KUSK og Óviti með læti

Lovísa Rut Kristjánsdóttir

Lagið Læt frá mér læti sömdu þau Hrannar Máni Ólafsson og Kolbrún Óskarsdóttir, KUSK og Óviti. Það er fyrsta lagið af væntanlegri plötu og þau segjast ætla að byrja með krafti. „Lagið ber með sér miklar breytingar á bæði hljóðheimi og textaskrifum hjá okkur,“ segir Kolbrún. „Grunnurinn að laginu liggur í drum and bass-töktum sem drífa það áfram ásamt kraftmiklum synthum,“ bætir Hrannar við.

„Lagið varpar fram spurningum á við: „Ertu tilbúin að gera allt?“ og textinn tekst á við togstreitu og örvæntingu,“ segja þau. „Með drífandi söng og hljómum er lagið fullkomið fyrir hlustendur sem eru að gíra sig upp, vilja fá útrás á dansgólfinu, syngja með eða bara hlusta á góðum degi.“