Árið 1615 myrtu Íslendingar 31 baskneskan hvalveiðimann á Vestfjörðum. Atburðurinn, sem lengst af hefur verið kallaður Spánverjavígin, virðist þó ekki vera á meðal þekktustu sagna þjóðarinnar. Hjálmtýr Heiðdal, einn af framleiðendum spænsk-íslensku heimildarmyndarinnar „Baskavígin“, segir að þeir hafi verið drepnir með hrottalegum hætti og illa farið með líkin.
Saga Baskanna rakin
Haldin var minningarathöfn á síðasta ári, þegar 400 ár voru liðin frá fjöldamorðunum, og kveikti það áhuga baskneskra kvikmyndargerðamanna á sögunni. „Þetta er mynd með mikið af leiknum atriðum, tekin upp á ellefu stöðum á Íslandi og í stúdíói á Spáni, en einnig um borð í eftirlíkingum af þeim skipum sem þeir komu á,“ segir Hjálmtýr. Á Íslandi tóku 118 aukaleikarar þátt í leiknum atriðum víðs vegar um landið og ljóst að gerð myndarinnar hefur verið nokkuð umfangsmikil.
„Sagan er sögð í myndinni og það er sagt hvaða menn þetta voru, hvaðan komu þeir, hvernig var aðbúnaðurinn og hvernig fóru þessar hvalveiðar fram. Þetta eru flottar senur, bæði tölvutækni notuð og síðan tökur. Þetta kemst allt mjög flott til skila finnst mér,“ segir Hjálmtýr. Myndin var sýnd á San Sebastian kvikmyndahátíðinni í Baskalandi á Spáni og á RIFF hátíðinni í Reykjavík í haust. Baskavígin verður sýnd í Bíó Paradís á morgun og næstu daga.
Dæmdir til dauða og eltir uppi
Sumarið 1615 komu hingað til lands rúmlega 80 baskneskir hvalveiðimenn á þremur skipum og stunduðu hvalveiðar í kringum Vestfirði. Þegar þeir ætluðu að halda til síns heima um haustið brotnuðum skipin í óveðri, þrír menn fórust en 83 skipverjar urðu strandaglópar á Íslandi. „Það er, á þessum tíma, spurning hvernig eigi að framfleyta þeim hópi í þessu umhverfi og þar sem fólk rétt skrimti sjálft,“ segir Hjálmtýr.
Baskarnir skiptu liði og fór hluti þeirra m.a. í Ísafjarðardjúp. Þar lentu þeir í minniháttar átökum við innfædda. Í kjölfarið voru Baskarnir allir dæmdir til dauða samkvæmt lögum sem þá voru í gildi um að útlendingar mættu ekki hafa hér vetursetu. Þeir voru eltir uppi og stór hluti þeirra drepinn. Talið er að hinir hafi komist um borð í erlent skip og náð að yfirgefa landið en ekkert er vitað um afdrif þeirra.