Þótt sauðkindin hafi fylgt íslendingum frá upphafi er margt sem við vitum ekki um atferli hennar, það hefur til dæmis lítið verið rannsakað hvernig kindur haga sér á sumarbeitinni. Halda þær sig á sama stað? Hvers vegna vilja sumar helst bíta grasið í vegkantinum?
Með GPS staðsetningartækjum má kortleggja ferðir kinda í sumarbeit. Það gerði Hafdís Sturlaugsdóttir, bóndi í Húsavík í Steingrímsfirði, fyrir nokkrum árum síðan þegar hún rannsakaði félagshegðun sauðfjár í meistaranámi sínu í landnýtingu við landbúnaðarháskóla Íslands.
„Helstu niðurstöðurnar voru þær að fjölskyldur héldu saman á beitinni,“ segir Hafdís sem komst líka að því að kindur sóttu í svæði sem þær þekktu eða líktust því sem þær þekktu. Kind sem var flutt milli svæða valdi til dæmis að ganga á samskonar svæði og hún hafði verið á áður en hún var flutt.
Auknar rannsóknir í þessum efnum gætu nýst bændum. Svo má líka nota GPS tækin sér til gamans. Í fyrrasumar prófaði Jóhannes Gísli Pálmason að setja GPS tæki á tvær kindur í Eyjafirði. Hann og aðrir gátu svo fylgst með ferðum þeirra allt sumarið. Þær héldu sig á frekar litlu svæði.
„Við ætlum að reyna á næsta ári að finna einhverjar óþekkar til að setja þetta á, það verður miklu skemmtilegra að fylgjast með þeim,“ segir Jóhannes Gísli.
Þáttinn í heild er hægt að sjá hér. Landinn er einnig á Facebook sem og á YouTube og Instagram: #ruvlandinn.