Steindór hamast eins og hetja
„Ég samdi þetta lag einhvern tímann og mig hefur lengi langað að lífga það við. Sprengja það svolítið upp,“ segir Steindór um lagið sem kom út á dögunum. Hann fékk Albert Finnbogason upptökustjóra með sér í verkið. „Við Albert eigum það sameiginlegt að vera miklir Bítla-aðdáendur, sem heyrist ágætlega í laginu.“
„Ég eyddi dágóðum tíma í að fá gítarsándið sem ég vildi. Það fékkst ekki fyrr en ég plöggaði mínum gamla Epiphone Casino í frekar frumstæðan bjögunar-pedala. Þá kom svona þetta hráa Revolver-sánd sem ég var að leita að. Textinn er að vinna á nokkrum stöðum. Í viðlaginu rifja ég upp hversu uppnuminn ég var sem unglingur, þegar ég uppgötvaði einhverja nýja tónlist eða nýja tónlistarmenn. Unglingurinn ég fór til dæmis á Doors í Stjörnubíói og kom gjörbreyttur ungur maður/unglingur út.“