Út er komin bókin Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915 eftir Smára Geirsson. Egill Helgason hitti hann á hvalasafninu Whales of Iceland og ræddi við hann um sögu hvalveiða við Ísland fyrir rúmri öld.
Það sem kemur ekki síst á óvart við þessa sögu er hvað hún er lítið þekkt. Við vitum reyndar að Baskar voru við hvalveiðar á Íslandi á 17. öld, sbr. Spánverjavígin, en á seinni hluta 19. aldar og fram á 20. öld voru hér stórfelldar hvalveiðar og veiðistöðvar risu víða um land, aðallega á Austfjörðum og Vestfjörðum.
Fyrst komu Bandaríkjamenn, Hollendingar og Danir, en þeir náðu aldrei almennilega að þróa nógu góða veiðitækni. Þá komu Norðmenn og á tíma þeirra verða hvalveiðarnar mjög umfangsmiklar. Árið þegar voru veiddir flestir hvalir voru þeir 1400. Mikill fjöldi starfaði í hvalstöðunum. Hingað komu erlendir menn og dvöldu í lengri eða skemmri tíma, en sögur eru einnig af Íslendingum sem lærðu hvalveiðar og fóru alla leið undir Suðurskaut til að stunda þær. Þarna var upphaf vélvæðingar í landinu. Menn sem síðar urðu vélstjórar á skipum á Íslandi lærðu þarna fyrst að fara með vélar.
Hvalveiðunum lauk 1915 en þá voru samþykkt lög frá Alþingi sem bönnuðu þær. Það var ekki vegna verndunarsjónarmiða, heldur var ástæðan svonefnd hvalrekstrarkenning sem margir trúðu á. Hún fól í sér að hvalveiðar spilltu síld- og þorskveiði við Íslands. Á það var ekki hlustað þótt Bjarni Sæmundsson, eini fiskifræðingur Íslands á þeim tíma, hafnaði kenningunni.
Bók Smára Geirssonar fjallar um hvalveiðar fram til ársins 1915. Hvalveiðarnar hófust ekki aftur fyrr en árið 1935 í Tálknafirði, en lögðust svo af í stríðinu. Síðan hófust hvalveiðar á ný árið 1948 og höfðu þá miðstöð í Hvalfirði.