Tveir í lífshættu eftir að bíl var ekið á mannfjölda í Kaupmannahöfn
Tveir eru í lífshættu eftir slys í miðborg Kaupmannahafnar síðdegis þegar aldraður maður ók óviljandi á hóp fólks.
Tólf manns, þar á meðal ökumaðurinn, slösuðust. Maðurinn missti stjórn á bíl sínum og ók á fólkið þar sem það sat við langborð fyrir utan bakarí. Mikill viðbúnaður var á slysstað, við vötnin, Søerne í miðborginni. Þar er jafnan fjölmenni á sólríkum dögum eins og í dag. Margir þurftu á áfallahjálp að halda eftir að hafa orðið vitni að slysinu.
Danska ríkisútvarpið hefur eftir sjónarvottum að bílnum hafi verið ekið á töluverðum hraða á fólkið.