„Ef konur stíga fram og fordæma sýningu þessarar myndar klukkan tíu á sunnudagskvöldi þá er það eitthvað sem RÚV ber skylda til að hlusta á og taka til sín,“ segir Marta Sigríður Pétursdóttir gagnrýnandi í umræðum um kvikmyndina Elle sem sýnd var á RÚV. Sýning myndarinnar vakti hörð viðbrögð nokkurra kvenna sem sendu opið bréf til útvarps- og dagskrárstjórnar RÚV og mótmæltu því að myndin hafi verið sett á dagskrá.
Bréfið birtist í Stundinni fyrr í vikunni þar sem gagnrýnt var að kvikmyndin Elle í leikstjórn Paul Verhoeven hafi verið sýnd á sunnudagskvöld. Myndin er vissulega umdeild og hefur hún hlotið bæði lof og gagnrýni. Hún hefur ýmist verið sögð femínísk ádeila á feðraveldið eða nauðgunarfantasía leikstjórans.
Nokkrir álitsgjafar ræddu um málið í Lestinni á Rás 1, rithöfundurinn Sjón, Kristín I. Pálsdóttir verkefnastjóri við Háskóla Íslands og talskona Rótarinnar, Guðrún Elsa Bragadóttir bókmenntafræðingur og Marta Sigríður Pétursdóttir kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar, og ræddu um myndina. Kristín er ein þeirra kvenna sem sendu kvörtunarbréfið og segir hún að það hafi orðið til eftir umræður í Facebookhópi sem Kristín er í og heitir Aktívismi gegn nauðgunarmenningu. Segir hún að fljótlega hafi orðið ljóst eftir sunnudagskvöldið að kvikmyndin hafi farið mjög illa í margar konur í þeim hópi sem horfðu á myndina og var illa brugðið. „Ákveðið var að nýta boð RÚV um að vera í sambandi við hlustendur um hvað borið er á borð og kvarta yfir myndinni. Meðal annars því að hún sé ekki merkt með viðvörun,“ segir hún. „Það var upplifun flestra í hópnum að þetta sé ekki femínísk upplifun og síður en svo.“ Niðurstaðan hafi því verið að senda hugvekju til dagskrárstjóra.
Markmið þeirra hafi fyrst og fremst verið að vekja upp umræður um málið. „Nú eru rúm tvö ár frá metoo-byltingunni og þetta með hvernig við ræðum kynferðisofbeldi, hvert hlutverk Ríkisútvarpsins er varðandi jafnrétti mætti taka lengra að okkar mati. Það er ekki bara jafnlaunastaðall og hausatalningar. Ætlum við að viðhalda gömlum hugmyndakerfum eða pota í þau?“
RÚV beri skylda til að hlusta
Kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar, Marta Sigríður, viðurkennir að hafa ekki sjálf séð myndina en hún hefur fylgst með umræðunum síðan myndin var frumsýnd árið 2016 og áttað sig á að hér væri um afar karllægt sjónarhorn að ræða enda leikstjórinn karl, handritshöfundurinn einnig auk þess sem myndin byggist á skáldsögu eftir karl. „Ef konur stíga fram og fordæma sýningu þessarar myndar klukkan tíu á sunnudagskvöldi þá er það eitthvað sem RÚV ber skylda til að hlusta á og taka til sín.“
Leið ekki vel eftir að horfa á myndina
Guðrún Elsa lítur svo á að ekki beri að forðast kvikmyndir sama hvernig hægt sé að túlka þær því þær séu ekki hættulegar sem slíkar. Hún tekur það þó fram að hún skilji gagnrýnina. „Þegar ég sá þessa mynd brá mér rosalega og leið ekki vel. Ég er beggja blands með þetta því mér finnst þetta flókið.“ Hún segist ánægð með umræðuna sem hefur átt sér stað í kjölfar sýningarinnar sem er að hennar mati bæði líflegri og forvitnilegri en nokkur umræða í langan tíma á samfélagsmiðlum. „Auðvitað er þó margt í þessari umræðu sem mér finnst ekki gagnlegt eins og að tala um tepruskap eða misskilning á myndinni eða að einhverjir séu fylgjandi nauðgunarmenningu. Það þjónar ekki tilgangi að taka sér þannig stöðu á sitthvorum pólnum í einhverju stríði.“
