Notaleg vist í óbyggðum

Þórdís Claessen

Bærinn Egilsstaðir var síðasta byggða ból í Norðurdalnum, rétt við rætur stærstu óbyggða í Evrópu. Hjónin Steingrímur Karlsson og Arna Björg Bjarnadóttir gerðu upp býli forfeðra hans og skópu heillandi veröld.

Óbyggðasetrið er gististaður í anda fortíðar sem býður upp á heimagerðar veitingar úr hlýlega eldhúsinu í gamla bænum. Mikið var lagt í að endurskapa liðinn tíma og viðhalda upprunalegu útliti staðarins eins og hægt var.

Á Óbyggðasetrinu er glæsileg sýning með sögum um afdrif fólks á þessum slóðum og ekki síst um dugnað systkinanna á gamla bænum.

Nú hefur hin finnska Ella Saurén tekið við stýrinu og átti þátt í að gufubað risi á lóðinni. Nýju gistihúsi var bætt við fyrir nokkrum árum, innréttað með sama fortíðarblæ og er í gömlu húsunum.

„Þetta er sannarlega ástríðuverkefni,“ segir Ella.