Félag kristinna stúdenta er starfrækt í Háskóla Íslands. Félagið stendur fyrir reglulegum bænastundum í kapellu Háskólans. Kapellan er einkar glæsileg og hefur allt sem kirkjur almennt bjóða upp á.

„Við hittumst hér á bænastundum tvisvar í viku, á mánudögum og miðvikudögum. Hér er allt til alls, þetta er fullbúin kirkja,“ segir Matthías Guðmundsson jarðfræðinemi og formaður KSF, Kristilegs stúdentafélags við Háskóla Íslands. Háskólakapellan er á annarri hæð í Aðalbyggingu Háskólans og þar er altari, skírnarfontur og allt til staðar og líka kirkjuorgel sem smíðað var í Danmörku 1981.

„Starfið er svona að fara af stað, fólk kemur ekki endilega á bænastund til að hitta annað fólk en það er þó alltaf gott að biðja í hópi. Þetta er tækifæri fyrir kristna innan skólans, bæði nemendur og kennara til þes að koma saman og biðja. Biðja fyrir háskólasamfélaginu, nemendum og náminu og skólanum sjálfum,“ segir Matthías. Bænastundir innan skólans séu alls ekki nýjar af nálinni enda hafi félagið verið stofnað 1936. Að sögn Matthíasar er það í talsverðri uppsveiflu um þessar mundir.

Matthías kannast alveg við það að kristin trú eða trú almennt eigi ekki upp á pallborðið hjá yngra fólki en vill meina að öllum finnist þetta áhugavert að nánar athuguðu máli. „Kannski er það þannig að fólki almennt finnst þetta eitthvað skrýtið, það að ungt fólk sé almennt kristið. Þegar maður svo talar við fólk, kannski einn á einn, þá hugsar fólk öðruvísi og finnst þetta áhugavert. Þá kemur líka í ljós að fólk fermdist og trúir alveg en pælir kannski ekki mikið í þessu öllu,“ segir Matthías.

Ekki hefðbundnar guðsþjónustur

„Við bara komum hér saman, setjumst niður og spjöllum áður en við byrjum. Síðan drögum við spil úr öskju með Orði Guðs til þín, svona eitt vers í einu og lesum saman. Það er gott að byrja þannig,“ segir Matthías um fyrirkomulag bænastunda hjá KSF. Hann segir jafnframt að oft komi til sérstakt bænarefni þegar eitthvað hvílir á einstaklingum í hópnum. „Þá nefnum við það ef við viljum, til dæmis ef við vitum um einhvern nákominn sem er að ganga í gegnum eitthvað erfitt, þá spennum við greipar og lokum augum rétt eins og við lærðum í sunnudagaskólanum og biðjum. Þetta er kannski ekki eins og formleg guðsþjónusta. Við komum saman, tölum um Guð, tölum við hvert annað. Þetta snýst ekki um að standa upp og setjast niður á sama tíma. Þetta er bara okkar samtal um Guð,“ segir Matthías.

Kapellan er nýtt fyrir guðsþjónustur en mest notuð af þeim nemendum sem stunda guðfræði og trúarbragðafræði. Ætla má að nemendur skólans iðki önnur trúarbrögð en kristna trú en er þetta eina aðstaðan fyrir bænastundir? „Ég hef heyrt af því að það séu bænastundir annarra trúfélaga hér innan skólans en ég veit ekki hvar. Ég er þó nokkuð viss um að þau fá aðstöðu innan skólans. Auðvitað ættu önnur félög að fá sína aðstöðu en það vill bara svo til að við höfum þessa fallegu kapellu í aðalbyggingunni og við nýtum okkur það,“ segir Matthías. Aðspurður segist hann ekki viss um hvort það muni koma til þess að hann gifti sig í kapellunni en það sé vissulega hægt.