Séra Jóna Hrönn Bolladóttir, prestur í Garðasókn, og Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og lögfræðingur, gengust undir lygapróf í sjónvarpsþættinum Orðbragð á RÚV.
„Kannski kemur í ljós að maður er siðblindur,“ sagði Brynjar, áður en hann tók prófið. Jóna Hrönn sagðist alltaf segja sannleikann. „En ég segi ekki alltaf allan sannleikann. Og ég segi ekki allan sannleikann í einu.“
Smellið á spilarann hér að ofan til að sjá hvernig prófið fór fram.
Lygar eru hluti af því að vera manneskja
Besta leiðin til að sjá hvort einhver sé að ljúga, er einfaldlega að fylgjast með því sem viðkomandi segir; sem sagt, það er tungumálið sem kemur upp um okkur.
Lygapróf er þó ögn flóknara í framkvæmd. Í prófinu er starfsemi líffæra sem eru undir stjórn hins ósjálfráða taugakerfis mæld. „Hugsunin á bak við þetta er sú að þetta eru líffæri sem eru undir stjórn taugakerfis og að vilji hafi lítil áhrif á starfsemi þeirra, en hins vegar að tilfinningar og hugsanir hafi einhver áhrif,“ segir Þór Eysteinsson, prófessor í lífeðlisfræði við Háskóla Íslands.
Flest ljúgum við, en lygar þurfa ekki alltaf að vera af hinu illa. „Lygar eru hluti af því að vera manneskja og það er flókið að vera manneskja,“ segir Margrét Birna Þórarinsdóttir, sálfræðingur. Það geti verið æskilegt – og jafnvel viðeigandi – að ljúga, eins og til dæmis þegar maki veltir upp spurningum um eigið holdafar. „Við getum skipt þessu í þrjá flokka: þær góðu, þær slæmu og þær ljótu. Góðar lygar geta verið félagslegt mýkingarefni.“
Kynin ljúga jafnmikið, segir Margrét Birna, en þó er munur á því við hvaða tækifæri konur og karlar ljúga. „Konur ljúga meira um útlit og annað slíkt. Karlmenn ljúga meira um eigin eiginleika. Þeir upphefja sig meira. Konur eru líklegri til að ljúga til að gleðja aðra.“
Ósannindi um lygar
Nokkrar goðsagnir um þau merki sem fólk gefur upp þegar það lýgur hafa reynst þrautseigar. Að forðast augnsamband er ekki merki um lygi. Að brosa meira er ekki vísbending um lygi. Að viðkomandi sé á sífelldu iði er það ekki heldur. „Merkilegt nokk þá sýna rannsóknir að það sé þveröfugt, að fólk sé meira kyrrt þegar það lýgur,“ segir Ólafur Örn Bragason, réttarsálfræðingur hjá ríkislögreglustjóra.
„Ástæðan er sú, að menn telja, að það að ljúga krefst svo mikillar orku; við hugsum svo mikið að við verðum kyrr. Öll einbeitingin fer fram í kollinum á okkur. Vandinn er að fólk telur að kvíði og stress séu merki um lygar og blekkingar.“
Fjallað var um hinar fjölmörgu hliðar lyga í Orðbragði. Þátturinn í heild er aðgengilegur í Sarpinum.