Leikaralið Requiem samanstendur af leikurum sem eru að stíga sín fyrstu skref og kunnulegum andlitum sem sjást reglulega á skjánum í Bretlandi en eru ekki endilega þekkt nöfn. Lydia Wilson fer með hlutverk Matildu og tekst vel að koma sorg hennar og staðfestu við að fá svör vel til skila. Barnslegt útlit hennar og skjannahvítt hár gefa henni svo hálf-huldukonulegt yfirbragð sem passar persónunni fullkomlega. Það er kannski ekki skrýtið að bæði Hal og Nick, sem leiknir eru af Joel Fry og James Frecheville falli nánast í álög í návist hennar. Hins vegar eru það konurnar í lífi hennar, móðir hennar Janice, leikin af Joanna Scanlan, Rose móðir Carys, leikin af Claire Rushbrook og hin dularfulla Sylvia sem Tara Fitzgerald túlkar með fínlegri blöndu af hlýju og kulda, sem hafa mestu áhrifin á framvinduna. Requiem fjallar að miklu leiti um sambönd mæðgna og veltir upp spurningunni um það hversu mikil áhrif mæður okkar hafa á þá manneskju sem við verðum á fullorðinsaldri.
Þessi fyrsta þáttaröð af Requiem er aðeins sex þættir og áhorfendur eru skildir efitr með fjöldan allan af ósvöruðum spurningum. Hér eru engin auðveld svör og þau sem við fáum vekja gjarnan upp fleiri spurningar. Höfundur þáttanna Kris Mrksa segist hafa hugsað söguna í tveimur hlutum og því skulum við vona að BBC leggi í framleiðslu á seríu tvö svo við fáum heildarmyndina. En þessir fyrstu sex þættir standa alveg fyrir sínu engu að síður og skilja áhorfendur eftir með magnaða ónotatilfinningu sem situr í manni lengi eftir.