Blanda krabbameinslyf á Sjúkrahúsinu á Akureyri – „Mjög gefandi á margan hátt“
Að blanda lyf krefst mikillar nákvæmni og ekki síður hreinlætis. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri er vandað til verka í hverju einasta skrefi.
Í blönduninni felst að undirbúa lyf, spritta þau og svo auðvitað blanda. Kara Guðný Knutsen lyfjatæknir segir það vandasamt verk. „Þetta eru hættuleg lyf að vinna með og maður þarf að vanda sig mikið.“ Kara er í hvítum galla og með grímu og gleraugu sem hylja andlit, til að verjast sterku efnunum, auk þess sem það kemur í veg fyrir að óhreinindi fari í lyfin.
Jóna Valdís Ólafsdóttir deildarstjóri segist finna fyrir mikilli nánd við sjúklinga, þrátt fyrir að hitta þá ekki. „Maður fylgist auðvitað með ferli einstaklings sem byrjar í krabbameinslyfjagjöf og sér hvernig honum vegnar. Þannig þetta er mjög gefandi á margan hátt.“