Karlmennska er orð sem erfitt er að skilgreina og getur haft mismunandi merkingar eftir stund og stað. „Hér inni í þessu samfélagi snýst þetta oft um búa sér til eitthvað svigrúm“, segir Hafþór Gestsson, fangavörður á Litla-Hrauni.

Hæpið beinir sjónum sínum að strákum og fjallar m.a. um vandamál sem ungir karlmenn á Íslandi glíma við. Hvers vegna eiga strákar erfiðara með að tjá tilfinningar sínar?

„Ég veit eiginlega ekki hvernig á að skilgreina þetta orð, karlmennska. Ég hygg að það sé eitthvað sem er ævafornt og hefur örugglega verið skilgreint á einhvern hátt fyrir margt löngu síðan,“ segir Hafþór, aðspurður um hvernig karlmennskuímyndir birtast á Hrauninu. „Hér inni í þessu samfélagi snýst þetta oft um búa sér til eitthvað svigrúm, til að fá menn til að bera fyrir sér einhvers konar óttablandna virðingu.“

Hafþór segir að í hans augum snúist karlmennskan ekki endilega um að vera stór og sterkur. „Í mörgum tilfellum skrifa ég upp á karlmennsku þegar þeir eru sannir, eru heiðarlegir í því sem þeir segja og gera. Og jafnvel mest þegar þeir beygja af, og þeir eru örugglega ekki að gera það í fyrsta skipti þarna. Þeir hafa grátið örugglega einhvern tímann áður en kannski helst einhvers staðar í felum. Þeir fara leynt með það vegna þess að þeir vilja ekki láta sjá á sér einhvern veikan blett. Ég hef oft upplifað þetta, ég hef alveg komið heim með blautar axlir.“

Hæpið er á dagskrá á RÚV í kvöld kl. 20.30. Hér fyrir ofan má sjá brot úr þættinum.