Kvikmynd Elfars Aðalsteinssonar, End of Sentence, var opnunarmynd Riff, alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, sem var sett í Háskólabíó á fimmtudag.
End of Sentence er fyrsta mynd Elfars Aðalsteinssonar í fullri lengd en hann vakti mikla athygli fyrir nokkrum árum fyrir stuttmyndina Sailcloth með John Hurt í aðalhlutverki. Myndin fjallar um feðga sem reyna að lappa upp á laskað samband með því að ferðast með jarðneskar leifar eiginkonu sinnar og móður frá Bandaríkjunum á heimaslóðir hennar á Írlandi. Elfar segir söguna vera mjög persónulega fyrir sig.
Úr óhefðbundnu fjölskyldumynstri
„Ég kem sjálfur úr mjög óhefðbundnu fjölskyldumunstri. Átti ekki í þessu normatíva föður og sonar sambandi. Annars vegar er ég að skoða það þeim megin frá. Hins vegar á ég fjögur börn sjálfur, þar af þrjá syni og er að skoða það þeim megin frá. Það er það sem dró mig að þessari sögu.
Með hlutverk feðganna fara Logan Lerman og John Hawkes, en sá síðarnefndi er viðstaddur frumsýninguna. Hawkes hefur fest sig í sessi sem einn traustasti skapgerðarleikari í Bandaríkjunum um þessar mundir. Hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir Winter’s Bone, þar sem hann lék á móti Jennifer Lawerence. Þá lék hann í Everest, mynd Baltasars Kormáks, um árið.
„Ég er hrifinn af pælingunni um vegamynd og sögu af tveimur utanveltu persónum sem lyndir ekki sérlega vel,“ segir Hawkes. „Byrjunin lofaði góðu. Mér fannst Sailcloth frábær mynd svo þetta handrit og að Elfar leikstýrði var góð samsetning. Elfar er afar ljúfur maður og klár, skemmtilegur og hláturmildur. Þetta var frábært samstarf.“
Langelstur í kvikmyndaskólanum
Leið Elfars inn í kvikmyndageirann var óvenjuleg. Hann var forstjóri útgerðarfyrirtækisins Eskju á Eskifirði áður en hann venti kvæði sínu í kross.
„Þegar ég var yngri var ég í músík á fullu, og leiklist. Ég held að það hafi blundað í mér að fara í leiklistarskólann en á þeim tíma kaus ég með höfðinu, að fara í annars konar nám og annars konar starf. En þegar ég steig út úr því 2005, eftir mikla sálarskoðun, ákvað ég að kjósa með hjartanu. Vinir mínir sögðu: „Þú ert snarruglaður að gera þetta,“ sem var auðvitað alveg rétt hjá þeim. Ég fylgdi minni sannfæringu, fór í kvikmyndaskóla á gamals aldri og var langelstur. Síðan tók við nám í handritaskrifum og svo í leikstjórnarþjálfun upp úr því. Hægt og rólega myndast einhver þekking sem maður getur byggt á. Ég byrjaði í framleiðslu, sem var náttúruleg leið inn fyrir mig en markmiðið var alltaf að fara í skrif og leikstjórn.“
Byrjar í tökum um mitt næsta ár
Næsta verkefni Elfars er kvikmynd byggð á verðlaunabókinni Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson og hefjast tökur um mitt næsta ár. Elfar er fluttur heim með fjölskyldunni eftir langa fjarveru en getur hugsað sér að gera kvikmyndir innan og utan landsteinanna.
„Það er verkefnið sem ræður. Já við ætlum að búa hér. Við fluttum hingað með yngsta barnið okkar, hin eru farin að heiman, og ætlum að að búa hér. Svo getur maður í rauninni ferðast hvert sem er og eins og ég segi, verkefnið ræður.“