Uppáhellingarnir segja að vorið sé komið
„Í laginu Vor í Reykjavík leiði ég sönghópinn Uppáhellingana æandi og óandi gegnum dálítið misgeðslegar svipmyndir af reykvíska vorinu; texta sem Þórarinn Már Baldursson fjöllistamaður í Melabandinu samdi,“ segir Andri um nýja lagið í Popplandi.
„Lagið er í einhverjum brasilískum blendingsstíl, innblásið af fjölbreyttri brasilískri tónlist sem við Uppáhellingar höfum fengið að leika með gítarleikaranum Ife Tolentino í árlegu farflugi hans hingað. Ég ætlaði fyrst að hafa fá hljóðfæri í laginu og rumpa upptökunum hálfpartinn af, en áður en yfir lauk voru allir í Moses Hightower komnir inn á upptökuna auk Gumma P og Matta Hemstock, og Magnús Jóhann búinn að taka sóló á hið fágæta hljóðfæri ondes martenot – hugsanlega fyrsta íslenska ondes-sólóið á upptöku. Vorið er komið.“