Crystal Palace á leið í undanúrslit enska bikarsins
Crystal Palace vann öruggan sigur á Fulham í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í fótbolta, 3-0.
Eberechi Eze skoraði fyrsta mark Crystal Palace á 34. mínútu. Einungis fjórum mínútum síðar lagði hann upp annað mark liðsins, þegar Ismaïla Sarr kom boltanum í netið. Þriðja og síðasta mark leiksins skoraði Edward Nketiah á 75. mínútu. Crystal Palace er því á leið í undanúrslit enska bikarsins.
Leikur Brighton og Nottingham Forest hefst klukkan 17:00. Átta liða úrslitum lýkur á morgun þegar Preston og Aston Villa eigast við og Bournemouth mætir Manchester City.