NÝJAR FRÉTTIR

Hér birtast allar nýjustu fréttirnar á vefnum. Notaðu síuna til þess að sýna fréttir úr völdum flokkum.

Sía
Fyrir 3 tímum
Íþróttir
Handbolti

Fram nálg­ast topp­inn eftir sigur á Vals­kon­um

Það var toppslagur í Olísdeild kvenna þegar Fram vann Val 28-26. Leikurinn var mjög jafn en mest munaði einu marki á liðunum þangað til á 38. mínútu þegar Fram komst tveimur mörkum yfir í stöðunni 17-15. Þá jafnaði Valur leikinn á ný og tók tveggja marka forystuna sín megin. Þegar tíu mínútur lifðu leiks var staðan hnífjöfn 24-24. Framkonur gáfu þá í og unnu að lokum tveggja marka sigur.

Darija Zecevic í marki Fram í efstu deild kvenna í handbolta
Darija Zecevic varði þrettán skot í leiknum.Mummi Lú

Fram er því ansi nálægt Val sem situr í efsta sæti með 32 stig. Fram er nú með 30 stig í öðru sæti.

Haukar fengu Gróttu í heimsókn og unnu þar öruggan sigur, 14 marka sigur, 35-21. Haukar náðu snemma yfirhöndinni í leiknum en hann varð í raun aldrei spennandi.

Fyrir 3 tímum
Íþróttir
Fótbolti

Ha­a­land sló met í enska bolt­an­um

Fimm leikir fóru fram í ensku úrvalsdeild karla í fótbolta í dag. Manchester City fékk Brighton í heimsókn en liðin skildu jöfn 2-2 eftir að heimamenn misstu forystuna í tvígang. Einungis eitt stig skilur liðin að, City er í fimmta sæti deildarinnar með 48 stig og Brighton í því sjöunda með 47.

Erling Haaland setti þá met í ensku úrvalsdeildinni þegar hann varð fyrstur til þess að skora eða leggja upp 100 mörk í undir 100 leikjum.

epa11966328 Erling Haaland of Manchester City prepares to take a penalty during the English Premier League match between Manchester City and Brighton & Hove Albion, in Manchester, Britain, 15 March 2025.  EPA-EFE/ADAM VAUGHAN EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos, 'live' services or NFTs. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications.
Erling Haaland skoraði úr víti.EPA-EFE / ADAM VAUGHAN

Þá var markaveisla þegar Ipswich tók á móti Nottingham Forest en Forest vann 2-4 sigur. Nottingham Forest er í þriðja sæti.

Önnur úrslit

Everton 1 - 1 West Ham
Southampton 1 - 2 Wolverhampton
Bournemouth 1 - 2 Brentford

15. mars 2025 kl. 7:43
Innlendar fréttir
Veður

Nokkuð milt veður fram á mánu­dag

Í dag má búast við hægum vindi í kringum 2 metra á sekúndu. Dálítil væta vestantil á landinu en yfirleitt þurrt austantil.

Á morgun má búast við aðeins meiri vindhraða víðast hvar um landið eða um 2 til 5 metrum á sekúndu. Súld eða lítils háttar rigning sunnan- og vestanlands. Bjartviðri á Norður- og Austurlandi.

Útlit er fyrir að veður verði nokkuð svipað fram á mánudag.

Myndin er af raflínum við Akureyri. Rafmagnsstaurar í forgrunni, sést yfir Eyjafjörð.
Horft yfir Eyjafjörðinn.RÚV / Ólafur Göran Ólafsson Gros

15. mars 2025 kl. 6:50
Innlendar fréttir
Hafnarfjörður

Eldur í bíl við Fjarð­ar­kaup

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út skömmu eftir klukkan eitt í nótt eftir að eldur kom upp í bíl á bílastæði verslunarinnar Fjarðarkaups í Hafnarfirði. Að sögn varðstjóra slökkviliðsins gekk slökkvistarf fljótt fyrir sig en bíllinn er ónýtur.

Hann sagði eiganda bílsins hafa tilkynnt um eldinn og að slökkvilið hefði komið á staðinn á örskotsstundu, enda er slökkvistöðin í Skútahrauni aðeins steinsnar frá versluninni. Ekki er ljóst hvort eigandinn hafi verið inni í bílnum þegar eldurinn kom upp en engan sakaði að sögn varðstjóra.

Eldsupptök eru ókunn.

