„Sól slær sifri á voga, sjáðu jökulinn loga...“ syngur þjóðin með Óðni Valdimarssyni af hjartans lyst. Sumir tala um nýjan þjóðsöng. En hvaða lag er þetta, er það íslenskt, er það danskt, hver var hann þessi Óðinn og hver orti svona fallega?

Fjallað var um lagið „Ég er kominn heim“ í Bergsson og Blöndal á Rás 2 haustið 2015. Lagið varð vinsælt á vegferð íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem endaði með frækinni frammistöðu á Evrópumeistaramótinu 2016.

Hann gat verið svo fyndinn hann Ódi

Óðinn Valdimarsson söng „Ég er kominn heim“ með KK sextett og í bakröddum voru þau Jón Páll Bjarnason, Jón Sigurðsson og Ellý Vilhjálms sem minntist Óðins fallega í viðtali við Þorgeir Ástvaldsson. „Hann gat verið svo fyndin hann Ódi. Svo gaman að hugsa til þess stundum,“ sagði Ellý. „Stundum sá hann að það lá eitthvað illa á manni. Þá þurfti hann ekki annað en að setja fingurna undir sitt hvort axlarbandið og segja: „Góðir Íslendingar!“ og svo söng hann! „Hæ tröllum á meðan við tórum“ alveg svo kvað við! Og ég þurfti ekki meir, ég hló og hló og hló. Ómissandi svona menn. Bjarga deginum!“

Sjá einnig: Danskur áhrifavaldur „nýja þjóðsöngsins“

Menningin á hærra stigi á Akureyri

Óðinn Valdimarsson var fæddur á Oddeyrinni á Akureyri 21. janúar 1937. Hann ólst upp á Eyrinni við gott atlæti og hafði sterkar taugar til heimabæjarins. Honum þótti alltaf að menningin stæði á hærra stigi á Akureyri en sunnanlands og sagði blaðamanni frá því í viðtali eftir að hann hafði búið í tvö ár í Reykjavík og sungið með KK sextett. Lífshlaup hans varð ekki auðvelt og hann tapaði að lokum erfiðri glímu við krabbamein og bakkus og lést 16. júlí 2001.

Uppruni lagsins og endurreisnin á Íslandi

Jónatan Garðarsson sagði frá endurreisn „Ég er kominn heim“ en það byrjaði með Íslandslagaplötu Björgvins Halldórssonar númer 6 árið 2003. Síðar tekur hljómsveitin Sixties lagið og svo KK og Maggi Eiríks árið 2007, en um það leyti var eins og flóðgáttir opnuðust og nú hafa fjölmargir söngvarar og jafnvel kórar gert sínar útgáfur af laginu.

Jónatan rifjaði líka upp tilurð lagsins en það er óperettulag eftir Ungverja af gyðingaættum, Emmerich Kalman, og heitir á þýsku „Heut' nacht hab' ich geträumt von dir“ og er frá 1930 úr óperettunni Fjólan frá Montmartre. Emmerich þessi átti mjög athyglisverða ævi og samdi gríðarlega vinsælar óperettur. Hitler dáði tónskáldið og bauð honum að gerast „heiðursaríi“ en Emmerich hafnaði því og settist að í París. Hann fluttist svo til Bandaríkjanna en svo aftur til Parísar eftir stríð og deyr þar árið 1953.

Lagið var t.d. sungið af Nikolaj Gedda og Jussi Björling enda óperettulag en að öllum líkindum hefur lagið borist til Íslands í gegnum kvikmynd árið 1958 og þar hafa KK og Óðinn heyrt lagið. Jón Sigurðsson í bankanum er fenginn til að gera texta og það er sagt frá því í blaðadómi að þetta sé langsamlega besti texti sem Jón Sigurðsson hafi nokkurn tímann samið.