„Þetta er ekki upptalning eins og maður á að venjast í mannkynssögubókum heldur er hann að skoða áhrif mannsins á heiminn og hvernig tegundinni tókst að koma upp samvinnukerfum með því að beita hugmyndafluginu. Með því að skapa í rauninni ímyndaðan heim, ímynduð kerfi,“ segir Magnea J. Matthíasdóttir um nýjustu þýðingu sína, Sapiens.
Sapiens - mannkynssaga í stuttu máli er eftir ísraelska sagnfræðiprófessorinn Yuval Noah Harari. Hún kom fyrst út á hebresku árið 2011 og náði augum og eyrum heimsins þegar ensk þýðing kom út árið 2014. Sapiens kafar ofan í kjölinn í sögu okkar sem tegundar allt frá árdögum til nútímans og Harari sýnir hvernig sagan hefur mótað mannin og maðurinn söguna. Hún er margföld metsölubók um allan heim og ekki sér fyrir endan á velgengni Hararis. Hann hefur gefið út tvær bækur til viðbótar við Sapiens um stöðu og horfur mannkyns og þykir af mörgum vera einn af fremstu fræðimönnum samtímans.
Harari hefur þó einnig hlotið gagnrýni. Hann þykir af einhverjum stikla á of stóru og snerta á of mörgum fræðigreinum enda flakkar Sapiens milli líffræði, mannfræði, fornleifafræði og umhverfisfræði. Það gerir bókina að „flugvallabók“ í augum einhverra eða tegund aðgengilegra bókmennta sem henta vel fólki sem leiðist í löngum flugum og þurfa bæði spennandi og auðmeltanlegt lesefni.
Ranghugmynd línulegrar þróunnar
„Við vorum ekki ein,“ stendur á baksíðu Sapiens, sem nú hefur komið út á íslensku í þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur. Fyrir um hundrað þúsund árum voru um 6 tegundir manna uppi á sama tíma. Magnea segir að það fyrsta sem Harari tekur af lesendum er hugmyndin um línulega þróun mannsins. „Þetta er náttúrulega ranghugmynd, því það voru uppi margar tegundir mannkyns á sama tíma og hér og hvar í heiminum. En sapiens hefur einhvernveginn orðið ofan á og Harari grunar tegundina okkar um græsku. Hann gerir okkur sek um að hafa útrýmt öllum hinum manntegundunum alveg eins og við þurrkuðum út öll stóru dýrin í Ástralíu og höfum valdið gríðarlegum breytingum og skaða á vistkerfum hvar sem við höfum komið.“
Sapiens - mannkynssaga í stuttu máli var rædd í þættinum Bók vikunnar á Rás 1 sunnudaginn 15. september. Gestir þáttarins voru Arnar Pálsson erfðafræðingur og Íris Ellenberger sagnfræðingur og lektor á menntavísindasviði Háskóla Íslands.