Í öðrum pistli af fjórum um veggjakrot skoða Tómas Ævar Ólafsson okkar eigin „Flatus lifir“ sem var spreyjað með úðabrúsa á steinsteypuvegginn í Kollafirði fyrir einhverjum áratugum síðan.


Tómas Ævar Ólafsson skrifar:

Árið 1955 byrjaði nokkuð athyglisvert veggjakrot að dreifa sér um New York borg, tvö rituð orð, „Bird Lives“. Flestir borgarbúar skildu merkingu verksins þótt hún kunni kannski ekki að vera jafn augljós í dag. Þetta krot vísar í bebop-saxófónleikarann Charlie Parker sem gekk undir viðurnefninu Bird. En þvert á skilaboð krotsins var saxófónleikarinn dáinn þegar það birtist fyrst á borgarveggjunum. Krotið var því eins og tveggja orða minningargrein, endurtekin um alla borg. „Bird Lives.“ Charlie Parker var einn af þeim listamönnum sem rötuðu á spjöld stórsögunnar, af þeim listamönnum sem öðlast goðsagnakenndan blæ. Ein af þeim manneskjum sem lifa lengur, miklu lengur, en líkami þeirra tórir. Og það mætti jafnvel segja að þetta veggjakrot hafi verið fyrsta skref Charlie Parkers inn í þá skömmu eilífð sem mannaminni geta skapað.

Til eru margar útgáfur af sams konar veggjakroti. Til dæmis má nefna Satan lives sem hampar flugnahöfðingjanum, anarchy lives sem kallar á byltingu í stjórnmálum, Frodo lives sem eru leynilegar kveðjur á milli hippa, graffiti lives sem er nákvæmlega það sem það merkir, falleg metanarratífa, og jafnvel Black Lives Matter en það er „lives“ krot sem er þáttur í pólitískri hreyfingu. Á Íslandi má finna nokkur slík verk en eitt stendur vissulega upp úr og er að ég tel sanníslenskt.

Flest eigum við minningu tengda því. Við sitjum aftur í bíl og horfum á sinuna, lélegu girðingarnar, vindbeygð tré og brjálaðan öldugang. Þarna er tjörn, þarna er skógur, þarna er Esjan. Þarna er veggur. Þarna er skrifað rauðum hráum stöfum á gráa steypu Flatus lifir eða Flatus lifir enn.

Í flestum þessum minningum er Google ekki innan handar til þess að afkóða skilaboðin fyrir okkur, vegna þess að snjallsíminn var ekki orðinn meginstraumur fyrr en krotið var orðið það veggjalistaverk sem nú prýðir vegginn. Þar af leiðandi sátum við flest föst með táknið í hausnum, alveg án vísbendinga, og þurftum að beita ímyndunaraflinu til að svala skilningsþörfinni.

Og þó.

Ef við hefðum verið með símann innan handar til að fletta upp krotinu þá hefði það samt ekki fært okkur neitt marktækt. Jú einhverjar athugasemdir um að flatus er orð komið úr latínu og merkir vindur, vindgangur, vindhviða, höggbylgja – í stuttu máli prump. Prumpið lifir. Þetta er það eina sem internetið segir okkur um merkingu þess og það veit enn þá minna um hvenær það var upphaflega krotað á vegginn. Sumar athugasemdir telja verkið hafa skotið upp kollinum árið 2003. Aðrar fussa og sveia yfir því og rekja það alveg aftur til 1991. En lengst ná tölurnar aftur til ársins 1980. Eina manneskjan sem er orðuð við verkið á netinu er listakonan Róska sem hafði notast við spreybrúsa í verkum sínum. En það er aðeins ólíkleg getgáta. Satt best að segja vita síður internetsins ekkert um höfund þessa verks og eiginlega ekkert um merkingu þess, nema þýðingu orðsins, og eiginlega ekkert um hvenær það var krotað. Sem er, samkvæmt mínu áliti, besta mögulega niðurstaða internetsins. Google veit ekki allt þótt það viti kannski meira um okkur sjálf en við sjálf. Flatus lifir er raunveruleg ráðgáta. Flatus lifir.

