Spennandi tilfinning að vera fyrst til að uppgötva eitthvað nýtt
„Við erum alltaf að finna eitthvað sem enginn veit um. Það er mjög spennandi tilfinning,” segir Kimberley Jade Anderson þegar hún lýsir því af hverju hún vildi verða vísindamaður.
Kimberley er hluti af ellefu manna teymi Hans Tómasar Björnssonar á vegum Lífvísindaseturs Háskóla Íslands og Landspítala. Þar er unnið að tveimur stórum rannsóknum. Önnur þeirra snýst um kælimeðferð, sem er til dæmis notuð til að draga úr taugaskaða við drukknun eða þegar börn lenda í súrefnisskorti við fæðingu.
Hin gengur út á að rannsaka Pilarowski/Björnsson-heilkennið, sem veldur einhverfulíkum einkennum og talvandamálum. Þar kom á daginn að testósterón gæti verið lykillinn að því að stemma stigu við einkennum.
Rannsóknirnar voru til umfjöllunar í 500. þætti Landans.