Öruggasti salur landsins
Undir Bústaðarvegi i Reykjavík er mannvirki sem átti að standast hinar mestu hamfarir. Landsvirkjun byggði árið 1987 niðurgrafna stjórnstöð til að tryggja mikilvægustu innviði þjóðarinnar eins og raforkuna.
„Þetta var á sínum tíma ein nútímalegasta, öruggasta og flottasta stjórnstöð landsins“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets.
Ofan á byggingunni er eins metra þykk forspennt plata sem átti að standast mikið sprengjuálag. „Það var gert ráð fyrir ýmsu en aðalatriðið var að engir kæmust hér inn til að valda skaða“ segir Guðmundur Ingi.
Tímarnir hafa vissulega breyst. Viðbúnaðurinn hefur þróast með aukinni þekkingu og fjölbreyttari möguleikum.
„Hér voru mjög fullkomin tölvukerfi þá, en þau eru allt önnur í dag og hafa þróast gríðarlega mikið“.