„Ég man eiginlega ekki eftir neinu öðru en að vera stelpa. Ég get ekki munað eftir mér, eða hugsað um mig, sem strák,“ segir Gabríela María Daðadóttir. Gabríela María er trans. Við fæðingu var henni úthlutað karlkyni en hún hefur alla tíð vitað að hún væri stúlka.
Daði Már Ingvarsson og María Bjarnadóttir, foreldrar Gabríelu, tóku eftir því að Gabríela var mjög ung farin að tala um sjálfa sig sem stelpu. „Hún sótti alltaf meira og meira í þetta stelpulega. Svo var hún sjálf farin að tala um sig sem stelpu mjög ung,“ segir María. Um fimm til sex ára aldur vildi Gabríel, eins og hún hét þá, taka upp stelpunafn og fór að kalla sig Gabríelu. „Maður sá ánægjuna hjá henni, hvað henni leið miklu betur en á sama tíma var maður pínu stressaður með framtíðina, hennar vegna. Hvernig á samfélagið eftir að taka henni?“
Daði og María segja að áhyggjur þeirra, til dæmis af skólagöngu Gabríelu, hafi að mörgu leyti verið óþarfar. „Maður er svo fljótur að gleyma því að hlutirnir eru ekki eins og þeir voru þegar maður sjálfur var krakki,“ segir Daði. „Þá komu jafnvel fordómarnir frá foreldrunum og í gegnum börnin. Í dag er samfélagið bara að breytast og það eru ekki þessir sömu fordómar hjá börnum lengur, það er allt saman að batna og þróast í rétta átt.“
Gabríela segir að krakkarnir í skólanum hafi tekið sér vel. Flestir spái lítið í hvort hún sé stelpa eða strákur en aðrir spyrja spurninga sem henni þykir auðvelt að svara. „Mig langaði bara að vera stelpa og mér líður bara eins ég sé stelpa, hérna inni í mér. Þótt ég sé kannski ekki þannig fyrir utan, þá er ég það hérna inni í mér,“ segir Gabríela.
Hæpið kannar í næsta þætti hvernig við skilgreinum kyn. Hvað er að vera kynsegin, hvernig er að vera kynsegin í íslensku samfélagi og hvernig er að alast upp trans á Íslandi, eru meðal þeirra spurninga sem leitað er svara við. Hér fyrir ofan má sjá brot úr þættinum, sem er á dagskrá RÚV á miðvikudagskvöld kl. 20.25.