Kommúnur hippatímans gætu snúið aftur í uppfærðri útgáfu á næstu áratugum, þar sem sífellt fleiri geta hugsað sér að deila hluta af heimilum sínum með öðrum. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli hönnuða sem tóku þátt í Design Talks á Hönnunarmars, sem vinna nú að því að þróa híbýli framtíðarinnar.

Á Design Talks á Hönnunarmars komu saman fyrirlesarar hvaðanæva úr heiminum til að ræða nýjustu strauma og stefnur í hönnun. Þar á meðal var Kaave Pour, hönnunarstjóri danska nýsköpunarfyrirtækisins Space10, sem sérhæfir sig í að þróa hugmyndir til að gera lifnaðarhætti mannsins sjálfbærari.

Tæknin getur valdið nýjum vandamálum

Eitt af verkefnum Space10 nefnist Future Living Lab. Það er unnið í samstarfi við IKEA og gengur meðal annars út á að þróa og prófa hugmyndir að húsnæði framtíðarinnar.

„Ég tel að í framtíðinni hönnum við félagsleg samskipti þar sem hlutum verður deilt í mun meira mæli en gert er í dag,“ segir Pour. „Fólk flytur til borga úti um allan heim í þeim mæli sem ekki hefur sést áður. Okkur leikur forvitni á að vita hvað gerist þegar allir verða í meira návígi. Við sjáum einmanaleika, þunglyndi sem afleiðingu af aukinni nánd og það er kaldhæðnislegt. Við teljum skort á bjargráðum um allan heim mikinn vanda, hvort sem um er að ræða matvæli, vatn, veðurfarið. Svo höfum við þetta nýja fyrirbæri sem er tæknin, sem annars vegar gerir okkur fær um að leysa úr mörgum vanda og svo hins vegar veldur mörgum nýjum vandamálum ef hönnunin er ekki skynsamleg.“

Mikill áhugi á sambýliskommúnum

Pour fékk til liðs við sig hönnunarteymið Anton & Irene. Þau höfðu gert gagnvirka heimildarmynd, sem fjallaði um kommúnu í Amsterdam sem Irene ólst upp í og fór eins og eldur í sinu um netið. Pour bað þau um að þróa hugmyndina um sambýlishætti lengra.

Þau segja dæmin og gögnin sýna að fólk sé reiðubúið til að deila híbýlum sínum í auknum mæli. „Það eru fjórar kunnar sambýliskommúnur í New York borg og um 2.500 í veröldinni allri og áætlanir eru um að koma þeim upp alls staðar,“ segir Irene. „Fólk sem ég hef rætt við og stýrir sumum þeirra stærri, eins og Welive, segist ekki anna eftirspurninni, því það sem þau hafa upp á að bjóða leysir í raun úr vanda sem einkum ungt fólk glímir við. Það hefur ekki lengur efni á að búa miðsvæðis í borgunum. Það finnur til æ meiri einmanaleika vegna þess hvernig netið og samskiptamiðlar í reynd einangra okkur frá því að fara á mannamót. Svo ef maður veltir fyrir sér kostnaði, einsemd og staðsetningu þá er heilmikið vit í því að byrja á því að fórna sumu því sem maður er vanur að hafa út af fyrir sig og deila því með öðrum og vinna gegn þessum tvíþætta vanda.“

Fjölbreytt form sambýlis

ÞAu benda á að sambýlishættir séu ekki aðeins ein tegund lausnar, sem snúist um að hafa eitt lítið herbergi út af fyrir sig og deila öllu öðru með öðrum, heldur getið verið fjölbreytilegir.

„Það eru ýmis stig sambýlishátta, maður getur til dæmis deilt bílnum, aðföngum, garði og ýmsu öðru en haft eigin íbúð með eldhúsi og sturtu fyrir sig,“ segir Anton. Svo fer maður á næsta stig og deilir þá kannski eldhúsinu með öðru fólki og svo kannski líka stofunni. Ólíkt fólk í ólíkum löndum finnur sig í ólíkum hlutum.“

Strandar á regluverkinu

Þau benda á að með þessu móti sé hægt að byggja ódýrara og hagkvæmara húsnæði bæði fyrir ungt fólk og eldra fólk sem vill minnka við sig. Það sem standi þróuninni fyrir þrifum sé strangt regluverk.

„Ef fólk í sama húsnæði vill til dæmis deila bíl þarf tryggingarfélagið að komast að því hver beri trygginguna. Vilji maður eiga hús í félagi við aðra þá getur eignafyrirkomulagið á því verið býsna flókið. Vilji maður til dæmis sleppa eldhúsinu þarf að sækja um undanþágu frá reglugerðum. Mörg lagasetningin sem er í gildi kemur í veg fyrir tilraunastarfsemi hjá fólki. Ég tel að nýsköpun þurfi að þrýsta á löggjafann til að breyta lögunum, því það er ekki alltaf vit í þeim lengur.