Í gær var stofnaður Menntaskóli í tónlist, sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi. Þar verður boðið upp á nám í rokki, djassi, poppi og klassískri tónlist en nemendur taka bóklega áfanga við Menntaskólann í Hamrahlíð.
Sigurður Flosason saxafónleikari er einn þeirra sem kenna við nýja skólann. Hann segir að skólinn feli í sér spennandi tækifæri, ekki síst fyrir börn sem hafi verið í tónlistarnámi frá blautu barnsbeini. Áður hafa menntaskólar boðið upp á tónlistarbraut þar sem hægt var að fá tónlistarnám metið. Nú stendur nemendum til boða tónlistarnám sem aðalnám, þar sem þeir fá bóklega áfanga, eins og íslensku og stærðfræði, metna.
Horfa til ríkis og borgar um húsnæði
Lögð verður áhersla á að útskrifa nemendur með stúdentspróf en skólahald fer fram á þremur mismunandi stöðum fyrst um sinn, í húsnæði FÍH í Rauðagerði, Tónlistarskóla Reykjavíkur í Skipholti, og bóklegir áfangar verða teknir í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Sigurður Flosason segir forsvarsmenn skólans horfa til ríkis og borgar í von um heppilegt framtíðarhúsnæði þar sem öll starfssemin gæti verið sameinuð undir einu þaki.
Freyja Gunnlaugsdóttir aðstoðarskólastjóri nýja skólans var gestur Guðrúnar Gunnarsdóttur í Mannlega þættinum á Rás 1, en hún segir að námsskráin sé tilbúin, vefurinn við það að fara í loftið, og innritun hefjist 6. mars næstkomandi. „Breytingin er sú að tónlistin mun vega þyngra, og það er formlega búið að meta alla tónlistina til framhaldsskólaeininga,“ segir Freyja. „Svo munu skólagjöldin lækka þrefalt, sem skiptir verulega miklu máli fyrir efnaminni nemdendur.“