Ari Árelíus á krossgötum
Ari Árelíus gefur út fyrsta lagið af væntanlegri plötu á morgun. Platan hefur fengið nafnið Hulin hönd en lagið heitir Sakramentið og er að hans sögn fullkomið fyrir kosmíska stund á föstudagskvöldi. Ari sendi Popplandi póstkort og sagði hlustendum frá.
„Ég var á krossgötum þegar ég samdi lagið, margar breytingar, flutningar á milli landa og líf mitt fyllt þversögnum,“ segir Ari. „Ég var að hugsa um hvað stjórnar mér, tengingu eðlis og mótunaráhrifa samfélagsins. Svo kem ég heim og geng meðfram sjónum og heyri öldurnar hvísla að mér að fanga skuggann og flæða óspart áfram með þökk í hjarta, endurskapa þetta líf í von. Sakramentið, birtingarmynd hins heilaga í okkar lífi er opin til túlkunar, er okkar að ákveða. Ég vona að lagið færi ykkur gleði í dýptinni og dýpt í yfirborðið.“