„Lucy Catherine lætur sína Guðrúnu vera á flækingi erlendis að bjarga dóttur sinni Sigríði, sem hvergi er getið í Laxdælu,“ segir Bogi Ágústsson um leikritaröðina Guðrún sem flutt er á BBC 4. Leikritin eru eftir breskt leikskáld og samin undir áhrifum frá Laxdælu.


Bogi Ágústsson skrifar:

Leikritinu Guðrúnu er skipt í tíu 15 mínútna kafla og það er flutt á Radio 4, sem að mörgu leyti svarar til Rásar 1, gömlu Gufunnar. Leikritið er eftir Lucy Catherine. Hún er þekktur breskur rithöfundur sem hefur skrifað leikrit, bækur og sjónvarpshandrit. Hún er meðal annars einn höfunda tveggja þáttaraða sem sýndar hafa verið á RÚV. Þetta eru Skytturnar, byggðar á sögu Alexanders Dumas og Stan Lee's Lucky Man, sem heitir Gæfusmiður í dagskránni hjá okkur. Næstu þættir af Gæfusmiðnum verða á dagskrá í nóvember og Skytturnar mæta aftur til leiks á skjánum á Íslandi í byrjun næsta árs. Lucy Catherine hefur gert leikgerðir nokkurra þekktra skáldsagna, útvarpsgerð hennar á Meistaranum og Margarítu eftir Mikhaíl Búlgakov fékk leiklistarverðlaun BBC og áður hafði hún búið til tveggja klukkutíma útvarpsleikrit úr Frankenstein eftir Mary Shelley.

Guðrún á flækingi erlendis

Guðrún í bresku leikritunum á ekki margt sameiginlegt með Guðrúnu í Laxdælu, þeirri Guðrúnu sem svaraði syni sínum þegar hann spurði hvern fjögurra eiginmanna hún hefði elskað mest. Lucy Catherine lætur sína Guðrúnu vera á flækingi erlendis að bjarga dóttur sinni Sigríði, sem hvergi er getið í Laxdælu. Guðrún er heiðin og fer einnig utan til að reyna að steypa Ólafi Tryggvasyni Norgeskonungi, sem hafði neytt Íslendinga til að taka upp kristinn sið. Í þeim tilgangi gengur hún í bandalag við Svein Danakonung. Þegar Ólafur er allur svíkur Sveinn Guðrúnu og hneppir hana í þrældóm og meinar henni að halda aftur heim til Íslands eða leita dóttur sinnar.

Því má skjóta að, að samkvæmt Heimskringlu féll Ólafur Tryggvason í sjóorrustu við eyna Svoldur árið 1000. Fjandmenn hans, Sveinn tjúguskegg Danakonungur, Ólafur Svíakonungur og Eiríkur Hákonarson Hlaðajarl gerðu Ólafi Tryggvasyni fyrirsát er hann var á heimleið úr leiðangri til Vindlands. Noregsmenn vörðust lengi og vel, Ólafur konungur var á skipi sínu Orminum langa og með honum Einar þambarskelfir sem felldi fjandmenn ótt og títt með boga sínum. Bardaginn tapaðist þegar bogi Einars brast og eins og segir í Heimskringlu:„Þá mælti Ólafur konungur: „Hvað brast þar svo hátt?“ Einar svarar: „Noregur úr hendi þér konungur.“

Nýtur liðsinnis Freyju

En aftur að sögu Guðrúnar í bresku leikritunum. Sveinn Danakonungur óttast Guðrúnu, þó að hann hafi hneppt hana í þrældóm, og hyggst stytta henni aldur. En Guðrún á sér öflugan bandamann sem er raunar ekki af þessum heimi. Það er sjálf Freyja, gyðja ástar og frjósemi.

„Ég er aldrei fjarri þér Guðrún þó að þú skynjir ekki nærveru mína eins og forðum. Freyja hefur vakað yfir þér frá því að þú dróst andann fyrst fyrir framan eldstæðið í kofa móður þinnar í Laxárdal. Lífslöngun þín var of sterk til að framhjá henni yrði litið."

En Freyja hefur öðrum hnöppum að hneppa, en að vaka yfir Guðrúnu, svo ekki er alltaf að treysta á liðsinni hennar þegar mest liggur við. Freyja var mikið dýrkuð af konum, en einnig af konungum og hetjum. Hún jók frjósemd lands og sjávar og veitti hjálp í hjónabandi og við fæðingar. Hún var líka ástargyðja og átti marga elskhuga, jafnt meðal goða sem manna. Hún var sögð leggja elskhugum sínum og vinum lið.

Líkt við Lísbeth Salander

Í kynningu BBC á leikritaröðinni segir meðal annars: „Guðrún er hefndarengill, hún er mótuð af ofbeldi sem hún hefur mátt þola. Hún reynir að lifa til góðs í veröld sem stjórnað er af karlmönnum, hún þráir frið og að geta ráðið sér sjálf. Leikritin eru byggð á hinni frægu Íslendingasögu, Laxdælu, þar sem Guðrún Ósvífursdóttir er lykilpersóna. Guðrúnu má kalla hina upphaflegu Nordic Noir kvenhetju, staðfestu hennar og ákveðni verður líkt við kvenhetjur nútímans, Lisbeth Salander og Sögu Norén. Hæfileikum Guðrúnar til að ráðskast með og fá fólk til að ganga erinda sinna verður líkt við hina slungnu Birgitte Nyborg í Höllinni."

Leikrit Lucy Catherine eru langt í frá þau fyrstu um Guðrúnu Ósvífursdóttur. Þórunn Sigurðardóttir leikari, leikstjóri, handritshöfundur, stjórnandi Listahátíðar og margt fleira skrifaði leikrit um Guðrúnu 1982. Í viðtali við hana í Dagblaðinu og Vísi í júní 1982 segir Þórunn að henni sé kunnugt um að minnsta kosti sjö eldri leikrit.

Leikkonan Kate Phillips fer með hlutverk Guðrúnar í leikgerð BBC og Samantha Dakin er rödd Freyju. Það er hún sem á lokaorðin í þessari annarri þáttaröð Lucy Catherine um Guðrúnu Ósvífursdóttur. Guðrún hefur enn ekki endurheimt dóttur sína en er á leið til Íslands. Þú beinir athyglinni norður að þínum heimi, segir Freyja við Guðrúnu og svo:

„Enginn karl skal afvegaleiða þig, þú skalt virða gamla siðinn, þennan dásamlega óvægna gamla sið. Þú verður mér samferða um hið helga land."