Færð tíma til að melta og mætir svo aftur fullur af eldmóð
Edda S. Thorlacius hestakona á Hvolsvelli tekur á móti börnum vikulega og kennir þeim allt um hesta og reiðmennsku. Markmiðið er að gera börnum sem hafa ekki aðgang að hestum kleift að kynnast hestamennsku.
„Ég hef alltaf verið algjör hestasjúklingur sjálf, frá því ég man eftir mér,” segir Edda. Foreldrar hennar voru ekki með hesta, svo hún sóttist mikið í að komast í hesthús hjá afa sínum á Akranesi. Hún telur akkur í því fyrir börnin að mæta reglulega í hesthús í lengri tíma.
„Að mæta einu sinni í viku yfir allan veturinn gerir miklu meira en að mæta á eitt námskeið að sumri, myndi ég segja. Af því þú hefur tíma til að melta það sem þú varst að læra. Jafna þig ef þú ögraðir þér svolítið. Svo kemurðu aftur fullur af eldmóð,” segir Edda.
Landinn heimsótti Eddu í hesthúsið.