„Það eru kannski svona 20 ár síðan menn fóru að sinna þessu sem aðalstarfi en fram að því höfðu menn sinnt þessu sem öðru“, segir Sigurður Ásgrímsson yfirmaður Sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar. Hjá sveitinni starfa fjórir fullmenntaðir sprengjusérfræðingar og tveir eru í þjálfun í dag.

Sprengjusveitin er kölluð út þegar einhverjir torkennilegir hlutir finnast á láði eða legi, tundurdufl, fallbyssukúlur, hvellhettur eða hvað annað sem hætta er á að geti sprungið. Auk þess sinnir sprengjusveitin fjölmörgum öðrum verkefnum, sér meðal annars um köfunarmál hjá Gæslunni og sér um þjálfun í valdbeitingu og skyndihjálp og hefur með höndum fiskveiðieftirlit.

Hróður sveitarinnar hefur borist út fyrir landsteinana og fyrir skömmu fóru þrír starfsmenn Sprengjusveitarinnar til Jórdaníu þar sem þeir kenndu íröskum hermönnum sprengjuleit. „Það var leitað til okkar á vegum Nató, sem er mikill heiður fyrir okkur og við fengum það verkefni að þjálfa hermenn í að finna hryðjuverkasprengjur og eyða þeim,“ segir Ásgeir Guðjónsson sprengjusérfræðingur. 

Landinn slóst í för með sprengjusveitinni. Þáttinn í heild er hægt að sjá hér.