„Þetta er algjör draumabyrjun og kom algjörlega á óvart,“ segir Ísold Uggadóttir, sem var valin besti leikstjórinn í flokki alþjóðlegra kvikmynda á Sundance-hátíðinni í Bandaríkjunum fyrir myndina Andið eðlilega.
Andið eðlilega fjallar um tvær ólíkar konur og hvernig líf þeirra fléttast saman. Önnur er einstæð móðir í húsnæðisbasli sem fær vinnu í landamæravörslu á Keflavíkurflugvelli. Hún stöðvar þar hælisleitanda á leið til Kanada með ógild skilríki, sem festist á Íslandi þar sem leðir þeirra liggja óvænt aftur saman.
Ísold útskrifaðist úr kvikmyndanámi í New York árið 2011. Hún var þá upptekin af hruninu og ætlaði að gera mynd um einstæða móður á Reykjanesi sem missti heimili sitt og endaði á hrakhólum.
„Ég var byrjuð að þróa þannig sögu, um konu með barn og kött sem endaði í bílnum. Þegar ég var að þróa þá sögu, sem átti að gerast á Reykjanesi, var ég mikið að lesa um flóttafólk sem var fast á Íslandi; fólk sem var ekkert á leiðinni hingað, bara að reyna að komast og finna sér betra líf, oft í Kanada, og maður las dramatískar sögur af fólki sem reyndi allt sem það gat til að komast í burtu frá Íslandi. Hér var það fast, fékk ekki vinnu og sat fast í viðjum kerfis sem bauð ekkert líf. Mig langaði að fjalla um manneskju í þessari stöðu, fannst það verða vera kona og af því að ég var byrjuð að þróa hina söguna fór ég að pæla hvað myndi gerast ef þessar tvær konur myndu lenda saman.“
Myndin fékk mikið lof á Sundance-hátíðinni og var Ísold nefnd í sömu andrá og breski leikstjórinn Ken Loach og hinir belgísku Dardenne-bræður, sem gera myndir í félagslegum raunsæisstíl. Ísold er hæstánægð með líkinguna við Dardenne-bræður.
„Það er gaman að segja frá því að í allri undirbúningsvinnunni var ég stöðugt að vísa í þá. Það er skemmtilegt að fólk taki eftir því og gaman að það sem maður lagði upp með fyrir fimm árum síðan að það heppnist. Það er gaman að segja frá því að á tímabili kom til greina að klippari Dardenne-bræðra klippti þessa mynd en ég er feginn að það gerðist ekki, því annars hefði fólk mögulega eignað honum stílinn.“
Sundance-hátíðin er ein virtasta kvikmyndahátíð heims og mikill meðbyr að vinna til verðlauna þar. Margir sýndu áhuga á dreifingarréttinum og eru viðræður í gangi.
„Þetta er bara rétt að byrja. Við förum til Gautaborgar eftir örfáa daga og sýnum myndina á Íslandi væntanlega í lok febrúar. Við erum að fá mikil viðbrögð núna og erum að meta hvað hentar best og hvernig þetta raðast upp. En ég þarf fylgja myndinni eftir og reyna að finna leið til að skrifa nýja handritið mitt.“
Rætt var við Ísold í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.