Ritstjóri Slangurorðabókarinnar, Einar Björn Magnússon, segir að orðið „fössari“ sé gott dæmi um slangurorð sem hægt er að drepa. Banahöggið hafi verið greitt þegar það var valið orð ársins 2015 – um leið hætti það að vera töff.

Merking orðsins ætti að vera flestum kunn. Hér látum við engu að síður fylgja skilgreiningu þess, sem RÚV, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Mímir, félag stúdenta í íslensku, lögðu fram fyrir kosningu á orði ársins.

— Fössari

Fössari er slangurorð yfir föstudag og sumir hafa notað það árum saman. Það felur í sér gleði og spennu. Vinnuvikunni er að ljúka og helgarfríið að hefjast og nú má slaka á. Orðið er vinsælt myllumerki á samfélagsmiðlunum, oft með mynd af bjór eða pizzu eða stiklu úr kvikmynd.

Orðbragð fór á stúfana meðal frumbyggja í frumskógi slangursins, til að komast að því hvort „fössarinn“ væri virkilega dauður. Hægt er að horfa á innslagið í spilaranum hér að ofan.