Myndin Andið eðlilega segir frá því hvernig líf tveggja kvenna, einstæðrar íslenskrar móður og hælisleitanda frá Gíneu-Bissaú, fléttast saman á óvæntan hátt. Hún verður sýnd á föstudaginn langa á RÚV.

Kvikmyndin Andið eðlilega í leikstjórn Ísoldar Uggadóttur fjallar um einstæða móður í húsnæðisbasli sem fær vinnu við landamæravörslu á Keflavíkurflugvelli. Hún stöðvar þar hælisleitanda, konu frá Gíneu-Bissaú, á leið til Kanada með ógild skilríki. Konan festist í kjölfarið á Íslandi þar sem leiðir þeirra liggja óvænt saman aftur. Þetta er fyrsta kvikmynd Ísoldar í fullri lengd en hún skrifar handritið að myndinni og leikstýrir henni. Með aðalhlutverk fara Kristín Þóra Haraldsdóttir, Babetida Sadjo og Patrik Nökkvi Pétursson.

Myndin hlaut leikstjóraverðlaun í flokki alþjóðlegra kvikmynda á Sundance-kvikmyndahátíðinni sem er ein virtasta kvikmyndahátíð í heimi. Hún fékk einnig gagnrýnendaverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg.

„Að fá þessar sterku viðtökur, það var eins og í lygasögu. Maður trúði því ekki að ég væri að fá verðlaun á þessari hátíð,“ sagði Ísold Uggadóttir leikstjóri eftir afhendingu Sundance-verðlaunanna.

Ísold útskrifaðist úr kvikmyndanámi í New York árið 2011. Hún var þá upptekin af hruninu og ætlaði að gera mynd um einstæða móður á Reykjanesi sem missti heimili sitt og endaði á hrakhólum. 

„Ég var byrjuð að þróa þannig sögu sem átti að gerast á Reykjanesi, um konu með barn og kött sem endaði í bílnum en var líka mikið að lesa um flóttafólk sem var fast á Íslandi. Fólk sem var ekkert á leiðinni hingað, bara að reyna að komast og finna sér betra líf. Maður las dramatískar sögur af fólki sem reyndi allt sem það gat til að komast í burtu frá Íslandi. Hér var það fast, fékk ekki vinnu og sat fast í viðjum kerfis sem bauð ekkert líf. Mig langaði að fjalla um manneskju í þessari stöðu, fannst það verða að vera kona og af því að ég var byrjuð að þróa hina söguna fór ég að pæla hvað myndi gerast ef þessar tvær konur myndu lenda saman.“

Bryndís Loftsdóttir og Snæbjörn Brynjarsson fjölluðu um myndina í Menningunni og voru hrifin. „Maður finnur að Ísold brennur þetta á hjarta og vill að við áhorfendur bregðumst við og breytum samfélaginu,“ segir Snæbjörn. „Já, það er sannarlega enginn byrjendabragur. Þetta er ótrúlega flott fyrsta mynd hjá Ísold.“

Myndin hlaut einnig mikið lof, meðal annars í Cineuropa, Screen Daily og Variety. Gagnrýnandi Variety, Alissa Simon, segir myndina vel leikið félagslegt raunsæisdrama í ætt við myndir breska meistarans Ken Loach og hinna belgísku Dardenne-bræðra. Hún spáði myndinni frekari velgengni á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum þar sem umfjöllunarefnin séu eldfim og í takt við tíðarandann: fátækt, flóttamannavandinn og málefni hinsegin fólks. 

„Það er gaman að segja frá því að í allri undirbúningsvinnunni var ég stöðugt að vísa í Dardenne-bræður. Það er skemmtilegt að fólk taki eftir því og gaman að það sem maður lagði upp með fyrir fimm árum síðan, að það heppnist. Það er gaman að segja frá því að á tímabili kom til greina að klippari Dardenne-bræðra klippti þessa mynd en ég er feginn að það gerðist ekki, því annars hefði fólk mögulega eignað honum stílinn.“

Andið eðlilega verður sýnd á RÚV á föstudaginn langa klukkan 20:25. Rætt var við Ísold í Menningunni og horfa má á innslagið hér að ofan.