„Hugmyndin um að senda inn lag kom fyrir 10 árum þegar ég var á fundi með Simon Fuller, en í þetta skiptið fékk ég systur mína til láta mig vita hvenær lokafresturinn væri, því ég var alltaf að missa af þessu,“ segir lagahöfundurinn og tónlistarkonan Heiðrún Anna Björnsdóttir sem er búsett í London en tekur þátt í Söngvakeppninni 2019 með laginu Helgi.
Heiðrún Anna Björnsdóttir fékk Sævar Sigurgeirsson með sér til að snara textanum á Sunday Boy yfir í Helgi eftir töluverða leit í tímahraki að réttu orðunum í íslensku útgáfuna af laginu. Heiðrún Anna hefur verið viðriðin tónlistarbransann í rúmlega tuttugu ár og meðal annars verið á samningi hjá Universal Publising í Bretlandi sem lagahöfundur í á annan áratug. Heiðrún Anna hefur ekki sent inn lag áður í undankeppnina en hugmyndin að því að taka þátt fæddist fyrir rúmum tíu árum síðan. „Ég var á fundi með Simon Fuller [höfundur; Pop Idol, American Idol, So You Think You Can Dance o.fl.] þegar hugmyndin kom að taka þátt, en í þetta skiptið fékk ég systur mína til láta mig vita hvenær lokafresturinn væri, því ég var alltaf að missa af þessu, “ sagði hún.
„Ég spilaði lag mitt Angels fyrir Simon á þessum fundi og hann var alveg harður á því að þetta ætti að vera comeback-söngull Spice Girls,“ segir Heiðrún Anna. „Ég var bara breikdansandi á leið í bankann því hann var harður á því að þetta yrði alheimshitt og myndi selja 5 milljón eintök, og svo bara gerðist það ekki - eins og oft er í þessum bransa.“
Heiðrún Anna segist alltaf vera stressuð áður en hún komi fram, en um leið og það sé búið að telja í hverfi það. Hún vill hafa flutning frekar frjálslegan og vill ekki negla sviðsetninguna á laginu of fast niður. „Ég er búinn að hanna atriðið og þetta verður svona frjálst eins og ég sé að koma fram með bandi,“ segir hún um flutninginn um næstu helgi í Háskólabíói. „En ég veit samt hvar ég ætla fram eða til hægri, vinstri og hvar ég ætla dilla mér því þetta má ekki vera leiðinlegt.“
Þegar Heiðrún Anna er spurð af hverju okkur hafi gengið svona illa að komast upp úr riðlunum í Eurovision á undanförnum árum skortir ekki svörin frá henni. „Það er vegna þess að ég hef ekki verið send og það er ekki spurning að ef að ég verð send þá rústum við þessu og loksins, loksins, loksins vinnur Ísland. Ég á líka svo marga vini í Bretlandi að það á eftir að fleyta okkur langt í atkvæðagreiðslunni,“ segir Heiðrún Anna, kanskvís.
Það verður stór stund fyrir Heiðrúnu Önnu þegar hún keppir í fyrsta skipti í Söngvakeppni sjónvarpsins á laugardaginn og hún er kominn í fíling. „Þetta er líka í fyrsta skipti sem ég tek upp lag eftir mig á íslensku,“ segir hún að lokum.
Heiðrún Anna Björnsdóttir mætti í Morgunverkin á Rás 2.