Slökkvistarf gekk fljótt fyrir sig. Mynd er úr safni.RÚV / Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir

15. mars 2025 kl. 4:30
Erlendar fréttir
Kúba

Millj­ón­ir án raf­magns á Kúbu

Milljónir voru án rafmagns á Kúbu í gærkvöld og nótt þegar raforkudreifikerfi landsins hrundi. Rafmagn lá niðri á stórum svæðum í höfuðborginni Havana og víðar í vesturhluta ríkisins.

Kúbverjar hafa staðið frammi fyrir reglulegu rafmagnsleysi undanfarna mánuði. Rafdreifikerfi landsins er víða úrelt og illa við haldið. Þá hafa eldsneytisskortur, náttúruhamfarir og bágt efnahagsástand síðustu misseri ýtt enn frekar undir vandann.

A resident walks on a street during a general blackout in Havana, Cuba, Friday, March 14, 2025. (AP Photo/Ramon Espinosa)
Rafmagnslaust varð í stórum hluta Havana.AP / Ramon Espinosa

Residents look at their cell phones on the street during a general blackout in Havana, Cuba, Friday, March 14, 2025. (AP Photo/Ramon Espinosa)
Íbúar Kúbu hafa staðið frammi fyrir endurteknu rafmagnsleysi síðustu mánuði.AP / Ramon Espinosa

14. mars 2025 kl. 21:55
Innlendar fréttir
Hvalfjarðarsveit

Starfs­mað­ur­inn ekki al­var­lega slas­að­ur

Starfsmaðurinn, sem slasaðist þegar öryggi sprakk í aðveitustöð í álveri Norðuráls á Grundartanga í dag, virðist ekki vera alvarlega slasaður.

Þetta staðfestir Sólveig Bergmann upplýsingafulltrúi Norðuráls en hún segir starfsmanninn hafa verið fluttan til aðhlynningar á sjúkrahúsi. Mikil mildi sé að ekki fór verr.

Önnur af tveimur kerlínum álversins hefur legið niðri frá því um fjögurleytið í dag en Sólveig segir að verið sé að keyra upp rafmagn á línuna. Það geti tekið nokkra stund en búist sé við að viðgerð ljúki í kvöld.

Starfsmaður slasaðist í vinnuslysi í álverinu á Grundartanga.
RÚV / Ástrós Signýjardóttir

14. mars 2025 kl. 21:28
Íþróttir
Körfubolti

Stjörn­unni mis­tókst að komast á topp­inn - allt undir í loka­um­ferð­inni

Keflavík vann Stjörnuna í kvöld í næstsíðustu umferð Bónusdeildar karla í körfubolta, 107-98. Stjarnan gat tyllt sér í efsta sætið fyrir lokaumferðina en eftir sigur Keflavíkur situr Tindastóll á toppnum.

Spennan fyrir lokaumferðina er mikil. Stjarnan og Tindastóll eru með 30 stig, tveimur meira en Njarðvík sem mætir Stjörnunni í lokaumferðinni. Tindastóll mætir Val. Sigri Njarðvík Stjörnuna og Valur Tindastól verða Njarðvíkingar deildarmeistarar. Vinni bæði Tindastóll og Stjarnan verða Stólarnir deildarmeistarar.

Í hinum leik kvöldsins vann ÍR Hött 84-83. ÍR fór í 7. sæti með sigrinum. Keflavík jafnaði við Þór Þorlákshöfn í 9.-10. sæti.

Orru Gunnarsson, 2024-10-04 Stjarnan - Valur
RÚV / Mummi Lú

14. mars 2025 kl. 17:29
Íþróttir
Handbolti

Upp­selt á Ísland-Grikk­land á morgun

HSÍ tilkynnti í dag að uppselt væri á leik Íslands og Grikklands í undankeppni Evrópumótsins 2026. Leikurinn er á morgun kl. 16 og bíður íslenska liðsins stuðningur rúmlega 2000 áhorfenda í Laugardalshöll. Sigur tryggir sæti Íslands á EM í 14. sinn í röð.

Fyrir þau sem ekki fengu miða má benda á að leikurinn er að sjálfsögðu sýndur beint á RÚV og hefst útsending úr Höllinni klukkan 15:30.

Helga Margrét Höskuldsdóttir heldur utan um upphitun í Stofunni og gestir verða Logi Geirsson og Kári Kristján Kristjánsson. Einar Örn Jónsson og Vignir Stefánsson lýsa svo leiknum.

