / Emil Nicolai Helms
Paetongtarn Shinawatra forsætisráðherra Taílands var varin vantrausti á taílenska þinginu í dag. Um tveir þriðju þingmanna hafnaði vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar. Stjórnarandstæðingar saka hana um vanhæfi og segja hana vera undir áhrifum föður síns, fyrrverandi forsætisráðherra Taílands.
Shinawatra er yngsti forsætisráðherra landsins til þessa og þriðji forsætisráðherrann sem kemur úr Shinawatra-fjölskyldunni. Hún var skipuð í embættið í ágúst í fyrra eftir að forvera hennar var gert að víkja samkvæmt úrskurði stjórnarskrárdómstóls um brot gegn siðareglum. Shinawatra segir fjölskyldu hennar ekki hafa áhrif á embættisstörf hennar.
Paetongtarn Shinawatra er yngsti forsætisráðherra Taílands til þessa.AP / Sakchai Lalit
Viðkomu bandarískrar sendinefndar til grænlensku höfuðborgarinnar Nuuk, og borgarinnar Sisimiut, hefur verið aflýst. Um þetta er tilkynnt á vef landstjórnar Grænlands. Þar segir að bandarísk stjórnvöld hafi aflýst þeim hluta óopinberrar heimsóknar sem tilkynnt var um á dögunum.
J.D. Vance varaforseti Bandaríkjanna ætli, ásamt eiginkonu sinni, að heimsækja bandaríska herstöð á Grænlandi á föstudag. Vance sagði í færslu á samfélagsmiðlum í gær að hann vildi kanna öryggisaðstæður á Grænlandi.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur síðustu vikur ítrekað hótað því að taka yfir Grænland, jafnvel með hervaldi.
J.D. Vance tilkynnti í gær að hann færi með sendinefndinni til Grænlands.AP / Mark Schiefelbein
Rétt eftir klukkan 14 í dag hófst jarðskjálftahrina um 40 kílómetra norður af Húsavík. Um 45 skjálftar hafa mælst síðan þá að sögn Ingibjargar Andreu Bergþórsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofunni.
Skjálftarnir í dag hafa flestir orðið í um 40 kílómetra fjarlægð frá Húsavík.Veðurstofa Íslands
Um helgina hófst hrina rétt vestan við Kópasker. Ingibjörg segir hrinur sem þessar alvanalegar á þessum slóðum. Þarna sé sniðgengi, jarðskorpuflekarnir rekist því hvor á annan í stað þess að gliðna í sundur líkt og víðast hvar annars staðar á flekamótunum undir Íslandi.
Flestir skjálftarnir hafa verið á bilinu 1 til 2 að stærð, þeir stærstu 2,4. Ekki hafa borist neinar tilkynningar um að þeir hafi fundist í byggð.
Varaforseti Bandaríkjanna, J.D. Vance, ætlar til Grænlands á föstudag. Hann tilkynnti þetta í færslu á samfélagsmiðlum í kvöld.
Áður hafði verið tilkynnt um ferð eiginkonu hans þangað í vikunni ásamt bandarískri sendinefnd. Þau ætla meðal annars að heimsækja bandaríska herstöð og horfa á hundasleðakeppni. Vance segir í færslunni að hann vilji kanna „öryggi“ á Grænlandi. Það sé mikil spenna vegna ferðar eiginkonu hans til landsins og að hann vilji ekki missa af „fjörinu“, eins og hann orðar það, og ætli því að slást í hópinn.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur síðustu vikur ítrekað hótað því að taka yfir Grænland, jafnvel með hervaldi.
Eygló Fanndal Sturludóttir var í dag tilnefnd sem lyftingakona ársins 2024 af Evrópska lyftingasambandinu.
RÚV
Eygló á að baki stórkostlegt ár. Hún varð Evrópumeistari ungmenna og hlaut þar hæstu stig þvert á alla þyngdarflokka. Auk þess setti hún Norðurlandamet í fullorðinsflokki og tryggði sér Norðurlandameistaratitilinn í -71 kg flokki.
Á heimsmeistaramótinu í ólympískum lyftingum náði hún fjórða sæti í -71 kg flokki. Næst mun hún keppa á Evrópumeistaramótinu í Moldóvu í apríl.
Ólympíuleikarnir 2032 verða í Brisbane í Ástralíu og er undirbúningur þar hafinn. Upphaflega átti að gera upp tvo leikvanga til að nýta á leikunum en nú ætla yfirvöld að byggja nýjan 63.000 manna völl, nokkuð sem leggst ekki sérlega vel í borgarbúa.
Þá hefur verið gefið út að róðrarkeppnin verði á Fitzroy-ánni. Fjölmiðlar í Ástralíu hafa fjallað um málið og bent á að í ánni búi krókódílar.
