Æfa samskipti og viðbrögð á talandi dúkkum
Þegar Landinn mætti á Sjúkrahúsið á Akureyri lá þar sjúklingurinn Jóna, 78 ára kona sem var lögð inn með lærbrot. Læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk hefur áhyggjur af breyttri líðan Jónu og reynir að finna út hvað amar að. Jóna er reyndar ekki alvöru manneskja, heldur brúða í hermisetri Sjúkrahússins á Akureyri.
Hrafnhildur Lilja Jónsdóttir, fræðslustjóri á mennta- og vísindadeild sjúkrahússins, segir mikilvægt að geta æft viðbrögð við ólíkum aðstæðum með þessum hætti. Bergþór Steinn Jónsson, sérfræðingur í bráðalækningum, segist oft gleyma því að hann sé í aðstæðum sem ekki eru raunverulegar þegar verið er að æfa.