Þorsteinn Leó Gunnarsson í leik Íslands og Bosníu í undankeppni EM í handbolta 2026, 6. nóvember 2024
RÚV / Mummi Lú

14. mars 2025 kl. 11:44
Íþróttir
Golf

Fimm gátu ekki klárað fyrsta hring­inn á Play­ers

Players-meistaramótið í golfi hófst í gær á TPC Sawgrass-vellinum í Flórída. Bandaríkjamennirnir Lucas Glover, J. J. Spaun og Kólumbíumaðurinn Camilo Villegas leiða að loknum fyrsta hring á sex höggum undir pari.

Fimm kylfingar náðu ekki að klára hringinn í gærkvöldi vegna birtuskilyrða. Af þeim er Max McGreevy frá Bandaríkjunum í bestu stöðunni eða á 5 höggum undir pari eftir 16 holur.

epa11962687 Rory McIlroy of Northern Ireland tees the 15th hole during the first round of The Players Championship golf tournament at TPC Sawgrass in Ponte Vedra Beach, Florida, USA, 13 March 2025.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
EPA-EFE / ERIK S. LESSER

Norður-Írinn Rory McIlroy er einu höggi á eftir efstu mönnum ásamt fjórum öðrum kylfingum. Ríkjandi meistari síðustu tveggja ára, Bandaríkjamaðurinn Scottie Scheffler, spilaði á þremur höggum undir pari.

Mótið klárast á sunnudag.

14. mars 2025 kl. 10:52
Erlendar fréttir
Ísrael-Palestína

Lokað fyrir flutn­ing neyð­ar­að­stoð­ar í nær tvær vikur

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) hefur ekki getað sent neinar matarbirgðir til Gaza síðan 2. mars. Ástæðan er sú að Ísrael hefur síðan þá lokað fyrir allar slíkar flutningaleiðir inn á Gaza.

Matarbirgðir á Gaza duga fyrir eldhús hjálparsamtaka og bakarí í mánuð í viðbót, samkvæmt stofnuninni. Þá eru til máltíðir sem duga 550.000 manns í tvær vikur.

Stofnunin lýsir einnig yfir áhyggjum af matarskorti á Vesturbakkanum þar sem Ísraelar hafa hert árásir síðustu vikur, með þeim afleiðingum að fólk hefur hrakist af heimilum sínum og hefur takmarkaðan aðgang að mat.

Displaced Palestinian children walk on a road to return to their homes in the northern Gaza Strip, Tuesday, Jan. 28, 2025. (AP Photo/Abdel Kareem Hana)
Börn á leið aftur heim til sín á norður-Gaza í lok janúar.AP / Abdel Kareem Hana

14. mars 2025 kl. 7:57
Innlendar fréttir
Leit og björgun

Leit hætt í Borg­ar­nesi

Leit hefur verið hætt í Borgarnesi eftir að tilkynnt var um að eitthvað óþekkt hefði sést í sjónum við bæinn í gærkvöldi. Þetta staðfestir Ásmundur K. Ásmundsson yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Vesturlandi. Björgunarsveitir á Vesturlandi voru kallaðar út á níunda tímanum í gærkvöldi og leit var frestað á miðnætti.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að rekald hafi fundist og ekki sé hægt að útiloka að það hafi villt fólki sýn.

Í Borgarnesi, horft yfir Borgarfjörðinn frá menntaskólanum yfir á Hafnarfjallið.
RÚV / Gréta Sigríður Einarsdóttir

Fréttin og fyrirsögnin var uppfærð með upplýsingum frá lögreglu um að leit hafi verið hætt.

14. mars 2025 kl. 7:01
Innlendar fréttir
Veður

Skýjað að mestu og dá­lít­il væta

Í dag er búist við suðvestan átt 5-10 metrum, en 10-15 á norðanverðu landinu. Það verður skýjað að mestu og lítils háttar væta af og til. Yfirleitt bjart veður um landið austanvert, hiti 3-8 stig.

Það dregur aðeins úr vindi á morgun, suðlæg átt 5-10 metrar um hádegi. Lítils háttar rigning eða súld í flestum landshlutum en þurrt að kalla norðaustanlands. Áfram milt í veðri og hiti 5-10 stig.

Slabb og rigning séð gegnum rúðu
RÚV / Ragnar Visage

Á sunnudag og mánudag hvessir, sunnan 10-18 metrar en hægari austantil. Dálítil væta sunnan- og vestantil en léttskýjað á Norðausturlandi. Hiti breytist lítið.

14. mars 2025 kl. 6:22
Erlendar fréttir
Bandaríkin

Fóru út á væng flug­vél­ar eftir að eldur kvikn­aði

Rúmlega 170 farþegar þurftu að yfirgefa flugvél í Denver í Colorado með hraði skömmu eftir lendingu þegar eldur kom upp í vélinni í gærkvöld. Sex voru fluttir til skoðunar á sjúkrahúsi.