Telur ekki réttmætt að banna listaverk
Sjón tekur undir að umræðan sé í sjálfu sér góð þótt hann hafi reyndar ekki getað tekið þátt í henni á samfélagsmiðlum sjálfur þar sem hann sé ekki skráður á neinn slíkan. Hann er þó á því að listaverk eigi aldrei að banna og að vel gerð listaverk séu í eðli sínu flókin. Kvikmyndin Elle sé ein af þeim flóknu, erfiðu og sérkennilegu listaverkum sem búin hafi verið til á síðustu árum. „Ég vil ekki gera lítið úr því að hópur í samfélaginu hafi brugðist við með þeim hætti sem er tilefni þessarar umræðu núna, það er að segja að senda bréf á RÚV og lýsa yfir óánægju með að mynd sé sýnd á ákveðnum tíma, og að þessi hópur telji að hún ýti undir nauðgunarmenningu. Mér finnst sjálfsagt að þessi sjónarmið komi fram og það er hluti flókinna listaverka að kalla þetta fram.“ Hann ítrekar þó að hann sé ekki hrifinn af því að óskað sé eftir því að list sé bönnuð. „Ég er alveg til í að fólk sé á móti tilteknum listaverkum og þyki þau óþörf og ómöguleg. Mér finnst líka sjálfsagt að RÚV láti áhorfendur vita ef það er von á mjög ögrandi og umdeildu efni. Myndin er sýnd tíu á sunnudagskvöldi og mér hefði þótt í lagi að sagt hefði verið að hér væri að koma mynd þar sem tekið væri á erfiðum málum og að í myndinni sé hrottaleg nauðgun.“
Kristín bendir þó á að ekki hafi verið farið fram á að myndin væri bönnuð heldur hafi verið óskað eftir því að RÚV sýndi meiri ígrundunarsemi og Marta segist velta því fyrir sér hvernig viðtökur við myndinni hefðu verið ef hún kæmi út í dag eftir metoo-byltinguna. „Það hefur margt breyst og konur hafa leyfi til að vera með mun gagnrýnni sýn á kynferðisofbeldi og birtingarmyndir þess í menningarafurðum. Það er ótrúlegt hvernig ofbeldi gegn konum gegnumsýrir alla dægurmenningu og normalíserar hana og það er líka það sem þetta snýst um. Að veita mótspyrnu við þessari normalíseringu.“
Athugasemdir teknar alvarlega en rétt að sýna myndina
Lestin ræddi við Skarphéðin Guðmundsson dagskrárstjóra RÚV sem sagði að allar athugasemdir sem þessar væru teknar alvarlega. „Það var ekki fyrir neina slysni að við sýndum myndina, hún er dagskrársett og við rekum ábyrga dagskrárstefnu þar sem við þurfum að vega og meta hverju sinni hvort efni eigi erindi á dagskrá eða ekki,“ segir hann. Ákvörðunin hafi meðal annars verið tekin á þeim grundvelli að myndin hafi farið sigurför um heiminn og hafi hlotið fjölda verðlauna og fengið jákvæðar viðtökur þegar hún var sýnd í kvikmyndahúsum hér á landi. „Við sáum ekkert mæla gegn því að setja hana á dagskrá og tímasetja eftir tíu.“
Viðbrögðin í kjölfarið hafi þó verið tekin til alvarlegrar skoðunar. „Þetta verður til þess að við tökum hlutverk okkar enn alvarlegar. Við gerum okkur grein fyrir að þessu fylgir mjög rík ábyrgð en það breytir ekki afstöðu okkar. Við teljum að rétt hafi verið að sýna myndina.“
Rætt var um kvikmyndina Elle í Lestinni.