Og nei, ég ætla mér ekki að leysa ráðgátuna í þessum pistli.

Við þurfum enn þá að nota ímyndunaraflið.

Þegar ég var ungur bjó ég á Akranesi. Reykjavík var fjarlæg og þekkti ég hana aðallega í gegnum fréttir og einstaka verslunarferðir. Fyrir mér virtist hún full af fíkniefnum og hættulegum unglingum. Hún var borg óttans. Þannig að þegar ég sá Flatus lifir í bílnum á leiðinni þangað hugsaði ég með mér að Flatus hefði líklega verið glæpon. Gengjaforingi sem hefði lent í árás og verið veginn. Krotið var því annaðhvort staðfesting á því að hann hefði lifað árásina af eða áminning um að andi hans eða minning svifi enn yfir borginni. Í sammannlegri eilífð. Ég efast ekki um að þú kæri hlustandi eigir þína eigin sögu um Flatus lifir.

Slíkar sögur spretta nefnilega upp í hugsunum okkar varðandi svo margt veggjakrot. Við vitum ekkert um það. Það er bara þarna og það er okkar að túlka það. Kannski segir það okkur eitthvað gagnsætt eins og uppáhaldið mitt á vegg Hólavallagarðar sem ég minntist á síðustu viku: „Sorry, deyjum öll, get over it.“ Augljós og órómantísk skilaboð sem ná beint til hjartans. En meira veit ég ekki um það. Höfundur óþekktur, dagsetning óljós. Verkið hvetur vegfarendur til að velta því fyrir sér. Hvers konar manneskja skrifar slík skilaboð á vegg? Hefði ekki verið nóg að setja þetta á Twitter með mynd af kirkjugarðinum? Hvað er það við þessi skilaboð sem veldur því að einhver finni hjá sér þörfina til að skrifa þau á steyptan vegg? Og þar fram eftir götunum.

En málið vandast hins vegar þegar kemur að tagginu í borginni, bjöguðu leturgerðinni, óskiljanlega textanum, smáorðunum, skammstöfunum og orðleysum. Hérna eru skilaboðin óræð, höfundur óþekktur, dagsetning óljós. Nánast það eina sem við getum vitað er það sem síðasti pistill komst að: Þarna stóð einhver sem var eins og við. Eins og við að því leyti að þar stóð sjálfsmeðvituð manneskja. Og það er kannski málið, kannski merkir það ekkert, kannski er eina merkingin sú að taggið merkir svæði. Einhver er búinn að merkja vegginn, gluggann, trén og jafnvel alla lóðina með skammstöfum eða leyninafni. Það ögrar, það er pirrandi, það er yfirleitt ólöglegt og síðast en ekki síst þá getur það vissulega verið ljótt.

En þó að okkur þyki útlit eða áferð veggjakrots ekki falleg og við pirrum okkur á að skilja það ekki þá má samt finna fegurð í þeirri iðandi merkingarveröld sem krotið kallar fram. Þegar við opnum augu okkar fyrir krotinu, byrjum að taka eftir því, þá gerast hlutir. Það sem í fyrstu virðist merkingarlaust fær merkingu í gegnum upplifun okkar af því. Þegar tákn er komið upp á vegg fyrir allra augum myndar það tengsl við fjöldann allan af líku og ólíku fólki. Það laumar sér inn í huga þess, annaðhvort sem umhverfisbakgrunnur eða áhugavert tákn. Enginn þessara huga hugsar um það á nákvæmlega sama hátt. Sú merkingarleysa sem við teljum okkur sjá í óskiljanlegu kroti getur því haft margar ólíkar merkingar í hugum annarra. Við gætum því sagt að við íbúum borgarinnar blasi ofgnótt merkingar. Margar litlar kveikjur fyrir hugsunina sem annaðhvort beina henni eftir ákveðnum umbúðalausum brautum eða þjóna henni sem vísar, möntrur eða sem nokkurs konar leikföng fyrir ímyndunaraflið.