Vélin var á leið frá Colorado Springs til Texas en var lent í Denver vegna titrings í vél hennar. Í myndskeiðum sem birt voru á samfélagsmiðlum sést hvernig farþegar stóðu á væng flugvélarinnar áður en þeim var komið niður.

Flugmálayfirvöld rannsaka tildrög eldsins.

13. mars 2025 kl. 23:58
Innlendar fréttir
Gettu betur

Mennta­skól­inn við Hamra­hlíð í úrslit Gettu betur

Menntaskólinn við Hamralíð hafði betur gegn Menntaskólanum í Reykjavík í kvöld og er þar með komið í úrslit Gettu betur, 27. mars 2025. Liðið mætir þar Menntaskólanum á Akureyri.

Keppendur í liði Menntaskólans við Hamrahlíð eru Atli Ársælsson, Valgerður Birna Magnúsdóttir og Flóki Dagsson. Keppendur í liði Menntaskólans í Reykjavík eru Björn Diljan Hálfdánarson, Davíð Birgisson og Dóróthea Margrét Jakobsdóttir.

Lið MH í Gettu betur 2025.
RÚV

13. mars 2025 kl. 23:24
Innlendar fréttir
Leit og björgun

Björg­un­ar­sveit­ir við störf í Borg­ar­byggð

Björgunarsveitir af Vesturlandi voru kallaðar út um klukkan hálf níu í kvöld vegna tilkynningar um að eitthvað óþekkt hefði sést í sjónum við Borgarnes. Jón Þór Víglundarson, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, staðfestir að björgunarsveitarmenn séu við störf vestan við Borgarnes.

Það liggur ekki fyrir hvers konar leit stendur yfir eða hvers eðlis viðbúnaður viðbragðsaðila er. Þá var ekki unnt að veita frekari upplýsingar þegar fréttastofa hafði samband við Landsbjörg.

13. mars 2025 kl. 22:53
Erlendar fréttir
Bandaríkin

Rík­is­stofn­un­um gert að end­ur­ráða starfs­menn

Alríkisdómari í Kaliforníu hefur úrskurðað að sex bandarískar ríkisstofnanir skuli endurráða starfsmenn sína sem var sagt upp í hagræðingarskyni, í samræmi við áherslur Bandaríkjastjórnar Donalds Trumps. Dómarinn, William Alsup, segir uppsagnirnar hafa verið ólögmætar.

Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Karoline Leavitt, segir í yfirlýsingu að Alsup fari fram úr sér. Hann hafi ekki heimild til þess að hafa afskipti af framkvæmdarvaldi forsetans. Hún bætir við að bandarísk stjórnvöld muni tafarlaust „berjast gegn þessari fráleitu ákvörðun“, sem þau telja að brjóti í bága við stjórnarskrána.

White House press secretary Karoline Leavitt speaks to reporters at the White House in Washington, Wednesday, March 12, 2025. (AP Photo/Ben Curtis)
Karoline Leavitt, fjölmiðlafulltrúi Hvíta Hússins.AP / Ben Curtis

13. mars 2025 kl. 21:10
Íþróttir
Körfubolti

Topp­sæt­ið í hættu hjá Tinda­stóli

Njarðvík vann Tindastól 101-90 í toppslag næst síðustu umferðar úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld. Eftir sigurinn er Njarðvík nú aðeins tveimur stigum á eftir toppliðunum Tindastóli og Stjörnunni. Stjarnan á leik til góða og getur með sigri á Keflavík annað kvöld náð toppsætinu af Tindastóli fyrir lokaumferðina.

Dominykas Milka í leik Keflavíkur og Njarðvíkur í Bónusdeild karla 18. október 2024
Dominykas Milka var stigahæstur Njarðvíkinga með 26 stig.Mummi Lú

Valur vann sjöunda deildarsigurinn i röð með stórsigri á Grindavík og er i fjórða sæti, tveimur stigum á eftir Njarðvík.

Úrslit kvöldsins

Álftanes-Þór Þ. 108-96
KR-Haukar 103-87
Njarðvík-Tindastóll 101-90
Valur-Grindavík 99-80

Staðan í Bónusdeild karla

13. mars 2025 kl. 17:31
Íþróttir
Handbolti

Allt í hnút í riðli Ís­lands

Íslenska karlalandsliðið í handbolta er komið með annan fótinn í lokakeppni Evrópumótsins 2026 eftir sigurinn gegn Grikkjum í gær. Það er hins vegar allt komið í hnút í baráttu hinna liðanna þriggja í riðli Íslands í undankeppninni eftir að Georgía vann Bosníu í dag, 28-26.

