Prófar sig áfram í bollagerð með ísfirskum leir
Í vinnustofunni Netagerðinni á Ísafirði hefur Íris Ösp aðstöðu þar sem hún leyfir listsköpuninni að njóta sín. Hún er mikið að búa til bolla og kynntist nýverið ísfirska leirnum í bollagerð.
Það var franskur maður sem fékk aðgang að vinnustofu hennar síðastliðið sumar og fékk hugmyndina að því að nýta leirinn. Hann fór á stúfana og fann leir sem Íris stefnir nú á að kynna sér betur og nýta.
Íris segist ekki vita til þess að margir hafi nýtt ísfirska leirinn hingað til. „Mig grunar að það sé vegna þess að þetta er svo gamalt og járnríkt, það er kannski þægilegra að finna leir á yngri og heitari svæðum.“