Cassius var ástralskur 5,48m saltvatnskrókódíll af sömu tegund og þeir sem finnast í Fitzroy-ánniEPA-EFE / BRIAN CASSEY
Mótshaldarar gera þó lítið úr þeim áhyggjum og benda á að fjöldi viðburða hafi verið haldnir í ánni í gegnum tíðina sem og að börn syndi og leiki sér í ánni. Krókódílar ógni þeim ekkert og muni heldur ekki hafa áhrif á keppendur.
Skjálftahrinan sem hófst í Öxarfirði í fyrradag hefur haldið áfram í nótt og í morgun.
Nokkrir skjálftar urðu milli hálf átta og átta í morgun. Þeir voru um tveir að stærð, samkvæmt óyfirförnum mælingum. Skjálftarnir hafa ekki fundist í byggð. Stærstu skjálftarnir mældust á sunnudag og voru þeir 2,4 að stærð.
Veðurstofan spáir suðvestan fimm til þrettán metrum á sekúndu og víða skúrum í dag. Á Norður- og Austurlandi verður bjart með köflum. Snýst í sunnan þrjá til tíu og súld syðst í kvöld en suðaustan átta til þrettán og rigningu sunnan- og vestantil í nótt. Hiti verður á bilinu tvö til níu stig, hlýjast austast.
Á morgun gengur í austan og norðaustan þrettán til tuttugu metra á sekúndu með rigningu eða slyddu norðantil á morgun, en síðar snjókomu, hvassast norðvestantil, en suðlæg átt, fimm til þrettán, og rigning öðru hvoru syðra. Snýst í vestan þrettán til átján syðst seint annað kvöld og hvessir á Vestfjörðum. Hægt kólnandi veður.
Um hálfs metra breitt gat uppgötvaðist á nótarpoka einnar sjókvíar Arnarlax við Vatneyri í Patreksfirði við reglubundið eftirlit. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun. Rifan uppgötvaðist við reglubundið neðansjávareftirlit og var viðgerð lokið samdægurs.
MAST barst tilkynning um gatið síðasta fimmtudag. Síðast var farið í eftirlit 23. febrúar og þá var nótarpokinn heill.
Í kvínni voru 117.133 laxar að meðalþyngd 3 kg. Lögð voru út net í samráði við Fiskistofu til að fanga mögulegan strokulax. Engir strokulaxar fundust við köfun eða veiddust í netin.
Sjö eru í gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn lögreglunnar á máli er varðar frelsissviptingu, fjárkúgun og manndráp. Fjórir karlmenn og þrjár konur.
Jón Gunnar Þórhallsson yfirlögregluþjónn segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um hvort einhverjum verðu sleppt á næstunni. Fundað sé um málið nokkrum sinnum á dag.
Ákveða þarf á morgun, eða fyrr, hvort farið verður fram á framlengingu á gæsluvarðhaldi eins þeirra sem eru í haldi þar sem sá úrskurður rennur brátt út. Ekki liggur fyrir hvort farið verður fram á lengra gæsluvarðhald.
Búið er að fresta tilraunaflugi Spectrum-geimferjunnar sem stóð til í dag.
Þýska fyrirtækið Isar Aerospace stendur að geimskotinu sem verður frá eynni Andøya í Norður-Noregi. Í tilkynningu sem kom frá fyrirtækinu eftir hádegið segir að tilraunafluginu hafi verið frestað vegna slæmra vindskilyrða.
„Teymi okkar vinnur nú að því að ákvarða nýjan tíma ásamt aðstandendum Andøya skotpallsins. Isar Aerospace kynnir nýja tímasetningu fyrir geimskotið þegar hún liggur fyrir,“ segir í tilkynningunni.
Skjámynd úr myndskeiði af prufukeyrslu eldhreyfla Spectrum-geimferjunnar.Isar Aerospace / Wingmen Media
Árni Grétar Finnsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns Sjálfstæðisflokksins. Hann var áður aðstoðarmaður Guðrúnar í dómsmálaráðuneytinu.
Árni Grétar lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur starfað sem lögmaður hjá Samtökum atvinnulífsins, fulltrúi á lögmannsstofunum Landslögum og Cato lögmönnum og verið blaðamaður á Morgunblaðinu og mbl.is.
Í tilkynningu frá flokknum segir að Árni Grétar hafi gegnt ýmsum trúnaðarstörfum innan flokksins, meðal annars verið formaður Stefnis, félags ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði.
Dregið hefur úr skjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni á Reykjanesskaga frá því í gær þegar virknin jókst mikið. Samkvæmt upplýsingum frá náttúruvárvakt Veðurstofunnar eru engin merki um gosóróa.