Giorgi Tskhovrebadze, landsliðsmaður Georgíu í handbolta.
HANDBALL - EHF EURO 2024 MANNHEIM,GERMANY,15.JAN.24 - HANDBALL - EHF Men s European Championship, EM, Europameisterschaft 2024, group stage, Bosnia and Herzegovina vs Georgia. Image shows Giorgi Tskhovrebadze (GEO). PUBLICATIONxNOTxINxAUTxSUIxSWE GEPAxpictures xEdgarxEisner
Giorgi Tskhovrebadze skoraði 11 mörk fyrir Georgíu í dag.IMAGO / GEPA pictures

Tvö efstu liðin í riðlinum komast beint á EM auk þeirra fjögurra liða sem ná bestum árangri í þriðja sæti í riðlunum átta í undankeppninni. Ísland er með 6 stig á toppi riðilsins en hin liðin þrjú eru nú öll með tvö stig þegar þremur umferðum er ólokið. Næsti leikur Íslands verður gegn Grikklandi í Laugardalshöll á laugardaginn.

13. mars 2025 kl. 17:27
Innlendar fréttir
Lögreglumál

Einn til við­bót­ar hand­tek­inn vegna morð­rann­sókn­ar

Einn var handtekinn í dag vegna rannsóknar lögreglu á manndrápsmáli í Þorlákshöfn í vikunni. Þetta kemur fram í færslu sem lögreglan á Suðurlandi birtir á Facebook. Áður hafði komið fram að lögregla væri að leita að einum manni vegna málsins. Ekki er þó staðfest í færslunni að sá handtekni sé hinn sami.

Alls hafa níu manns verið handteknir vegna rannsóknarinnar; fimm verið sleppt en þrír úrskurðaðir í gæsluvarðhald, tveir karlar og ein kona. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir þeim sem var handtekinn í dag.

Gufunes.
Maðurinn sem var drepinn var með lífsmarki þegar hann fannst í Gufunesi í Reykjavík. Hann lést af sárum sínum á sjúkrahúsi.RÚV / Ragnar Visage

13. mars 2025 kl. 15:25
Innlendar fréttir
Reykjavíkurborg

Borgin aug­lýs­ir eftir nýjum rekstr­ar­að­ila Kola­ports­ins

Reykjavíkurborg ætlar að auglýsa eftir varanlegum rekstraraðila fyrir almenningsmarkað í Kolaportinu, að því gefnu að samningar náist við ríkið um áframhaldandi húsaleigusamning. Þetta var samþykkt í borgarráði í dag.

Óvissa hefur verið um framtíð Kolaportsins eftir að félagið sem sá um reksturinn fór í þrot. Borgin leigir rýmið, sem er í Tollhúsinu við Tryggvagötu, af íslenska ríkinu.

Gangurinn Efstabúð í Kolaportinu. Hannyrða- og skranbásar beggja megin gangsins. Fólk skoðar varning.
RÚV

13. mars 2025 kl. 14:08
Innlendar fréttir
Kjaramál

Halla Gunn­ars­dótt­ir kjörin for­mað­ur VR

Halla Gunnarsdóttir var kjörinn formaður VR með 48% atkvæða.

Atkvæðagreiðslu vegna kjörs formanns og stjórnar VR lauk í hádeginu. Atkvæðagreiðslan var rafræn og hófst fyrir réttri viku.

Þorsteinn Skúli Sveinsson var annar með 21% atkvæða, Flosi Eiríksson fékk tæp 17% atkvæða og Bjarni Þór Sigurðsson 13%.

Alls greiddi 9.581 atkvæði, en ríflega 40 þúsund manns eru í VR. Kjörsókn var því innan við 25%.

Halla Gunnarsdóttir
Halla Gunnarsdóttir, nýkjörinn formaður VR.Aðsend

Sjö voru kosin í stjórn VR: Svanhildur Ólöf Þorsteinsdóttir, Ólafur Reimar Gunnarsson, Andrea Rut Pálsdóttir, Karl F. Thorarensen, Jennifer Schröder, Styrmir Jökull Einarsson og Selma Björk Grétarsdóttir.

13. mars 2025 kl. 13:59
Erlendar fréttir
Bandaríkin

Trump hótar 200% tolli á evr­ópskt vín

Donald Trump Bandaríkjaforseti hótar að leggja 200% toll á evrópskt vín og aðra áfenga drykki. Þetta skrifar hann á samfélagsmiðil sinn Truth Social.

