Sænsk-íslenska þáttaröðin Ísalög er dýrasta sjónvarpsþáttaröð sem framleidd hefur verið á Íslandi en kostnaður við hana var um 1,5 milljarður króna. Þættirnir gerast á Grænlandi en voru að mestu teknir upp hér á landi. Fyrsti þáttur Ísalaga, eða Tunn is, verðru frumsýndur á RÚV á sunnudag.

Sagafilm er íslenski framleiðandi Ísalaga. Einnig skrifa þrír íslenskir höfundar handrit þáttanna, þeir Birkir Blær Ingólfsson, Jónas Margeir Ingólfsson og Jóhann Ævar Grímsson. „Þetta snýst um umhverfisvernd og hlýnun jarðar og hvernig valdaöflin reyna að hafa áhrif á atburðarásina,“ sagði Kristín Þórhalla Þórisdóttir, eða Kidda Rokk eins og hún er gjarnan kölluð, í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Tökur fóru að miklu leyti fram hér á landi þrátt fyrir að þættirnir gerist að mestu á Grænlandi. Stykkishólmur er til að mynda í hlutverki þorps á Grænlandi í þáttunum. 

„Það má segja að þetta sé tekið meira og minna allt hér á Íslandi. Þetta á að gerast að stærstum hluta í Tasiilaq á Austur-Grænlandi. Ástæðan fyrir því er til dæmis að Grænland hefur ekki innviði til að takast á við svona stórt verkefni.“

Að sögn Kiddu hefur ferlið verið langt og strangt en Sagafilm hefur unnið að framleiðslunni í um sjö ár. „Ég hef starfað hjá Sagafilm síðastliðin þrjú ár og ég er búin að vinna að þessu verkefni síðan ég byrjaði. Það var byrjað að tala um þetta fyrir allmörgum árum,“ sagði hún.

Fjölmargir íslenskir leikarar koma við sögu í þáttunum auk þekktra leikara frá Skandinavíu. Þá leikstýrir Guðjón Jónsson þáttunum, meðal annarra.

Fyrstu tveir þættirnir hafa þegar verið sýndir í Svíþjóð við góðar undirtektir áhorfenda og gagnrýnenda.