Trébátasmíði er arfleifðin okkar

Þórdís Claessen

Trébátasmíði er gömul hefð í Breiðafirði og handbragðið lifir enn góðu lífi. Jón Ragnar Daðason er af ætt trébátasmiða og hefur gert upp rúmlega aldar gamla báta sem tilheyrðu forfeðrum hans.

„Þetta er mikil handavinna og þolinmæðisverk“ segir Jón Ragnar sem hefur komið sér upp myndarlegu verkstæði í verbúð heima í Stykkishólmi. Áður var notuð fura í bátana og efstu umförin máluð í hvítum og grænum lit til að þekkja bátana á miðunum. Hrátjaran hefur reynst vel til að verja timbrið og hefur aldeilis ekki fallið úr gildi.

Jón Ragnar vinnur þó mest við að gera upp gömul hús og hefur komið að endurreisn fjölmargra húsa í Stykkishólmi og víðar. Hann býr ásamt fjölskyldu sinni í gömlu húsi sem dæmt var ónýtt og stóð áður sem bakhús við Laugaveg í Reykjavík.