Evrópusambandið tilkynnti í gær um toll á bandarískt viskí upp á 50% en tollaáform Evrópusambandsins eru svar við tollum Bandaríkjanna á stál og ál sem tóku gildi í gær.

Í yfirlýsingu á Truth Social ítrekar Trump þá skoðun sína að Evrópusambandið sé fjandsamlegt í garð Bandaríkjanna og segir bandalagið hafa verið myndað til þess að klekkja á Bandaríkjunum.

President Donald Trump waits for the arrival of Ireland's Prime Minister Micheál Martin at the White House in Washington, Wednesday, March 12, 2025. (AP Photo/Alex Brandon)
President Donald Trump waits for the arrival of Ireland's Prime Minister Micheál Martin at the White House in Washington, Wednesday, March 12, 2025. (AP Photo/Alex Brandon)AP / Alex Brandon

13. mars 2025 kl. 12:33
Erlendar fréttir
Innrás í Úkraínu

Vonar að Banda­ríkja­mönn­um takist að sann­færa Rússa um vopna­hlé

Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti vonar að Bandaríkjamönnum takist að sannfæra Rússa um að fallast á vopnahlé í Úkraínu. Úkraínumenn hafa þegar samþykkt 30 daga vopnahlé en ráðgjafi Rússlandsforseta lýsti því yfir í morgun að vopnahlé myndi ekki gera annað en veita Úkraínuher andrými. Rússar vildu að hagsmunir þeirra væru tryggðir.

Zelensky skrifaði í færslu á samfélagsmiðlum í morgun að úr því að ekki hefði komið neitt afgerandi svar frá Rússum þýddi það að þeir vildu berjast áfram. Heimurinn hefði beðið í meira en sólarhring eftir svari.

Sendinefnd á vegum Bandaríkjastjórnar er komin til Moskvu og fundar með rússneskum embættismönnum í dag.

FILE - President Volodymyr Zelenskyy speaks to the media during a briefing at the Khmelnytskyi Nuclear Power Plant, Ukraine, Thursday, Feb. 13, 2025. (AP Photo/Alex Babenko, File)
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu.AP / Alex Babenko

13. mars 2025 kl. 8:55
Erlendar fréttir
Ítalía

Vörðu nótt­inni úti vegna jarð­skjálfta í Napólí

Margir vörðu nóttinni úti við í borginni Napólí og nágrenni eftir að jarðskjálfti 4,4 að stærð reið yfir klukkan 01:25 að staðartíma. Fólk dvaldi ekki í húsum sínum af ótta við frekari skjálfta og var því í bílum sínum eða á götum úti.

Skjálftinn varð á um þriggja kílómetra dýpi. Einn slasaðist bænum Pozzuoli þegar hús hrundi að hluta. Bærinn er nálægt upptökum skjálftans. Rafmagnslaust varð í sumum hlutum Napólí eftir skjálftann sem fannst víða í Campania-héraði. Tveir minni eftirskálftar fundust.

Verið er að meta skemmdir. Skólastarf verður fellt niður á nokkrum stöðum í dag á meðan verið er að meta ástand bygginga.

13. mars 2025 kl. 7:15
Innlendar fréttir
Veður

Él á Norð­aust­ur­landi en bjart að mestu sunn­an­lands

Það verður norðlæg átt á landinu í dag, 5-10 metrar á sekúndu, él á norðaustanverðu landinu en bjart að mestu sunnanlands. Hægari síðdegis og léttir til norðaustanlands. Hiti að átta stigum, hlýjast syðst. Smám saman snýst í suðlægða átt og kólnar í kvöld.

Á morgun verður suðvestanátt, yfirleitt 8-15 metrar en hægari sunnan til. Dálítil súld og rigning á vestanverðu landinu en bjart að mestu austanlands, hiti 4-9 stig.

Á laugardag dregur úr sunnanáttinni og verða 5-10 metrar síðdegis. Áfram er væta með köflum á vestanverðu landinu en léttskýjað austan til og hlýtt í veðri. Á sunnudag má gera ráð fyrir suðlægri átt, 10-18 metrum, hiti 5-10 stig.

Veðurspá klukkan 15 í dag, bjart á nánast öllu landinu nema suðvesturhorninu og á Norðvesturlandi.
Veðurstofa Íslands

13. mars 2025 kl. 0:19
Innlendar fréttir
Jarðhræringar á Reykjanesskaga

Skjálfti af stærð­inni 3,5 sunnan við Reykja­nes­tá

Skjálfti af stærðinni 3,5 reið yfir sunnan við Reykjanestá klukkan 23:25 í kvöld. Að sögn Veðurstofu Íslands tilheyrir hann hrinunni sem hófst á svæðinu fyrr í dag. Dregið hafi úr hrinunni fyrr í kvöld en virkni aukist aftur fyrir miðnætti. Um 300 skjálftar hafa mælst á svæðinu í dag, þar af um fjórir yfir 3 að stærð.

