„Þunglyndi er svo fjandi lúmskt. Það tekur sér bólfestu í manni og það er erfitt að reka það í burtu,“ segir Ingólfur Sigurðsson, knattspyrnumaður, sem glímt hefur við andleg veikindi frá að hann var unglingur. „Þetta er ástand og ástand þýðir að það varir ekki að eilífu.“

Í seinni hluta lokaþáttar Hæpsins kafa Katrín og Unnsteinn dýpra í vandamál ungra íslenskra karlmanna á Íslandi í dag og komast að því hvað getur orðið um kvíða sem ekki er tekið á.

„Mig grunaði aldrei að þetta gæti verið eitthvað andlegt, ég hélt að þetta væri bara eitthvað líkamlegt að mér,“ segir Ingólfur, sem var ungur og upprennandi knattspyrnumaður þegar hann veiktist. „Að veikjast svona andlega í fótboltaheimi, sem er í grunninn rosalega karllægur, er ótrúlega erfitt út af því að þú ferð strax í felur, eins og svo margir. Þetta er heimur þar sem sá sem getur bitið á jaxlinn og farið þetta á hnefanum, það er eins og okkur sé kennt að þeir einstaklingar séu þeir sem nái hvað lengst.“

Ingólfur segist hafa, í mikilli andlegri lægð, íhugað sjálfsvíg. „Þá var ég með þær ranghugmyndir að það væri bara best fyrir mig og alla í kringum mig að hverfa og á þeim tímapunkti þá virkilega trúir maður því að það sé það eina rétta í stöðunni og bara nokkuð eðlilegt. Ég var í rúminu nánast allan daginn, ég kom illa fram við fólkið í kringum mig og var bara versta mögulega útgáfan af sjálfum mér. En síðan með ótrúlega mikilli þolinmæðisvinnu þá einhvern veginn náði ég mér upp úr því en það gerðist ekki á einum degi eða einni viku. Það var miklu lengri prósess,“ segir Ingólfur. „Þetta er ástand og ástand þýðir að það varir ekki að eilífu.“

Hæpið er á dagskrá RÚV á miðvikudagskvöld klukkan 20.25. Hér fyrir ofan má sjá brot úr þættinum.