Sundhnúksgígar, mynd tekin í mars.RÚV / Ragnar Visage
Kristín Jónsdóttir jarðeðlisfræðingur sagði í sjónvarpsfréttum í gær að vegna þess hve langt er frá síðasta gosi og hve mikil kvika hefur náð að safnast saman geti næsta gos orðið öflugra en þau fyrri.
Það verður rigning, slydda eða snjókoma á landinu sunnanverðu í dag. Hitinn verður frá frostmarki að sex stigum. Norðan og austan til verður vægt frost og engin úrkoma framan af. Seinni partinn fer að snjóa.
Í hugleiðingum veðurfræðings á vakt Veðurstofunnar segir: „Úrkomusvæði gengur norðaustur yfir landið í dag. Því fylgir austan- og suðaustanátt, vindur yfirleitt á bilinu 5-15 m/s, hvassast við suðvesturströndina.“
Veðurspá Veðurstofu Íslands klukkan 12 mánudaginn 24. mars 2025.Skjáskot / Veðurstofa Íslands
Það hlánar um landið vestanvert í kvöld og vindurinn verður suðlægari.
Á morgun verður suðvestan kaldi, 8-11 metrar, eða stinningskaldi, 11-14 metrar, með skúrum og slydduéljum.
Búið er að einangra eld sem kviknaði í gámum á athafnasvæði Hringrásar í Hafnarfirði í morgun. Er því ekki talin hætta á því að eldur breiðist út frá svæðinu, að því er kom fram í samtali fréttastofu við slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar má gera ráð fyrir því að reykur stígi áfram upp í einhverja daga, enda er mikið af eitur- og spilliefnum á svæðinu.
Íslenska sveitin á EM í klassískum kraftlyftingum náði ágætis árangri á mótinu sem fór fram á Spáni.
Kristín Þórhallsdóttir hreppti brons í hnébeygju -84 kg flokki er hún lyfti 202,5 kg. Hún lyfti samanlagt 527,5 kg. Hún endaði í 4. sæti í samanlögðum árangri.
Birgit Rós Becker varð í 13. sæti í samanlögðum árangri en hún lyfti 442,5 kg.
Í +84 kg voru þær Þorbjörg Mattíasdóttir og Hanna Jóna Sigurjónsdóttir. Samanlagt lyfti Þorbjörg 510 kg og hafnaði í 6. sæti og Hanna var með 502,5 kg í samanlögðum árangri og hreppti 7. sætið.
Þá keppti Þorsteinn Ægir Óttarsson í +120 kg flokki, en hann lyfti samanlagt 795 kg og hafnaði í 9. sæti.
Áfram var leitað í dag að manneskjunni sem var talin hafa farið í sjóinn undan Borgartúni í Reykjavík í gær. Leitin skilaði ekki árangri. Frá þessu segir í dagbók lögreglu.
Björgunarsveitir, björgunarskip, lögregla og þyrla Landhelgisgæslu Íslands tóku þátt í leitinni í gær.
Alan Trigg er Íslandsmeistari í 10-ball pool eftir 6-8 sigur gegn hinum unga Hlyni Stefánssyni. Mótið fór fram á Billiardbarnum í dag og er úrslitaviðureignin athyglisverð fyrir þær sakir að Alan er þjálfari Hlyns. Hlynur þykir einn efnilegasti poolspilari landsins.
Alan kemur frá Englandi og hefur mikla trú á Hlyn. „Á mínum fimmtíu ára þjálfaraferli hef ég þjálfað 15-20 þúsund manns. Hann er ábyggilega einn af bestu 1% leikmönnum af leikmönnum sem ég hef þjálfað.“
Sjá má myndefni frá mótinu í íþróttafréttum kvöldsins.
Mynd frá rússneska hernum.EPA-EFE / RUSSIAN DEFENCE MINISTRY PRESS SERVICE HANDOUT
Samningaviðræður sendinefnda Bandaríkjanna og Úkraínu um möguleikann á vopnahléi að hluta í innrásarstríði Rússlands í Úkraínu eru hafnar í Sádi-Arabíu.
Rustem Umerov, varnarmálaráðherra Úkraínu, greinir frá þessu á Facebook. Þar segir hann að meðal umræðuefna á fundinum verði tillögur til að verja innviði Úkraínu, meðal annars orkuinnviði.
Eftir símafund Donalds Trump forseta Bandaríkjanna og Vladimírs Pútín forseta Úkraínu í vikunni féllst sá síðarnefndi á að hlé yrði gert á árásum á orkuinnviði. Næstu nótt héldu Rússar áfram árásum á Úkraínu, meðal annars á sjúkrahús og olíustöð.