Leikararnir Edda Björgvinsdóttir og Gísli Rúnar Jónsson voru gift um árabil en eftir að þau skildu hafa þau verið bestu vinir. Það var þó ekki alltaf þannig en Edda viðurkennir að á tímabili hafi henni þótt Gísli ömurlegur og að sjá megi merki um það í frægu atriði.

Hún segir að samstarf þeirra hafi í gegnum tíðina gengið rosalega vel, en ekki alveg undantekningarlaust. „Ég man að á þessu tímabili áttum við ofsalega erfitt samband, vorum ábyggilega skilin þá. Við skildum nú svona tvisvar, allavega. Svo þurftum við að mæta ægilega glöð að leika grín,“ segir Edda. Henni er sérstaklega minnisstætt söngatriði úr Áramótaskaupinu 1984, þar sem hún ýtir ansi hressilega við Gísla. Hann svaraði fyrir sig og ýtti „andstyggilega“ í hana á móti. „Mig langaði dálítið að meiða hann, mér fannst hann ömurlegur á þessu tímabili,“ segir hún.

„Ég man annað atriði líka, þá var hann einmitt fluttur út og við skilin. Þá lékum við atriði þar sem við vorum fjölskyldan heima, og það var tekið heima hjá okkur. Hann þurfti að mæta á lögheimili sitt til að leika atriðið,“ segir Edda. „Ofboðslega höfum við verið professional fólk, því mér finnst þetta alveg skrugguvel leikið atriði og ekki neitt hatur að sjá. Ég man eftir því að í hjarta mínu langaði mig til að refsa honum. Mig langaði til að honum liði hroðalega illa. Mér fannst hann ömurlegur. Og þetta sé ég ekkert í atriðinu í dag“.

Hér fyrir ofan má sjá brot úr öðrum hluta þáttaraðarinnar Edda - engum lík, en þáttinn í heild sinni er hægt að nálgast í Sarpinum.