Jarðskjálftarnir eru mögulega gikkskjálftar vegna breytinga á spennusviði á Reykjanesskaga samhliða jarðhræringum þar síðustu ár. Þrýstingur af völdum kviku er orðinn mikill undir Svartsengi og samkvæmt útreikningum sérfræðinga Veðurstofunnar hefur rúmmál hennar aldrei verið meira síðan goshrinan hófst í desember 2023.

Jarðskjálftakort af vef Veðurstofu Íslands sem sýnir merkingar fyrir jarðskjálftahrinu 12. mars 2025. Mikið af merkingum er á og sunnan við Reykjanestá, þar af nokkrar stjörnur sem merkja skjálfta yfir þrír að stærð.
Um fjórir skjálftar mældust yfir 3 að stærð.Skjáskot / Veðurstofa Íslands

12. mars 2025 kl. 22:45
Íþróttir
Fótbolti

Real áfram eftir víta­spyrnu­keppni

epa11959799 Real Madrid's Brahim Diaz (L) in action against Samuel Lino (R) of Atletico Madrid during the UEFA Champions League round of 16 second leg soccer match between Atletico Madrid and Real Madrid in Madrid, Spain, 12 March 2025.  EPA-EFE/J.J. Guillen
epa11959799 Real Madrid's Brahim Diaz (L) in action against Samuel Lino (R) of Atletico Madrid during the UEFA Champions League round of 16 second leg soccer match between Atletico Madrid and Real Madrid in Madrid, Spain, 12 March 2025. EPA-EFE/J.J. GuillenEPA-EFE / J.J. Guillen

Real Madrid er komið í átta liða úrslit Meistaradeildar karla í fótbolta eftir vítaspyrnukeppni gegn Atletico Madrid.

Connor Gallagher skoraði eina mark leiksins á fyrstu mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki og jafnt í einvíginu eftir eins marks sigur í fyrri leiknum. Því fór leikurinn í vítaspyrnur. Þar klúðruðu Atletico tveimur vítum pg Real einu. Rüdiger skoraði sigurvítið.

Arsenal gerði 2-2 jafntefli gegn PSV og vann einvígið samanlagt 9-3.

Aston Villa vann öruggan 3-0 sigur gegn Club Brugge og einvígið samanlagt 6-1.

12. mars 2025 kl. 21:32
Íþróttir
Körfubolti

Haukar eru deild­ar­meist­arar

Úr leik Hauka gegn Stjörnunni í efstu deild kvenna í körfubolta tímabilið 2024-25.
Mummi Lú

Haukar eru deildarmeistarar kvenna í körfubolta eftir sigur gegn Þór Akureyri, 97-73. Haukar hafa tryggt sér efsta sætið þegar ein umferð er eftir. Þór er í þriðja sæti.

Lore Devos var með 30 stig og níu fráköst í liði Hauka en Amandine Justine Toi var atkvæðamikil hjá Þór með 29 stig og fimm stoðsendingar.

Njarðvík vann Val 90-80 og með sigrinum tryggðu Njarðvíkurkonur sér annað sætið. Valur er í fimmta sæti.

Brittany Dinkins skoraði 42 stig, tók níu fráköst og gaf átta stoðsendingar hjá Njarðvík. Hjá Val var Jiselle Thomas stigahæst með 28 stig.

12. mars 2025 kl. 21:26
Íþróttir
Handbolti

Fram náði fram hefnd­um gegn Haukum

Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín í leik Fram og Hauka í úrslitum bikarkeppni kvenna í handbolta 01.03.2025
RÚV / Mummi Lú

Fram vann Hauka 26-23 í efstu deild kvenna í handbolta. Sömu lið mættust í bikarúrslitum nýverið þar sem Haukar höfðu betur. Fram er nú með 28 stig í öðru sæti og Haukar með 26 stig í þriðja sæti.

Grótta náði í mikilvægt stig í botnbaráttunni er liðið gerði 23-23 jafntefli við Selfoss. Selfoss er í fjórða sæti með 14 stig. Grótta er sem fyrr í botnsætinu með sex stig, en nú aðeins stigi á eftir ÍBV sem er í næstneðsta sæti. Liðið í næstneðsta sæti mætir liðum úr næstefstu deild í umspili um laust sæti í efstu deild.

