Jóhannes Jósefsson, glímukappi, sirkuslistamaður og hótelhaldari, ferðaðist um heim allan og glímdi við mann og annan á fyrri hluta 20. aldar. Í einni rimmunni mætti hann „besta hnífamanni Portúgala“. Jóhannes hlaut skaða af og þurfti að komast undan æstum hópi áhorfenda.

Jóhannes á Borg, eins og hann var gjarnan kallaður, auðgaðist mjög á ferðalögum sínum um heiminn þar sem hann kom fram á glímusýningum og tókst á við hvern þann sem þóttist geta lagt hann. Skömmu eftir að hann sneri aftur til Íslands eftir frægðarför erlendis hóf hann byggingu Hótels Borgar – sem gekk ekki áfallalaust fyrir sig.

Í safni útvarpsins er að finna gamalt viðtal sem Stefán Jónsson tók við Jóhannes í tilefni áttræðisafmælis hans árið 1963. Viðtalið var tekið í sumarbústað Jóhannesar, Lundi við Hítará á Mýrum. Stefán fékk að skoða úrklippubók Jóhannesar, greinar úr stórblöðum úti í hinum stóra heimi og fékk að heyra frægðarsögur af glímum hans og sýningum. 

Naut þess að fljúgast á

Jóhannes rifjaði upp sögur af áflogum í æsku, þegar hann flaugst á við alla aðkomupilta og drengi úr sveitinni. Hann sagðist vera forfallinn slagsmálahundur og það hefði verið „alveg hrein nautn“ að fljúgast á.

Eins sagði hann sögur af því hvernig danskir sjómenn höfðu farið með íslensku sjómennina. „Þeir lömdu íslensku vinnumennina sem voru að vinna í uppskipun alveg hvað eftir annað!“ Þetta þótti honum undirlægjuháttur Íslendinga og hét því að láta þetta ekki viðgangast þegar hann yrði eldri. „Ég hét því að ef ég yrði einhvern tíma að manni þá skyldi ég launa fyrir hrafninn. Og gerði það.“

Svo rifjaði Jóhannes upp nokkrar frægðarsögur frá því þegar hann ferðaðist um heiminn og glímdi við hvern þann sem vildi spreyta sig gegn honum, meðal annarra japanskan glímukappa sem aldrei hafði verið lagður, og hnífamann í Portúgal.

„Árið 1912 í Portúgal, Lissabon, þá gekk ég þar á móti besta hnífamanni Portúgala. Hann kom að með hnífstungu. Ég var vopnlaus. Hann var með hnífinn á sér,“ segir Jóhannes í viðtalinu. Hann hafi náð að stinga hnífnum á bólakaf í lófa hans, „svo sneri hann hnífnum svona, svoleiðis að það marraði í beinunum.“ Jóhannes segist þá hafa orðið óður. „Þá ætlaði ég að drepa dónann. Þá setti ég skærin um hálsinn á honum og þá ruddist allt fólkið niður ofan af pöllunum ofan frá, hundruðir manna. Þegar ég sá hópinn koma hafði ég vit á því að ég skreið undir dónann, hafði hann ofan á mér. Svo skreið ég aftur á bak milli fótanna á þeim út og komst til læknis.“

Sneri aftur heim með hendur fullar fjár 

Jóhannes ferðaðist um heiminn í fjölda ára þar sem hann sýndi listir sínar og glímdi við mann og annan, vann til dæmis í fjölda ára í Bandaríkjunum og efnaðist vel og vann sér inn mikla frægð. Að lokum sneri hann svo aftur til Íslands með fullar hendur fjár og hóf fljótlega að undirbúa byggingu Hótels Borgar. Það gekk ekki áfallalaust fyrir sig en hófst að lokum. Hann rifjaði upp opnunardag hótelsins sem augljóslega var honum mjög kær minning. 

Í viðtalinu talar Jóhannes einnig um veiðimennsku og vísur. Hann sýndi Stefáni flugusafnið sitt, en hann sagði að hann hefði misst ánægjuna af veiði með aldrinum þótt hann hafi enn talsverða ánægju af henni. 

Jóhannes sýndi þá Stefáni fuglasafnið sitt sem hann segir að hafi verið það stærsta á landinu á þeim tíma, taldi 176 fugla. Eins sýndi hann Stefáni bogasafnið sitt, sem hann hafði notað á hverjum einasta degi í mörg ár, nema þann stærsta og öflugasta, dýrabogann, sem notaður var til veiða á hjörtum, dádýrum og stórum skepnum. 

Það eru ekki nema afarmenn sem geta dregið hann upp. Enda hef ég aldrei skotið úr honum.

Hann segist hafa verið mikill vísnamaður, hann las allar bækur sem hann komst yfir þegar hann sat yfir ánum, ungur smaladrengur og lærði utan að heilu kvæðabálkana. Stefán spurði hann þá hvort hann hafi ekki samið stökur sjálfur. Jóhannes gerði lítið úr því, hann hefði samið nokkur sæmileg kvæði. Svo lét hann það eftir Stefáni að flytja jólakvæði sem hann sendi heim til Íslands 1925 frá Kansas í Bandaríkjunum.

Hlusta má á stytta útgáfu viðtalsins, sem flutt var í Mannlega þættinum, í spilaranum hér fyrir ofan. Eins má hlýða á viðtalið sem Stefán Jónsson tók við Jóhannes árið 1963 í fullri lengd (35 mín.) hér fyrir neðan.