Sviðslistahópurinn Kriðpleir frumsýnir verkið Krísufund eða Crisis Meeting á sviðslistahátíðinni Lókal sem haldin er í nánu samstarfi við Reykjavík Dance Festival að þessu sinni. Sýnt verður á Dansverkstæðinu við Skúlagötu 30.

„Leikhópurinn var að reyna að koma sér saman um framhald sitt sem leikhópur og framtíð og var, eins og allir leikhópar þegar þeir byrja á nýju verki, í ákveðinni krísu“ segir Friðgeir Einarsson, einn liðsmanna Kriðpleirs um nýja verkið. „Ein krísan sem við stóðum frammi fyrir var að í gagnrýni um síðasta verk okkar, sem fjallaði um allt annað mál, kom fram að persónurnar væru svolítið hættar að þróast milli sýninga. Og í þessari sýningu eru þessar persónur svolítið að takast á við þessa áskorun í rauninni, að halda áfram að þróast og þroskast.“

Krísufundurinn fer þannig fram fyrir opnum tjöldum og í nánu samtali við áhorfendur sem samræmist vinnuaðferðum Kriðpleirs. Áhorfendur eru alltaf hluti af sýningum okkar“ segir Friðgeir og við sjáum því enga aðra leið færa en halda krísufund með áhorfendum. Það sem er að gerast í sýningunni er að við erum að vinna að umsókn fyrir næsta verk sem á að vera glæsilegt og umsóknin verður þar af leiðandi að vera glæsileg. Og við erum að opna inn í ferlið og biðja áhorfendur um að hjálpa okkur að útbúa næsta verk.  

Kriðpleir hefur vakið athygli í íslensku leikhúslífi fyrir ferska og nýstárlega nálgun sína; eldri verk hópsins eru Blokk (2012), Tiny Guy (2013) og Síðbúin rannsókn (2014) en fyrir síðastnefnda verkið hlaut hópurinn tilnefningu til Grímuverðlauna 2015.

Hópinn Kriðpleir skipa Árni Vilhjálmsson, Bjarni Jónsson, Friðgeir Einarsson og Ragnar Ísleifur Bragason. Rætt var við Friðgeir Einarsson í Víðsjá, föstudaginn 21. ágúst. Tónlistin í innslaginu er alls ótengd sýningunni Crisis Meeting, sótt til kvikmyndatónskáldsins Henry Mancini.