12. mars 2025 kl. 19:43
Íþróttir
Fótbolti

Hákon og Lille úr leik í Meist­ara­deild­inni

epa11959294 Hakon Haraldsson (R) of OSC Lille and Karim Adeyemi (L) of Borussia Dortmund in action during the UEFA Champions League Round of 16, 2nd leg soccer match between OSC Lille and Borussia Dortmund, in Lille, France, 12 March 2025.  EPA-EFE/YOAN VALAT
Hákon Arnar í baráttunni við Karim Adeyemi.EPA-EFE / YOAN VALAT

Hákon Arnar Haraldsson og liðsfélagar hans í Lille eru úr leik í Meistaradeild Evrópu í fótbolta. Liðið mátt þola 2-1 tap gegn Borussia Dortmund í 16-liða úrslitum. Liðin gerðu 1-1 jafntefli og því tapaði franska liðið 3-2 samanlagt.

Jonathan David kom Lille yfir eftir níu mínútna leik. Emre Can jafnaði metin úr vítaspyrnu á 54. mínútu. Maximilian Beier kom Dortmund svo yfir á 65. mínútu.

12. mars 2025 kl. 17:15
Innlendar fréttir
Heilbrigðismál

Berkla­smit á Fá­skrúðs­firði

Berklasmit hefur greinst á Fáskrúðsfirði. Í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Austurlands segir að smitrakning standi yfir en sá smitaði fær meðhöndlun á Heilsugæslunni í Fjarðabyggð.

Berklar eru smitsjúkdómur af völdum sýkils sem hefur áhrif á öndunarfæri. Á vef Heilsuveru segir að nokkur berklasmit greinist árlega á Íslandi.

12. mars 2025 kl. 16:13
Íþróttir
Handbolti

Haukur til Rhein-Neckar Löwen

Haukur Þrastarson fyrir leik íslenska karlalandsliðsins í handbolta gegn Færeyjum í nóvember 2023.
Mummi Lú

Haukur Þrastarson, landsliðsmaður í handbolta, fer til þýska liðsins Rhein-Neckar Löwen frá rúmenska liðinu Dinamo Búkarest að núverandi tímabili loknu.

Haukur var í ár hjá Dinamo Búkarest og þar áður í fjögur ár hjá pólska liðinu Kielce. Haukur er 23 ára og hefur skorað 21 mark í 18 landsleikjum.

12. mars 2025 kl. 15:44
Innlendar fréttir
Efnahagsmál

Skel Jóns Ás­geirs og félaga eign­ast tíu pró­senta hlut í Sýn

Fjárfestingafélagið Skel hefur eignast tíu prósenta hlut í fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækinu Sýn. Lífeyrissjóður verslunarmanna seldi í gær rúmlega fimm prósenta hlut í fyrirtækinu og viðskipti með hlutabréf hafa haldið áfram í dag. Hlutabréfaverð hefur hækkað um 20 prósent það sem af er degi.

Skel er því meðal stærstu eigenda Sýnar eftir síðustu viðskipti.

Jón Ásgeir Jóhannesson er stjórnarformaður Skeljar. Ingibjörg Pálmadóttir er meðal stærstu hluthafa í félaginu. Þau áttu áður fjölmiðlafyrirtækið 365 sem seldi Sýn Stöð 2, Bylgjuna, Vísi og fleiri fjölmiðla árið 2017.

Sýn, Suðurlandsbraut 8.
RÚV / Ragnar Visage

12. mars 2025 kl. 15:02
Innlendar fréttir
Jarðhræringar

Skjálfta­hrina við Reykja­nes­tá

Öflug skjálftahrina hófst við Reykjanestá um klukkan hálf þrjú í dag. Hátt í sextíu skjálftar hafa mælst og virkni heldur áfram, segir í tilkynningu frá náttúruvárvakt Veðurstofunnar.

Skjálftakort frá hrinu við Reykjanestá
Reykjanestá er suðvestast á Reykjanesskaga.Veðurstofa Íslands

Líklega eru fjórir skjálftar um og yfir 3 að stærð, sá stærsti um 3,5.

Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir í samtali við fréttastofu ákafar skjálftahrinur líkt og þessa vera algengar á þessum stað.

„Jarðskjálftarnir eru mögulega gikkskjálftar vegna breytinga á spennusviði á Reykjanesskaganum samhliða jarðhræringum þar síðustu ár. Sólarhringsvakt VÍ heldur áfram að vakta svæðið vel,“ segir í tilkynningu Veðurstofu.