„Það er eins og gluggi opnist og þú ferð inn í líf fólks, inn í huga þess, færð að vita margt um það og að fylgja því í gegnum ögurstundir lífs þess. Þú færð einhverja mynd af fólki sem ég vil að þú upplifir að sé af holdi og blóði, eins og þú hafir verið hluti af lífi þess, eða fengið að fylgjast með úr mjög góðu stúkusæti,“ segir Guðrún Eva Mínuervudóttir um smásagnasafnið Ástin, Texas, sem hlaut í dag Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta, og sem er bók vikunnar á Rás1.
Guðrún Eva hefur gefið út átta skáldsögur en fyrsta bók hennar, sem kom út árið 1998, er líka smásagnasafn sem ber titilinn Á meðan hann horfir á þig ertu María Mey. Guðrún Eva er einnig ljóðskáld og yfir höfuð einn af öflugustu rithöfundum okkar, enda byrjaði hún snemma að gefa út verk sín. Hún hefur nokkrum sinnum verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hreppti þau árið 2011 fyrir skáldsöguna Allt með kossi vekur.
Sögurnar í Ástin Texas fjalla um konur á ýmsum æviskeiðum og í ýmsum samfélagslegum aðstæðum en þær eiga það sameiginlegt – eins og við kannski öll – að vera svolítið týndar og leitandi þegar kemur að ástamálum og samböndum. Sterk persónusköpun og ljúfsár tilfinning einkenna þessa bók. Sögurnar tengjast lítillega gegnum ýmsar persónur sem koma við sögu, til dæmis trúboðann Austin sem kemur frá Texas og hefur áhrif á líf tveggja aðalsögupersóna.
Rætt var við Guðrúnu Evu í Víðsjá og hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að ofan, auk lesturs úr bókinni.
Auður Aðalsteinsdóttir ræddi við gesti Bókar vikunnar á Rás 1, Guðrúnu Nordal og Jóhönnu Maríu Einarsdóttur, um bókina. Hlusta má á þáttinn í heild hér: