Það eru um 1100 íslensk handrit til frá miðöldum. Þó er þetta ekki nema lítið brot af því sem var til, restin er glötuð. En það sem við þó eigum, eigum við að mestu leyti einum manni að þakka, Árna Magnússyni.
Nánast allt sitt líf leitaði Árni í koppum og kirnum að þessum ómetanlegu gersemum. Sumum handritanna bjargaði hann á síðustu stundu, því þau höfðu verið tekin í sundur og nýtt í eitthvað annað. Skinnhandritsbrot frá um 1200, sem hefur að geyma einar elstu teikningar sem varðveist hafa á Íslandi, sætti til að mynda afar skapandi endurvinnslu.
Fjallað var um handritin í Orðbragði á RÚV. Hægt er að horfa á þáttinn í Sarpinum.
„Þetta blað hefur verið notað sem sigti,“ segir Guðvarður Már Gunnlaugsson, handritafræðingur. „Það er búið að gata það það rækilega að það var notað til að sigta mjöl eða eitthvað því um líkt.“ Ástæðan fyrir því að handritin voru nýtt á þennan hátt er meðal annars sú að í sumum tilfellum voru til uppskrifaðar útgáfur af þeim á pappír, með læsilegri skrift. Skinn úr bókum sem þóttu óþarfar voru því endurnýtt, enda afar verðmæt.
„Maður skilur fólk sem þarf að draga fram lífið á einhvern hátt og nýtir það sem er í kringum það,“ segir Guðvarður. „Ég held að ég sé búinn að fyrirgefa þetta.“